Fegurð: aðferðir, aðgerðir

Höfundur: Yrsa Þöll Gylfadóttir

Hugleiðingar eftir lestur á The Beauty Myth eftir Naomi Wolf:
– Fyrri hluti –

Bókin The Beauty Myth: How Images of Beauty Are Used Against Women eftir Naomi Wolf kom út árið 1991 og var endurútgefin árið 2002. Til grundvallar bókinni tók Wolf viðtöl við fjöldamargar konur og spurðist fyrir um það hvað þeim fyndist að væri það sem hún kýs að nefna fegurðargoðsögnina. Á hún þá ekki við að fegurð sé goðsögn að því leyti að hún sé eitthvert óáþreifanlegt eða ófyrirfinnanlegt fyrirbæri, heldur að fegurð sé á stalli, rétt eins og aðrar goðsagnir, og sé mjög plássfrekt og ríkjandi fyrirbæri sem tengist konum oftast sterkari böndum en körlum. Í bókinni hermdu konur frá áhyggjum, komplexum og efasemdum um að standast ekki ákveðnar kröfur um ásættanleika hvað varðaði fegurð í samfélagi sínu (sem tengdust aldri, hreysti, holdarfari, litarhafti, klæðnaði, líkamsburði, o.s.frv.). Mér þykir því auðveldara að nefna fegurðargoðsögnina fegurðarkröfuna.
Fegurð í sjálfu sér er einstakt og margslungið fyrirbæri. Sumir segja að fegurðin liggi í augntilliti okkar og sé því alfarið huglæg. Aðrir vísindamenn hafa hafnað því og segja fegurðarskynið vera meðfætt, eðlislægt og eins alls staðar , þrátt fyrir sannanir þess efnis að á Fiji þyki það fallegast að vera vel í holdum og í ákveðnum löndum Afríku að vera með teygðan háls af hringjum eða einhvers konar disk í vörinni . Hvað sem því líður höfum við náttúrulega tilhneigingu til að sjá og njóta fegurðar, umvefja okkur fegurð í einhverri mynd. Auk þess sem ekki má gleyma að fegurðarskyn okkar er stór þáttur í að draga okkur að hvert öðru og fella hugi saman.
Hins vegar þegar fegurð byrjar að fela í sér vafasama aðferðafræði, verður of fyrirferðamikil í lífi okkar (á kostnað annarra þátta) eða felur í sér óþarflega mikla fyrirhöfn og óþægilega, sársaukafulla eða hættulega (hvort sem það er andlegri eða líkamlegri heilsu okkar), eða felur í sér mikil fjárhagsleg útlát, og í kringum hana byggður gríðarstór iðnaður, þá er fegurð orðin eitthvað annað en fögur.

Fegrunaraðferðir
Eftir lestur á bókinni ákvað ég að búa til eins konar líkan, eða ás, yfir fegurðarkröfur sem gerðar eru að mestu leyti til kvenna, en að sjálfsögðu í vaxandi mæli til allra. Fegurðarað(f/g)erðum má þannig stilla upp á ás frá fremur hóflegum til óhóflegra. Ásinn er einhvern veginn svona (og að sjálfsögðu er listinn ekki tæmandi og flest neðangreint er samofið fram og aftur í flækju):

Á lægri skalanum: Hlutlæga fyrirbærið fegurð
– Fegurð sem “áhugamál kvenna”

