Kvenhetjur og persónusköpun í fullorðinsbókum

Höfundur: Guðrún C. Emilsdóttir

Fyrir um 15 árum, þegar dóttir mín var þriggja ára, gerði ég könnun á þeim bókum sem voru í hillunni hjá henni. Í ljós kom að í miklum meirihluta þeirra voru hetjurnar í sögunum strákar á meðan stelpurnar stóðu hjá eða þeim var bjargað úr háska. Aðrar bækur voru annað hvort um dýr (oftast karlkyns) og einstaka um stelpu sem var hetjan í sögunni og gat nokkurn veginn flokkast undir það að vera sjálfstæð og uppátektarsöm manneskja. Staðan í dag virðist lítið hafa lagast í þeim efnum eins og kemur fram í þessu bloggi Þórhildar Laufeyjar. Þetta er það sem börnin okkar fá að heyra frá blautu barnsbeini, jafnvel á hverju kvöldi í fleiri ár: Strákar redda öllu og eru klárari en stelpurnar. Stelpurnar eru umhyggjusamar og sætar og líta upp til strákanna. Það er því kannski engin furða, ef við erum ekki á varðbergi gagnvart þessum duldu skilaboðum, að strákarnir verði hrokafullir og valdasjúkir og stelpurnar óframfærnar og með lágt sjálfsmat.

mynd af http://www.salon.com

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp nú, 15 árum síðar, er að um jólin fékk ég loksins tækifæri til þess að lesa bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ég hafði þá ekki lesið neinar bækur eftir hana og hlakkaði mikið til að lesa krimma eftir íslenskan kvenrithöfund, auk þess sem bækur eftir hana hafa fengið frábæra dóma. Bækurnar sem ég las eru Aska og Horfðu á mig. Það er óhætt að segja að þær eru báðar vel skrifaðar. Plottin flott og trúverðug. Mér fannst þær það spennandi, að ég las um 900 bls. á frekar stuttum tíma. En, því miður… leyndust víða sömu skilaboðin í (fullorðins-)bókunum eins og í barnabókunum.

Aðalhetja bókanna, Þóra, er lögfræðingur. Klár kona og lögfræðingur — þarna er hefðbundnum staðalímyndum storkað, sem er gott mál. Það voru því vonbrigði að sjá ákveðna þætti í persónusköpun hennar sem minntu á fyrrnefndan boðskap í barnabókunum. Þóra á erfitt með að standa uppi í hárinu á karlmönnum (þeir eru klárari), hún er sæt og með flottan líkama (útlit). Hún á börn, tengdadóttur, eitt barnabarn og foreldra sem hún af góðmennsku sinni leyfir að búa hjá sér þegar kreppan skellur á (umhyggjusöm). Sonurinn þarf ekki nema að hringja eitt símtal og hún er boðin og búin til þess að passa, elda og redda húsnæði, svo hann og tengdadóttirin geti skemmt sér á Þjóðhátíð í Eyjum (fórnfús)! Hún ber sig gjarnan saman við ritarann sinn, Bellu, hvað varðar útlit og greinilegt er að hún lítur niður til hennar (samkeppni milli kvenna). Hún treystir sér samt sem áður ekki til að segja ritaranum til þegar hún gerir mistök eða einfaldlega veldur ekki starfinu. Frekar forðast hún hana og gerir sjálf ýmislegt sem ritarar eiga að gera (getur ekki verið „hörð“). Og rúsínan í pylsuendanum: Hún fær sér brasílískt vax til að gleðja þýska kærastann sinn, sem var svo elskulegur að þiggja starf á Íslandi…!

Aðrar kvenpersónur í bókunum, sérstaklega í Horfðu á mig, eru enn meiri klisjur:
Glódís: Framagjörn kona sem svífst einskis til að komast áfram; lætur stjórnast af embættismanni í dómsmálaráðuneytinu og vinnur sér þannig leið til frama.
Grímheiður: Fórnarlamb aðstæðna sem er, þrátt fyrir að elska út af lífinu þroskaheft barn sitt sem dæmt hefur verið fyrir morð, of veikgeðja til að berjast fyrir því gegn kerfinu.
Fanndís: Drykkfellda eiginkonan sem er alltaf snyrtileg til fara og pottþétt út á við, en er gersamlega háð manni sínum og gerir allt sem hann segir henni að gera.
Bella: Vitlausi ritarinn sem getur ekki neitt og hefur ekkert á milli eyrnanna, hugsar bara um útlitið og er löt.
Berglind: Ímyndunarveika konan sem lætur líka stjórnast af öðrum — enginn trúir henni og hún verður því bara að lifa við þetta og á voðalega bágt.
Af sex einstaklingum sem búa á sambýli fyrir einstaklinga með einhverja röskun eru þrjár konur og eru þær allar ósjálfbjarga; ein meðvitundarlaus, önnur getur bara hreyft augun, sú þriðja er bæði sjón- og heyrnarlaus.

Ég velti því fyrir mér í framhaldi af þessari óvísindalegu greiningu hvort áhrif barnabókmennta á kvenkyns lesendur (þar sem stelpur eru yfirleitt í aukahlutverki og túlkaðar skv. staðalímyndum) teygi sig til fullorðinsára hjá kvenrithöfundum. Ef svo er, þá er enn meiri ástæða til þess að vera vakandi yfir því hvernig barnabækur eru skrifaðar og velja þær með það í huga að fá betri fyrirmyndir fyrir börnin okkar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.