Opið bréf til stjórnar Kvikmyndaskóla Íslands

Höfundur: Nína Salvarar

Fjölbreytni og margbreytileika misréttis má ekki síst finna í viðbrögðum þolendanna. Sumir berjast, aðrir draga sig í hlé. Sumir missa vonina, aðrir verða reiðir. Merkilega algengt viðbragð hjá bæði þolendum og gerendum er að neita að viðurkenna vandamálið eða afsala sér ábyrgð með því að benda á þann sem situr ofar í goggunarröðinni.

Langvarandi misrétti fylgir brengluð samfélagssýn sem á endanum endurspeglast í samfélaginu þannig að óeðlilegrar slagsíðu fer að gæta í því svigrúmi sem mismunandi hópum er úthlutað. Misrétti elur einnig af sér fáfræði og tímalaust vopn gegn hvorutveggja er menntun, sem beitt hefur verið markvisst til að brjóta niður múra vanþekkingar. Hún er þó frá mönnunum komin og því ekki gallalaus en einnig lifandi fyrirbæri í stöðugri þróun, líkt og borg sem vex og dafnar, en stundum komast heil hverfi í niðurníðslu. Í borginni ríkir einskonar lýðræði – samningur innan vísindasamfélagsins um þær aðferðir sem beita skuli til að afla þekkingar, miðla niðurstöðunum og, ekki síst, skilgreina hvaða niðurstöður flokkist sem nauðsynleg þekking. Skilningur okkar á þeim kjarna er misjafn eftir menningarsamfélögum, aldri og jafnvel þjóðfélagsstöðu.

Mér var brugðið þegar ég tók mín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að innan þessarar stéttar, hvað þá á alþjóðavettvangi, væri svo gríðarleg kynjaslagsíða. Þeim mun meira sem ég las og kynnti mér bransann, þeim dýpra sökk steinninn í maganum á mér. Gat það virkilega verið að innan við fimm prósent kvikmyndaleikstjóra í Hollywood væru kvenkyns? Áttum við ekki öll að stefna þangað? Og af hverju vorum við bara tvær stelpur í bekknum? Var það af því að konur höfðu minni áhuga á listum? Eða var ástæðan vinnutímatengd, hentaði það fjölskyldum illa að konur ynnu vaktavinnu, 12 stunda vinnudag? Það var jú kenning hjá einum kennara mínum við KVÍ.

Hver sem ástæðan er, þá voru þetta niðurdrepandi og letjandi upplýsingar. Ég þráði innblástur og hvatningu og ekki síst frá kynsystrum mínum.

Kvikmyndaframleiðsla er flókið fyrirbæri. Hún er kostnaðarsöm, krefst ótrúlegrar nákvæmni og samvinnu og til þess að komast í gegnum ákvarðanafrumskóginn sem fylgir heilli bíómynd þarf að treysta þeim sem leiða hópinn. Til eru allskonar kenningar um það hvaþ geri góðan leiðtoga að slíkum, en þó hljóta allir góðir stjórnendur og kenningasmiðir í stjórnunarfræðum að geta verið sammála um viss atriði; til að mynda nauðsyn þess að treysta hópnum, ekki síður en hópurinn treystir stjórnandanum. Í öðru lagi þurfa góðir stjórnendur að hlusta. Annars missa þeir af ótal tækifærum til að vaxa og þroskast í starfi og þeir sem á eftir koma missa líka af lærdómi sem draga má af þeirri reynslu.

Nemendur og stjórn Kvikmyndaskóla Íslands hafa svo sannarlega kynnst þessu. Við höfum þurft að treysta hvort öðru, stundum í hálfgerðri blindni; hlusta á hvort annað og utanaðkomandi aðila og svo sannarlega höfum við þurft að sía kjarnann frá hisminu. Saman höfum við staðið vörð um það sem við teljum satt og rétt og barist gegn fordómum og fáfræði úti í samfélaginu – bæði fordómum gegn stofnuninni; skólanum og öllum hópnum, og líka gagnvart kvikmyndagerð.