Sú krafa að fegurð skuli vera ríkjandi hugðarefni kvenna, það sem kona er talin vera “góð” í, lætur sig varða, einkennist af og er haldið að henni.
Fegurð og fjármunir
Sú krafa að eyða óhóflega í fegurð og vera neyslugrís á fegrunarvörur. Að kaupa hluti fyrir líkamann er stundum fegrað og nefnt “dekur”, en hefur oft ekkert með dekur að gera. Það verður að spyrja sig – hver græðir?
Fegurð og óþægindi
Sú krafa að vera fallegur hefur oft í för með sér ýmis óþægindi, allavega ef maður er ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að vera svo af náttúrunnar hendi. Með hinum ýmsu klækjum og brögðum er hægt að verða hávaxnari, grennri, hárlausari og þar fram eftir götunum. Í okkar samfélagi er fullkomnlega eðlilegt að ganga um á svimandi óþægilegum skófatnaði, láta aðhaldssokkabuxur kremja á manni líffærin, húðina sárna og bólgna og bjóða hættu eins og blöðrubólgu heim, allt í nafni fegurðar.
Fegurð og ritskoðun
Sú krafa sem gerð er á að ákveðið straumlínulagað útlit birtist sem víðast (í auglýsingum og miðlum almennt), og að annað og fjölbreytilegra sé ritskoðað, fegrað, lagað, hulið eða hunsað.

Á miðjuskalanum: Huglæga fyrirbærið fegurð
Fegurð sem lífshamingja og sjálfsöryggi!
Krafan um fegurð er helvíti kænsk og finnur sér leiðir til sjálfsréttlætingar. Nú trúa því margir (og ekki efast ég nokkuð um það, ég þekki vel mátt sannfæringar fjöldans og lærðrar hegðunar) að lífshamingja og sjálfsöryggi aukist sé manneskja falleg. Flestar konur sem spurðar eru að því af hverju þær dekstri við sig á þennan eða hinn háttinn segjast oftast gera það sjálfs sín vegna, því þá líði þeim betur og séu sjálfsöruggari. Nærtækt dæmi eru lýtaaðgerðir, sem að sögn margra kaupa eigendum púðanna sjálfsöryggi (og annað verra, en við skulum sleppa þeirri umræðu í bili).
Kröfur um fullkomnun, áhyggjur og vanlíðan yfir útliti
Fegurðarkrafan getur verið það mikil að fólki þyki óásættanlegt að vera ekki fullkominn, lýtalaus, samstæður, sléttur og felldur, og sálrænt líði það fyrir útlit sitt, sem samræmist ekki því sem það sérð hvarvetna í kringum sig. Sumar konur óttast jafnvel það að fara út í búð “án andlitsins” og geta ekki verið án þess. Þess háttar skömm afhjúpar þrældóm fegurðarkröfunnar.

Á hærri skalanum: Ofbeldi fegurðar

Klámvædd fegurð
Það eru allir kynverur, karlar sem konur fíla kynlíf, kynþokka og hin dularfullu og rökkvuðu stræti lostans (m.a.s. femínistar!), en það er svo annað þegar fegurðarkrafan á konur er orðin klámvædd (ekki erótísk – mikill munur þar á), og allt niður í ungar stelpur eru farnar að umturna útliti sínu og hegðun til að þóknast afbökuðum hugmyndum um samskipti kynjanna sem birtast í klámi.
Sársauki, þjáning og hætta
Óþægindi sem fylgifiskur fegurðar er í sjálfu sér ekkert háalvarleg, frekar sorgleg eða hjákátleg. En öðru máli gegnir um sársauka og þjáningu og þá gömlu kreddu að þjáning fylgi óhjákvæmilega fegurð – og það á einnig við um þjáningu sem maður hefur vanist og álítur ekki lengur þjáningu, eins og að finnast bara allt í lagi að stofna lífi sínu í hættu með svæfingu til að “leiðrétta” missíða skapabarma eða þess háttar. Ef manneskja tekur áhættu, eins og að fara í brjóstastækkun, eða stofnar lífi sínu í hættu með átröskun, hefur hún klárlega orðið fegurðarkröfunni að bráð. Önnur dæmi um hættulegar og öfgafullar aðferðir til að fegra konur, en sem okkur á Vesturlöndum þykja ógeðfelldar (áhugaverður menningarlegur tvískinnungur), eru t.d. að reyra fætur eða umskera ungar stúlkur.
(Aths.ritstjórnar: Greinin birtist upphaflega í morgun sem drög en hefur nú verið snyrt)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.