„Fyrir konur“

Höfundur: Rún Knútsdóttir

Mynd af http://www.kaboodle.com

Fyrirbæri eins og Pjattrófurnar, Smartlandið og Bleikt.is hafa verið talsvert í umræðunni meðal femínista síðustu misseri, að ógleymdum þætti Tobbu Marinós, sem átti að fjalla um allt sem konur hafa áhuga á. Hafa þessir miðlar verið gagnrýndir fyrir að ofureinfalda áhugamál kvenna og leggja áherslu á útlit og líkamsform umfram annað. Hafa viðkomandi miðlar svarað þeirri gagnrýni með því að þar sé verið að fjalla um tiltekin áhugamál einhverra kvenna og skilja ekki af hverju gagnrýnin hefur verið svona hávær.
Hér ætla ég að fjalla aðeins um framsetningu á þessum miðlum og hvernig þeir eru markaðsettir á þann hátt að truflar alla vega mínar femínísku taugar.

Fyrir konur, drottningar o.s.frv.
Flestir þessara miðla hafa verið markaðsettir á ákveðinn hátt með einhverskonar slagorði, mottói eða öðru slíku.
Bleikt.is hefur til dæmis haft undirtitilinn „vefur fyrir drottningar“. Þar sem eru ekkert voðalega margar raunverulegar drottningar til í heiminum og fæstar þeirra læsar á íslenska tungu er ekki hægt að skilja þessa vísun nema svo að hér sé átt við konur almennt. Hvort að til sé nánari skilgreining á hvers konar kona sé „drottning“ svona í daglegu tali er mér ekki kunnugt um og ég geri ekki ráð fyrir að vefnum sé beint að dragdrottningum, a.m.k. ekki ef miðað er við efnistökin. Því hlýtur túlkun okkar á þessari setningu að vera sú að hún þýði „vefur fyrir konur“ og því sé markhópurinn allar konur.

Tobba Marinós og Ellý Ármanns kynntu fyrirhugaðan þátt sinn sem þátt sem fjalla myndi um öll helstu áhugamál kvenna; útlit, líkamsrækt og kynlíf. Listinn er tæmandi, ekki satt? Því skal þó haldið til haga að þær drógu þetta til baka eftir að gagnrýni kom fram á þessa framsetningu á efnistökunum.

Pjattrófurnar nota setninguna „aðlaðandi er konan ánægð“, sem augljóslega gefur til kynna að markhópurinn sé konur sem vilji vera aðlaðandi og þar af leiðandi ánægðar. Setningin felur í sér að konur geti ekki verið ánægðar nema þær séu aðlaðandi og að þeim sé nægjanlegt að vera aðlaðandi til að vera ánægðar. Enda vita allir að konur geta ekki verið ánægðar með sig nema þær séu eftirsóknarverðar í annarra augum, en öll afrek þeirra og áhugamál duga ekki til að fylla þær sjálfstrausti ef útlitið er ekki óaðfinnanlegt.

Fyrir veiðimanninn og bílaáhugamanninn

Þegar horft er hins vegar á markaðssetningu sem beint er að karlmönnum sést afskaplega sjaldan að eitthvað sé markaðsett fyrir karlmenn sem heild, eða fyrir karlmenn sem einn, einsleitan markhóp.

Þær línur og auglýsingar sem yfirleitt er beint að karlmönnum eru orðaðar þannig að áherslan sé á það sem fjallað er um eða verið er að selja, t.d. „miðstöð bílaunnenda“, „allt fyrir veiðimanninn og -konuna“ eða fyrir „fótboltaáhugamenn“. Hvergi hef ég orðið vör við að vefur eða sérstakt áhugamál sé markaðsett fyrir karlmenn einungis eða „allt sem karlmenn hafa áhuga á“.

Mynd frá http://www.photo.is

Það sem sést kannski svo augljóslega hér er að í samfélaginu er greinilega orðið almennt viðurkennt að konur geti haft áhuga á bílum, veiði og fótbolta, eða allavega nægjanlega viðurkennt til þess að auglýsendur sjái sér hag í að markaðssetja fyrir bæði kynin. Einnig þykir orðið ótækt að auglýsa eitthvað bara fyrir karlmenn, því það minnir á þann tíma þegar ekki þótti sæma að konur hefðu áhuga á þessum hlutum.

Af hverju skiptir þetta máli?

Hvaðan kemur sú hugmynd að áhugamál kvenna einskorðist við heimili, hönnun, mat, tísku, útlit og sambönd/kynlíf (eins og efnistök þessara miðla gefa til kynna)? Mér vitanlega hafa flestir karlmenn áhuga á að líta vel út og margir fylgjast mikið með tísku. Fæstir karlar mála sig en þar er eiginlega munurinn upp talinn því karlmenn stunda líkamsrækt alveg jafn mikið, ef ekki meira, en konur, karlmenn hugsa um húðina á sér, lita á sér hárið og kaupa sér dýr tískuföt og einhvern veginn efast ég um að kynlíf myndi flokkast til séráhugamála kvenna. Af hverju er það þá að þessir vefir eru ekki markaðsettir fyrir útlitsáhugafólk, tískuáhugafólk eða snyrtivöru- og förðunaráhugamenn? Margir af fremstu förðunarfræðingum, hárgreiðslumeisturum og fatahönnuðum heims eru karlmenn.

Mynd frá http://www.ksi.is

Með því að markaðssetja þessar útlits- og lífstílssíður bara fyrir konur er verið að gera þetta að einhverju skylduáhugamáli kvenna um leið og gert er lítið úr áhuga karlmanna á að líta vel út. Útlit, snyrtivörur og tíska eru ekki talin æskileg áhugamál karlmanna, en kona sem ekki er aðlaðandi er ekki ánægð.
Konur hafa ekki allar áhuga á útliti og tísku og þeim ber engin skylda til þess. Þær geta haft áhuga á bílum, bókum, veiði, fótbolta, byssum, tísku, stærðfræði eða bara hverju sem er. Það að segja að eitthvað sé fyrir konur eða allt sem konur hafi áhuga á er heimskulegt, vægast sagt grunnhyggið og þvílík ofureinföldun.

4×4 klúbburinn og Skotveiðifélag Íslands eru búin að fatta þetta, af hverju ekki þið?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.