Þetta hefur þó ekki verið nein fýluferð, vissulega oft á tíðum hundleiðinlegt og þreytandi ferli, en ekki síður þroskandi og gefandi, sem ég veit fyrir víst að allir sem að skólanum standa geta tekið undir. Ég hef uppskorið heilmikið með því að spyrja mig í sífellu hvað þessi skóli standi fyrir og afhverju ég standi með honum, um eðli kvikmyndagerðar og hlutverk hennar í samfélaginu. Eftir ótal mismunandi svör hef ég komist að niðurstöðu og tekið ákvörðun um að halda náminu áfram, standa með skólanum, skólasystkinum mínum og íslenskri kvikmyndagerð.

Skólinn er hér til þess að kenna mér á tækin sem ég ætla að nota í starfinu mínu, sem er mikilvægt og gefandi og skilar hagnaði bæði í menningartengdum og efnahagslegum skilningi. Við erum að standa vörð um eitthvað, þetta er ekki bara framleiðsla. Með tækjum á ég ekki aðeins við flókinn tækjabúnað með tökkum heldur þekkingu og innsæi í starfið, stéttina, og einhverskonar stefnu. Skólanum ber að leiða nemendur í skilning um hlutverk kvikmyndagerðar og stöðu þeirra innan bransans. Hvað þýðir að vera Íslendingur? Hvað þýðir að vera leikstjóri? Hver er vinna leikarans og hvert er samspil þessa alls viþ það sem mig langar til að gera?

Ég reyndi að átta mig á kjarna málsins og í heimildamyndaáfanga sem ég sat í fyrra fór ég í hálfsmánaðar rannsóknarvinnu á jafnréttisvitund unga fólksins á Íslandi með hliðsjón af efnahagshruninu. Ég gerði 20 mínútna heimildamynd, komst að mjög merkilegum hlutum, gekk frá myndinni minni, skilaði henni á réttum tíma, fékk mjög góða einkunn og umsögn fyrir áfangann, en var svikin um sýningu á henni í Bíó Paradís. Ég get ekki lýst vonbrigðunum. Ástæðurnar voru, að sögn stjórnenda, skipulagslegs eðlis.

Ég gafst þó ekki upp, fór á stúfana og kynnti mér kvenkyns kvikmyndaleikstjóra og handritshöfunda. Og þar var heill hellingur! Ekki jafn margar og karlarnir, en þær ættu ekki að gjalda fyrir það. Meira að segja þöglu myndirnar þáðu leikstjórn kvenna og í raun má færa mjög haldbær rök fyrir því að kona í leikstjórastól sé mikilvægur kvikmyndasögulegur viðburður, ekki síður en merkilegt fyrirbæri í mannréttindasögunni. Og það kemur okkur öllum við, ekki bara okkur stelpunum.

Síðan ég settist á skólabekk við Kvikmyndaskóla Íslands hef ég ekki í eitt einasta skipti séð kvikmynd eftir kvenleikstjóra, þ.e. ekki eina einustu sem sett er fyrir sem námsefni, hvorki innan kvikmyndasögu né annarra námsgreina. Þetta er að mínu mati smánarblettur á skólanum og íslensku menntakerfi og ég bið ykkur innilega að gera betur næst.

Í kvikmyndafræðideildinni í Háskóla Íslands hefur frá upphafi verið kenndur áfangi sem heitir Kvikmyndir og femínismi. Þar virðast innanbúðarmenn átta sig á þeirri staðreynd að baráttan er enn við lýði og að markviss upplýsing er mikilvæg til að breyta því sem betur má fara. Og það er ekkert smávegis.

Í kreppu eins og þeirri sem dunið hefur á Kvikmyndaskóla Íslands síðustu misseri er ekki úr vegi að nota tækifærið og endurskoða í leiðinni stefnu, námsskrá og samhengi skólans við kvikmyndaiðnaðinn og atburði í samfélaginu.

Virðingarfyllst
Nína Salvarar
Nemi við handrita- og leikstjórnardeild Kvikmyndaskóla Íslands

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.