Smá hlutgerving skaðar engan, er það nokkuð?

Þýðandi: Herdís Helga Schopka

Greinin Lite objektifiering skadar väl ingen? eftir Gisela Jönsson birtist á síðunni skepchick.se þann 16. janúar 2012. Hún var þýdd og birtist hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Engan veginn sambærilegt!
Mynd: http://www.fabioifc.com

Sumt fólk heldur að svo lengi sem Chippendales og Ladies Night séu til sé hlutgerving kvenna og karla ekki vandamál. Þetta er jú sami hluturinn, eða hvað? Nei, ekki aldeilis! Þegar spurt er „hvað er svona skelfilegt við þetta?“ svara ég til dæmis með því að benda fólki á greinina Þáttur hlutgervingar sjálfsins í þunglyndi hjá konum: Hlutgervingarkenningar kannaðar.

Hlutgerving á konum leiðir til þess að konur hlutgera sjálfar sig í auknum mæli. Þetta leiðir svo til þess að konur fara að skammast sín fyrir eigin líkama og útlit. Skömmin getur svo aftur leitt af sér þunglyndi. Tilraun þar sem fólk var hlutgert með því að láta þátttakendur koma fram í efnislitlum toppi, sýndi að konur hlutgerðu sjálfar sig en karlar ekki. Konurnar upplifðu skömm og einbeiting þeirra minnkaði, en það var mælt með stærðfræðiprófi. Sjálfs-hlutgerving veldur því sumsé að konur meta sjálfar sig minna og standa sig auk þess verr. Hlutgerving er því alls ekki saklaus og getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Fyrir konur.

En ég er ekki bara að benda á að hlutgerving sé slæm, ég er að reyna að koma enn mikilvægari punkti á framfæri: Hlutgerving hefur ekki sömu áhrif á kynin. Með öðrum orðum er hlutgerving kvenna og karla ekki sambærileg. Afleiðingarnar eru ekki þær sömu. Þegar kona er hlutgerð fer allt annað ferli í gang en þegar karl er hlutgerður. Þar sem þú tilheyrir einungis einu kyni er klárt mál að þó þú hafir upplifað annað tilfelli hlutgervingar hefurðu ekki upplifað hitt tilfellið.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á því hve mismunandi áhrif hlutgerving hefur á kynin. Hér ætla ég að nefna þrjár.

  1. Í rannsókn sem birt var 2011 voru þátttakendur beðnir um að dæma annað fólk út frá annars vegar útliti þess og hins vegar persónuleika [Barack og Michelle Obama — aths. þýð.] og/eða frammistöðu [sjónvarpsfréttamenn og -konur — aths. þýð.]. Þegar fókusinn var á útlit var hæfni kvenna, hlýleiki og siðferði þeirra dæmt harðar en þegar fókusinn var á persónuleika þeirra (öllum þátttakendum voru sýndar sömu konurnar). Mat þátttakenda á karlmönnum stjórnaðist aftur á móti ekki af því hvort fókusinn var settur á útlit eða persónuleika. (Frá konu til hlutar: Kyn áhorfanda, áhersla á útlit og upplifun á hlýleika, siðferði og hæfni.)
  2. Í annarri rannsókn voru þátttakendur (konur og karlar) látnir horfa annars vegar á líkama kvenna neðan við háls og hins vegar á andlit kvennanna. Á meðan áttu konurnar sem horft var á að segja frá sjálfum sér. Þær konur hverra líkami var sýndur en ekki andlit töluðu miklu minna um sjálfar sig en þær konur hverra aðeins andlit var sýnt. Kyn áhorfandans skipti ekki máli. Niðurstaðan er ótvíræð: Hlutgerving veldur þöggun hjá konum.
  3. Kynferðisleg hlutgerving í auglýsingum sviptir konur mannlegum eiginleikum, en það gerist ekki hjá körlum. Þar eiga í hlut bæði karlmennirnir sem girnast þær og konur sem vilja ekki kannast við að tilheyra sama hópi og hlutgerða konan (Eru konur í kynferðislegu hlutverki fullgildar manneskjur? Ástæður þess að karlar og konur afmennska kynferðislega hlutgerðar konur. )

Hlutgerving hefur sem sagt önnur áhrif á konur en karla. Allar vangaveltur um að hlutgerving karla skapi einhvers konar ógnarjafnvægi milli kynjanna eru því á misskilningi byggðar. Hlutgerving kvenna og karla er engan veginn sambærileg.

Þetta þýðir líka að karlmenn geta ekki vísað í eigin reynslu af hlutgervingu til þess að sýna fram á að viðbrögð kvenna við hlutgervingu séu röng og yfirdrifin, eða til að benda á að ályktanir sem konur draga af því að verða fyrir hlutgervingu séu rangar eða óskynsamlegar. Það er tilgangalaust fyrir karlmann að reyna að ímynda sér „hvað hefði ég gert“, því aðstæðurnar sem hann ímyndar sér geta ekki verið þær sömu og kona upplifir. Konur geta upplifað það hvernig er að vera kona í samfélaginu en það geta karlmenn ekki. Þeir verða einfaldlega að hlusta á konurnar lýsa reynslu sinni vilji þeir öðlast skilning á henni.

Málið hér er ekki að konur hafi alltaf rétt fyrir sér, eða að konur hugsi og upplifi alla hluti eins. Málið er að karlmenn hafa afskaplega takmarkaðar forsendur til að dæma upplifanir kvenna af hlutgervingu, því þeir vita einfaldlega ekki hvað þeir eru að tala um.

Ætli maður sér að skilja aðstæður sem maður hefur aldrei lent í þarf maður að sýna samkennd. Og hlusta. Og leyfa konum að tala um reynslu sína án þess að reyna sjálfur að útskýra, út frá eigin reynsluheimi, af hverju upplifun kvenna af þeirra eigin reynslu er röng. Ætli maður að setja sig í spor annars þarf maður að hlusta, hlusta og hlusta aðeins meira.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.