Þýðandi: Kristín Jónsdóttir
Samtökin Friðarsmiðirnir halda reglulega námskeið í austurlenskum kökubakstri og leiða þá saman konur af gyðinga- og íslamstrú. Þar fá þær tækifæri til að hittast og deila með sér eldhúsráðum og læra um leið að virða hver aðra.
Annie-Paule Dercansky, stofandi samtakanna, segir að „menningarlegur uppruni þeirra og allar kvenlegar hefðir séu í raun náskyldar og því sé engin ástæða til að þær geti ekki náð saman“.
Ófriðurinn í Mið-Austurlöndum á alls ekki að þurfa að hafa áhrif á samskipti þessara hópa í Frakklandi. Til að styrkja samkenndina hafa þær staðið fyrir ýmsum uppákomum. Má þar nefna kökugerðarnámskeiðin, kvikmyndasýningar, málfundi, lautarferðir og ýmislegt fleira. Þessar uppákomur eru opnar öllum, konum og körlum og megintilgangurinn er að fá gyðinga og múslima í Frakklandi til að ræða saman og átta sig á skyldleika menningar þeirra.
Í báðum þessum hópum bera konur iðulega ábyrgð á uppeldi barnanna og þess vegna var ákveðið að byrja á því að styrkja samstöðu þeirra á milli. Myndirnar eru teknar á einu af þessum kökugerðarnámskeiðum. Hér birtast þrjár þeirra, en alla seríuna er að finna hér.
Þýtt og birt með góðfúslegu leyfi vefsins Essencielles, sem er samvinnuverkefni nokkurra kvenna sem vilja sýna konur eins og þær eru í raun og veru, en ekki eins og þær birtast okkur iðulega í auglýsingum, kvikmyndum, sjónvarpi og fjölmiðlum.