Barnleysi, einhleypi og samkynhneigð

Höfundur: Kári Emil Helgason

Í  þættinum Út úr skápnum á mbl.is lýsir Haffi Haff draumum sínum um að breyta um „lífsstíl“ og jafnvel taka saman við konu og eignast með henni barn. Hann talar um að sá „lífsstíll“ sem hann hefur valið sér hafi oftar en ekki fært honum óhamingju.

elton-baby1--z
Mynd af hellomagazine.com

Það er óljóst á orðavali hans hvort hann er að vísa til skemmtanalífs síns, hversu oft hann fari í ræktina, hvers konar mat hann lætur ofan í sig og þar fram eftir götunum, eða hvort hann sé að lýsa kynhneigð sinni sem lífsstíl. Hvað sem því líður, er ákveðinn uppgjafartónn í máli hans og hann virðist halda að vegna þess hver hann sé (hver svo sem það kann að vera), muni hann aldrei geta eignast fjölskyldu og börn.
Við hljótum að vera sammála um að kynhneigð er ekki lífsstíll. En þó hann fái að njóta vafans og við gerum ráð fyrir að það sé ekki það sem hann á við, virðist hann telja það allsendis ómögulegt fyrir sig að ala upp barn með öðrum manni.

Haffi er ekki einn um þetta viðhorf. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé jafnvel frekar algengt. Það á sér rætur í fyrirbæri sem nefnt hefur verið því þjála nafni gagnkynhneigðarremba (en. heterosexism). Gagnkynhneigðarremba er skilgreind sem sú trú að gagnkynheigð sé náttúrulegt ástand mannsins (normið) og að vik frá gagnkynheigð séu óæskileg. Sú trú fólks, að frávik frá gagnkynhneigðum staðalmyndum sé neikvæð getur sprottið af velvilja og samúð:

„samfélagið er svo vont við sam- og tvíkynhneigða, þannig það er betra að vera það ekki“,

eða jafnvel

„það er svo erfitt fyrir fólk í samkynja samböndum að eignast börn, og það er mjög sorglegt að geta ekki eignast börn“.

En bæði þessi viðhorf lýsa uppgjöf og meðvirkni við þessar staðreyndir, og hjálpa lítið framþróun í átt að meira réttlæti. Gagnkynhneigðarremba getur einnig sprottið af vondum stað, og gerir það vísast oftast:

„kynlíf milli fólks af sama kyni er svo ógeðslegt og ég vil ekki að vísanir í það komist í almenna umræðu eða fjölmiðla“.

Eða jafnvel einfaldlega kjánalegum stað:

„það er svo sorglegt að þú sért hommi af því þú ert svo sætur; aumingja allar stelpurnar sem fá þig ekki“.

Og þessar slæmu og kjánalegu birtingarmyndir gagnkynhneigðarrembunnar eru jafnan nefndar hómófóbía eða fordómar gegn samkynhneigðum.

Nýverið var hommamörgæsapari í Kanada stíað í sundur og karldýrin látin makast við tvö kvendýr í sama garði. Skýrðu dýragarðshaldar málið svo að stofninn væri í útrýmingarhættu og að mikilvægt væri að sem flestir einstaklingar væru „þróunarfræðilega virkir“, þ.e. að skapa afkvæmi. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi verndunar sjaldgæfra dýrastofna. En við mannskepnurnar erum hreint ekki mörgæsir og við erum síður en svo í útrýmingarhættu.
Mannskepnan er satt að segja alveg ofboðslega fjölmennur stofn – nánar tiltekið teljum við um sjö milljarða og okkur fjölgar stöðugt. Þar af eru um 2.2 milljarðar börn og 7-12% þeirra eru munaðarlaus samkvæmt UNICEF.
Á bilinu 2-10% fólks (280-700 milljónir) í heiminum er sam- eða tvíkynhneigt og um helmingur þeirra er í stöðugum samkynja samböndum. Meðalfjöldi barna gagnkynja foreldra í hinum vestræna heimi er um tvö. Með góðum vilja gætu samkynja pör auðveldlega séð um öll munaðarlaus börn í heiminum með eitt til tvö barn á hvert par. En hómófóbían er þess valdandi að samkynja pörum er varla heimilt að ættleiða börn nema innanlands í löndum þar sem samkynja pör hafa einhvers konar lagaleg réttindi (og þau lönd eru fjarska fá).Gagnkynhneigðarremban veldur því að fólk vantreystir samkynja pörum fyrir uppeldi barna og ættleiðingarstofnanir heimila síður ættleiðingar til samkynja para. Fæstir hugsa mjög djúpt um þessi mál (enda flestir gagnkynhneigðir og frjóir) og flestir telja þetta vera eðlilegt ástand: samkynja pör gefa ekki af sér afsprengi saman og gagnkynja pör geta það almennt séð. Það er nefnilega normið að mannskepnur æxlist sem mest, og eigi helst 2,2 afsprengi á ævinni og fjölgi sífellt mannkyninu (því aldrei erum við nógu mörg). Og það er flestum mikilvægt að eiga blóðskyld börn enda lítur samfélagið það sem hina æðstu gerð fjölskyldumyndunar. Um leið er einn stærsti harmleikur okkar samfélags barnlaust, einhleypt fólk. Þess vegna er lítið gert í því hvarvetna í heiminum að koma á alþjóðlegu ættleiðingarferli fyrir samkynja pör sem virkar. Og áfram viðhelst staðalmyndin um sorglega, barnlausa, einhleypa hommann og lesbíuna. Og fleiri tugir milljóna barna í heiminum eru áfram munaðarlaus og deyja mörg ung.
Gagnkynheigðarremba byggir á hugmynd um einhvers konar æðri mátt sem stýri gangi heimsins; að það sé ástæða fyrir því að það séu tvö kyn og að þeim sé ætlað að eðla sig til fjölgunar mannkyninu. Flest trúarbrögð heimsins taka þessari hugmynd sem gefinni og nota gjarnan sem rök gegn sam- og tvíkynhneigð og réttindum sam- og tvíkynhneigðra. En prófum aðhafna hinum „æðri mætti“ og lítum á dæmi úr náttúrunni. Skoðum kerfi þar sem lífverum er gróflega skipt í tvo hópa eftir kyni. Með því að para saman einstaklinga af gagnstæðu kyni er hægt að geta af sér afkvæmi. Er þó allt eins líklegt að sumir einstaklingar parist saman innan sama kyns og geti ekki af sér afkvæmi? Og eins að sumir einstaklingar upplifi sig ekki sem líffræðilegt kyn sitt, eða að líffræðilegt kyn sumra sé ekki svo ljóst? Er nokkuð í grunneðli kerfisins sem segir að æxlun þurfi að eiga sér stað? Að möguleikinn á henni sé bara fyrir hendi?
Samfélag okkar er gegnsýrt af staðalmyndum en sem betur fer hefur umræða um þær aukist. Sú sem ég heyri þó sjaldan rædda er sú staðalmynd að öll börn séu gagnkynhneigð. Nær allir eru aldir upp með það í huga að þeir séu gagnkynheigðir, og meira að segja hvarflar oft ekki að róttækasta jafnréttishyggjufólki að börnin þeirra kunni að vera eitthvað annað en gagnkynhneigð.Enda eru það sorgleg örlög að vera samkynhneigður, einhleypur og barnlaus.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.