Allsberar konur: Kvikmyndaiðnaðurinn vill frekar sársaukaóp en nautnastunur

Höfundur greinarinnar er Katarina Wennstam. Greinin sem hér fer á eftir birtist á menningarsíðum sænska dagblaðsins DN 19. janúar 2010 og heitir á frummálinu „Nakna kvinnor: Filmbranschen vill hellre ha skrik av smärta än av vällust“. Drífa Snædal þýddi.

Daniel Craig og Rooney Mara í The Girl with the
Dragon Tattoo
. Mynd frá www.heyuguys.co.uk

Sænskir kvikmyndahúsagestir flykkjast þessa dagana á amerísku endurgerðina af The girl with the dragon tattoo, en margir ganga út úr bíósalnum með þá tilfinningu að eitthvað mikilvægt hafi horfið úr upprunalegri sögu Stieg Larsson. Blogg, lesendabréf og pistlar í þessu dagblaði [aths. þýðanda: DN] vitna um vonbrigði yfir því að Lisbeth Salander sé hlutgerð í bandarísku útgáfunni og algerlega háð mótleikara sínum í hlutverki Mikaels Blomqvist.

Kannski á það ekki að koma á óvart að hið feminíska verk Karlar sem hata konur valdi menningarárekstrum þegar það ferðast um heiminn. Við getum heldur ekki krafist þess að heimurinn líti samfélagið sömu augum og við Svíar. „Því miður“, heyrast margir stynja.

Stieg Larsson krafðist þess fyrir andlát sitt að ekki mætti breyta titlinum en þrátt fyrir það má ekki finna neina karla sem hata konur í erlendu útgáfunum. Í spænsku þýðingunni er gerð máttlaus tilraun til að halda í hinn róttæka titil en ekki var gengið lengra en Los hombres que no amaban a los mujeres. Sem sagt „Karlar sem elska ekki konur“. Þarna er grundvallarmunur á.

Það þarf svo sem heldur ekki að koma á óvart að Hollywood hafi tekið Millennium-þríleikinn upp á sína arma. Ekki bara vegna ótrúlegrar velgengni bókanna heldur einnig hinna mörgu bitastæðu smáatriða sem einkenna söguna. Ég ætla að halda því fram að áhuga kvikmyndagerðarmanna og fjárfesta megi ekki síst rekja til hins grófa nauðgunaratriðis sem finna má í verkinu.

Christina Lindgren í Thriller – a cruel picture, Jennifer
Aniston í Derailed, Uma Thurman í Kill Bill og Emily Watson í
Breaking the Waves. Myndir frá www.dn.se

Í Hollywood er löng hefð fyrir „rape and revenge“ -myndum, allt frá 8. áratugsmyndinni Thriller — a cruel picture til Kill Bill okkar daga. Að sýna konur sem fórnarlömb sem hljóta uppreisn æru í hefndaraðgerðum virðist vera ómótstæðilegur söguþráður, þó viðbrögðin yrðu sennilega ekki mjög jákvæð ef konur tækju upp á því í raunheimum að hefna sín á ofbeldismönnum.

Þegar ég skrifaði bókina Alfahanen, sem fjallar meðal annars um hvað kvikmyndaiðnaðurinn er heillaður af langdregnum senum þar sem konur eru beittar ofbeldi, sá ég ótal mörg atriði í líkingu við nauðgunaratriðið í The girl with the dragon tattoo. Í þessu samhengi má til dæmis nefna myndirnar Monster, Boys don´t cry, Dogville, Baise-moi, Irréversible og Breaking the waves.

Að sýna berar konur í afhjúpandi aðstæðum er yfirleitt bannað börnum — nema þegar um ofbeldisatriði er að ræða. Þá má sýna brjóst, rassa, rifnar nærbuxur og nærmyndir af öskrandi andlitum kvenna. Það er klassískt að taka skot af konu sem er nauðgað með tökuvélina undir andlitinu, með fókus á hálflukt augun og opinn munninn, en slíkt sjónarhorn er nánast óhugsandi ef um vellíðan og nautn er að ræða. Svona nærgöngul kvikmyndataka er hins vegar í lagi ef konan öskrar af sársauka.

Noomi Rapace og Michael Nyquist í Män som
hatar kvinnor
. Mynd af www.altfg.com.

Stundum held ég að ástæða þessa sé að sýna raunverulega hryllinginn í kynferðislegu ofbeldi og afleiðingar þess. Samt er erfitt að losna við þá tilhugsun að svipurinn á konunum er oft og tíðum sá sami og í klámmyndum og erfitt að greina á milli hvort svipurinn eigi að vera lýsa nautn eða sársauka. Við finnum svona dæmi í sænskum myndum líka, þar sem langdregnar nauðgunarsenur eru á mörkum þess að teljast hreint klám. Þar má nefna Säg att du älskar mig og fyrsta myndin um Jägarna.

Það er líka áhugavert að velta því fyrir sér af hverju það gerist nánast sjálfkrafa að konur eru tilnefndar til kvikmyndaverðlauna ef þær hafa „lifað af“ nauðgun á hvíta tjaldinu. Gamanleikkonan Jennifer Aniston fór ekki í launkofa með að hlutverk hennar í myndinni Derailed (þar sem sjá má samhengislausa nauðgunarsenu með sokkaböndum og niðurbældum stunum) væri ætlað að koma henni á kortið sem dramatískri leikkonu.

Konur sem njóta sín og eru kynferðislega sjálfstæðar rúmast ekki innan kvikmyndanna. Endalaust rými virðist hins vegar vera fyrir hið undirgefna fórnarlamb í rifnu fötunum með blóð á lærunum og karlmannshendur um kverkarnar.

Þess vegna var ég ekkert sérstaklega hissa þegar ég sá að atriðið þar sem Lisbeth Salander fer uppá Mikael Blomkvist og hamast þangað til hún fær fullnægingu hefur breyst í að hann skellir henni á bakið og sýnir hver sé „on top of the world“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.