Jafnrétti fyrir börn

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Mynd frá: http://strong-families.org/

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra barnalaga sem á margan hátt er byltingarkennt. Margt er þar óumdeilt, eins og réttur barna til að njóta samvista við báða foreldra, enda eru barnalög sett með hag barna í huga. Réttur barna til foreldra er síðan mikilvægari en réttur foreldra til að eiga börn.

Skilnaðir eru álíka algengir hér og í öðrum löndum og þá verður að semja um forsjá, umgengni og annað sem tryggir vellíðan barna, þótt breytingar verði á heimilishögum þeirra. Þetta tekst mörgum afar vel, þar sem gagnkvæmur vilji er fyrir hendi og hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Ef frá þessu víkur kemur til kasta dómskerfisins að leysa úr deilum.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar ráðherra, sem flytur frumvarpið, segir um það á bloggsíðu sinni:

„Verði frumvarpið að lögum verða grunngildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögfest og réttarstaða barna styrkt til muna, ekki síst barna sem deilt er um forsjá yfir og umgengni við. Sátt er lykilhugtak frumvarpsins og aðkoma hins opinbera að deilum mun miða að því að aðstoða foreldra við að ná sátt, vegna þess að sátt er best fyrir börnin. Málefni barna eiga ekki heima inni í farvegi átaka, heldur farvegi sáttar. Þannig er gert ráð fyrir að veita stórauknum fjármunum til sáttameðferða og foreldrar sem eiga í deilum verða skikkaðir til að ræða málin með fagaðila…..
Þetta eru byltingarkenndar breytingar og ég játa því að það kom mér á óvart hversu takmarkað pláss þær hlutu í umræðunni á þingi, sem nokkrir þingmenn tóku þátt í. Mest púður fór í að ræða hvort dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá, en í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að lögfesta slíka heimild.
Halla Gunnarsdóttir: 03022012.

Félag um foreldrajafnrétti hefur bent á að þessi dómaraheimild hafi verið í frumvarpsdrögum og er ekki sátt við að hún hafi verið tekin út. Talsmaður félagsins tjáði sig um það í Kastljósi.

Ögmundur Jónasson benti á það í viðtali að 92% skilnaðarmála enduðu með sátt en um 8% kæmu til kasta dómstóla. Félag um foreldrajafnrétti, sem hét áður Félag ábyrgra feðra, hefur löngum fullyrt að hallað sé á feður í dómskerfinu í þessum forsjárúrskurðum og ganga sumir svo langt að segja að móðurrétturinn sé svo heilagur að tala megi um forréttindi. Sú virðist ekki vera raunin við nánari skoðun.
Í lokaritgerð sinni til BS-prófs í viðskiptalögfræði haustið 2010 fjallar Hjörtur Dór Sigurjónsson um úrskurði í forsjármálum og setur þar fram þessa rannsóknarspurningu:

„Réttarstaða feðra í forsjármálum á Íslandi – Er foreldrum mismunað á grundvelli
kynferðis við réttarframkvæmd?“

Höfundur skoðaði 30 forsjármál frá tímabilinu 2006 til 2009 út frá ellefu atriðum sem nánar má fræðast um í ritgerðinni. Niðurstaða hans er þessi og svarar rannsóknarspurningunni:

„Nei, foreldrum er ekki mismunað eingöngu á grundvelli kynferðis. Á Íslandi er fyrst og fremst litið til þess hvað er barninu fyrir bestu. Þessa niðurstöðu leggur höfundur fram eftir að hafa framkvæmt eigin rannsóknir, reifað fjölmarga forsjárdóma, kynnt sér löggjöf er að viðfangsefninu snýr og litið til annarra rannsókna og skrifa. Hitt er annað mál að það virðist halla á rétt forsjárlausra foreldra og „lögheimilislausra.“ Feður eru þar í miklum meirihluta þar sem 95% meðlagsgreiðenda eru feður. Því má ef til vill halda því fram að hér á landi halli á rétt feðra í málum er snúa að forsjá, en í eiginlegum forsjármálum, það er að segja málum þar sem deilt er um forsjá fyrir dómstólum, sé ekki um greinanlega mismunun að ræða. „

Það er umdeilt hvort þessi heimild dómara til að úrskurða um sameiginlega forsjá, muni stuðla að því að forsjármálum færi fækkandi hérlendis. Heimildin gæti fælt fólk frá því að fara fyrir dómstóla með sín mál og leggja sig meira fram við að ná sáttum, þar sem dómari hefði að öðrum kosti vald til að dæma sameiginlega forsjá. Á hinn bóginn er heldur varla eðlilegt að dómari þurfi að gera upp á milli tveggja hæfra aðila og svipta annað foreldrið forsjá, þegar málsaðstæður mæla ekki beinlínis með því.

Þessi úttekt er engan veginn tæmandi. Henni er ætlað að varpa ljósi á hliðar þessa máls og eru lesendur hvattir til að smella á tenglana í greininni, gefa sér tíma til að lesa sjónarmið beggja aðila og gera upp hug sinn, án þess að gleyma kjarna málsins sem eru réttindi barna. Börn verðskulda góð lög og sanngjarna málsvara.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.