Bönnum bakarí og feita dægurlagasöngvara.

Mynd: http://misswallflower.tumblr.com
Höfundur: Hallveig Rúnarsdóttir
Á lífsstílsvef einum hér á landi birtist greinarkorn 9. febrúar 2012 þar sem okkur er tilkynnt að fatahönnuði úti í heimi finnist  vinsælasta dægurlagasöngkona heims, hin undurfagra og hljómmikla Adele vera of feit. Reyndar er misræmi milli fyrirsagnarinnar „Finnst Adele allt of feit“ og því sem hún segir orðrétt eftir hönnuðinum Lagerfeld en hann ku hafa sagt að sér fyndist Adele aðeins of feit. En látum það nú liggja milli hluta, fyrirsögnin hefur verið talin líklegri til að veiða fleiri lesendur með sterkari orðum og hvað á þá að láta eðlileg vinnubrögð eins og að vitna kórrétt í fólk stoppa sig.
Spurningin sem brennur á mér er þó þessi: hver er tilgangurinn með því að láta okkur vita af þessari heitu yfirlýsingu Lagerfelds? Er nauðsynlegt fyrir börnin okkar sem mörg hver halda óskaplega upp á þennan listamann að vita að einhverjum þyki hún of feit? hvaða skilaboð er verið að senda þeim með því að benda á þessa skoðun Lagerfelds?
 Væri ekki betra að skrifa grein um hversu óskaplega hæfileikarík, dugleg og kraftmikil Adele er? Hvaða árangri hún hefur náð? Hvað hún skrifar magnaðar melódíur og texta? Hversu glæsileg hún er og sterkur karakter? Eins hefði verið hægt að skrifa mun betri grein um að sem betur fer hafi Adele sjálf lýst frati á þessa svokölluðu fegurðarstaðla enda hefur hún svarað þessari gagnrýni Lagerfelds fullum hálsi sem svo varð til þess að hann hefur beðið hana afsökunar og lýst yfir aðdáun sinni á henni. Ekki hefur birst múkk um það á Smartlandi.
Tveimur dögum seinna er svo grein á sama vef þar sem tuggið er á því að Demi Moore þjáist af lystarstoli og að hún megi ekki stíga ein á vigtina.  Ekki nóg með það, heldur eru ÞRJÁR aðrar greinar uppi við á vefnum sem ræða það að þessi tiltekna kona sé of grönn. Af hverju þarf almenningur að fá þessar upplýsingar? Hvað segir það okkur að þessi ágæta leikkona eigi í vandræðum með holdafarið og sé komin í baráttu vegna þess? Af hverju er ekki frekar skrifuð grein um myndirnar hennar, hvaða flotta árangri hún hafi náð á ferlinum, hversu glæsileg og sterkur karakter hún er?
Á sama tíma eru hvorki meira né minna en fimm greinar á Smartlandinu þar sem sagt er frá konum sem hefur tekist að létta sig um vissan fjölda af kílóum (13, 33, 60, 70 og svo ein sem segir frá því að einhver hafi verið 100 kg við fermingu), sagt frá safakúr sem George Clooney sé á og þar að auki nokkrar megrunartengdar fréttir í viðbót.
Þessi ofuráhersla á holdafar mun ekki lagast á meðan svona „fréttaflutningur“ veður uppi í fjölmiðlum, sérstaklega ekki þegar greinin um Adele kemur í kjölfar greinar á sama vef daginn áður þar sem talað er um föstur sem hollar, sykur sem eitur og nauðsyn þess að banna bakarí, þvert á ráðleggingar lærðra næringarfræðinga með alvöru háskólagráður sem allir með tölu mæla með grófu brauði sem hluta af hollu mataræði.
Það er ekki og á ekki að vera helsti mælikvarði á manneskjur hvort þær eru í laginu eins og stundaglös eða spýtukallar. Það er bara ekki rétt. Bara alls ekki rétt.
Við verðum að halda því að börnunum okkar að meta fólk að verðleikum en ekki útliti, þau eiga það inni hjá okkur.
(P.s. Ef ENDILEGA þarf að setja eitthvað út á hana Adele má  setja út á reykingarnar. Ég skal ekkert kvarta yfir því! 🙂 )

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.