Höfundur: Bára Jóhannesdóttir
Neyslumenningin sem umlykur okkur hefur margar birtingarmyndir. Fyrir jólin hellist yfir fjöldann hvernig hin fullkomnu jól eiga að vera, kaupa gjafir, baka margar sortir og að öðru ógleymdu, hinn fullkomni jólamatur. Um áramótin eru gerðar kröfur um að skemmta sér meira og betur en öll önnur kvöld ársins. Væntingar eru alls staðar og þær eru skrúfaðar upp, allt til að selja meira. Reglurnar eru allt í kringum okkur, hvernig við eigum að hegða okkur, hvernig við eigum að vera klædd eða hvernig jólin og áramótin eiga að vera til að vera ALVÖRU. Þú þarft að eiga allt og kaupa fullt til að geta kallast ALVÖRU.
Það hefur mikið verið fjallað um brjóst og brjóstastækkanir seinustu vikurnar. Hvernig er annað hægt? Gallaðir púðar sem innihalda iðnaðarsilíkon en ekki læknasílikon settir í líkama kvenna og við þurfum að ræða þetta aðeins. Hér er ekki verið að dæma konur sem fá sér sílikon heldur er verið að gagnrýna kerfi samfélags sem þykir það ekki tiltökumál að fara í svona aðgerðir.
Neyslumenning samfélagsins hefur skilgreint brjóst sem varning. Þú getur keypt þér ný brjóst, stærri brjóst eða bara betri brjóst. Læknar bjóða upp á þessar aðgerðir og hafa þannig samþykkt það að brjóst séu ekki nægjanleg svona eins og þau eru. Venjulegt fólk er ekki í aðstöðu til að mótmæla því, læknar hafa vald til að skilgreina hvað sé sjúkdómur og hvað ekki enda eru þeir sérfræðingarnir (Sigrún Ólafsdóttir, 2004). Þannig er búið að skilgreina lítil brjóst sem vandamál eða sjúkdóm, bæði félagslega sem og læknisfræðilega. Ef læknar hefðu ekki samþykkt þetta væri frekar erfitt að fara í sílikon eða láta hengja upp brjóst sem lafa eins og tepokar eftir brjóstagjöf.
Í almennri umræðu er talað um hvernig konur séu að nýta sér sinn frjálsa vilja og geri það sem þeim sýnist við eigin líkama (Annadís Greta Rúdólfsdóttir, 2007). Þótt í sumum tilfellum geti það verið eflandi fyrir konu sem einstakling að fara í brjóstastækkun, þá viðheldur það forræði feðraveldisins sem kúgar konur sem hóp. Það eru ekki bara karlmenn sem viðhalda feðraveldinu, konur eru partur af samfélaginu og eru ekki undanskildar því að viðhalda því (Gangé og McGaughey, 2002; Sigríður Þorgeirsdóttir, 2005).
Hver hefur svo ekki heyrt þetta? „Fötin passa svo illa á mig því ég er með svo lítil brjóst“ eða „Mér líður svo illa þegar ég fer í sundföt því þau passa mér ekki.“ Hér væri eðlilegt að búa til föt sem passa á konur fremur að búa til konur í fötin. Hér á landi eru víst um 400 konur með þessa tegund af sílikoni (Vísir, 2011). Eftir svona brjóstastækkunaraðgerð þurfa konur að fara og láta skipta um púða á nokkurra ára fresti og fylgjast vel með að ekki sé sýking eða púðarnir leki og skurðaðgerð er aldrei hættulaus. Í bæklingi Landlæknisembættisins (2002) er t.d. minnt á að stúlkur undir tvítugu ættu ekki að fara í brjóstastækkun þar sem líkami þeirra sé ekki fullþroskaður.
Þættir eins og Extreme makeover, Bridalplasty og fleiri sjónvarpsþættir hafa hjálpað til við að gera lýtaaðgerðir að norminu, einhverju sem við ættum öll að stefna að. Skilaboðin sem við fáum um hvernig kynin eiga að vera og hvernig þau eiga að hegða sér fáum við einmitt frá sjónvarpsþáttum sem og öðrum fjölmiðlum, s.s. tímaritum, bíómyndum og tónlistarmyndböndum svo eitthvað sé nefnt. Klámvæðingin umlykur okkur oft án þess að við gerum okkur grein fyrir því og félagsmótun kynjanna er ólík. Það eru ekki gerðar sömu kröfur til stráka og stelpna. Klámiðnaðurinn og klámefni hefur ýtt undir það að konum finnist þær ekki í lagi eins og þær eru, þær þurfa alltaf að laga eitthvað (Sigríður Þorgeirsdóttir, 2005). Þannig er að konur geta upplifað mikinn þrýsting um að líta út eins og samfélagið vill, ef konur láta ekki stækka á sér brjóstin passa þær ekki inn í skilgreiningar á hvernig konur eiga að vera og þannig eru þær ekki taldar eðlilegar (Goodman, 1996). Ekki leitast karlmenn sjálfir við að hafa stór brjóst eða „man boobs“. Ef þeir hafa stór brjóst þá geta þeir farið í brjóstaminnkun sem er sífellt algengari aðgerð, allavegana í Bandaríkjunum og Bretlandi og þá sennilega hér á Íslandi líka.
Við sem samfélag þurfum að taka okkur saman í andlitinu og skoða hvaða skilaboð við erum að fá, allsstaðar frá. Einnig þurfum við að spá í hvað sé talið eðlilegt við að láta krukka í líkama okkar, eru lítil brjóst virkilega vandamál fyrir konur eða kvilli? Er eðlilegt að fara í aðgerð til að minnka útstæð eyru? Hvar liggja mörkin? Er brjóstastækkun bara vandamál þegar í ljós kemur galli í sílikonpúðunum eða þurfa konur yfirhöfuð eitthvað að vera að eiga við brjóstin á sér til að teljast eðlilegar og þá karlmenn líka, sem láta minnka þau? Það á ekki að láta peningana, klámið, og markaðsöflin ráða hvernig við lítum út bara til að selja okkur meira, snyrtivörur eða varning eins og aðgerðir án þess að gagnrýna neitt.
Við erum nefnilega fullkomin eins og við erum.
Heimildir:
Annadís Greta Rúdólfsdóttir. (10. nóvember 2007). Fyrirlestur á fjórða þingi RIKK í Háskóla Íslands. Sjaldan á dagskrá: Ungar breskar konur tala um femínisma.
Gagné, P. og McGaughey, D.. (2002). Designing Women: Cultural Hegemony and the Exercise of Power among Women Who Have Undergone Elective Mammoplasty [Vefútgáfa]. Gender Society, 16(6), 814-838.
Goodman, M. (1996). Culture, Cohort, and Cosmetic Surgery [vefútgáfa]. Journal of Woman and Aging, 8(2), 55-73.
Landlæknisembættið. (2002). Brjóstastækkun: almennar upplýsingar [bæklingur]. Reykjavík: Höfundur.
Sigríður Þorgeirsdóttir. (2005). „Breast Augmentation Surgery: Empowerment in Times of Pornography“. Technology in Society and Society in Technology. Örn D. Jónsson og Edward H. Huijbens (ritstj.). Háskólaútgáfan (2005), 323-342.
Sigrún Ólafsdóttir. (2004). Íslensk félagsfræði. Í Þóroddur Bjarnason og Helgi Gunnlaugsson (ritstj.). Félagsfræði heilsu og veikinda (288-308). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Vísir. (2011, 26. Desember) 400 íslenskar konur með frönsku sílikonpúðana. Vísir. Sótt 29. des. 2011, frá http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVC12EFC76-E689-4A40-9B89-6E08F7CF10ED