Karlar sem treysta konum

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Fyrirsögnin er fengin hjá bloggi sem varð á vegi mínum um daginn. Þar vakti athygli einkum færsla sem á erindi í umræðu vikunnar hér á skerinu. Þetta er hópblogg, eins og Knúz, ætlað til að safna röddum karla sem þurfa að heyrast oftar í jafnréttisbaráttunni. Þetta eru ekki karlar sem tala fyrir munn kvenna eða vilja „bjarga“ konum, eins og stofnandi bloggsins orðaði það. Ekki hópur karla sem ver konur fyrir öðrum hópi karla.
Þetta eru karlar sem hafa gert sér grein fyrir kjarna málsins. Hann er til dæmis sá að ef árangur á að nást í jafnréttisbaráttunni, verða kynin að taka höndum saman, leggja niður tilgangslaust orðaskak og þrætubókarlistir um músarholukennd smáatriði. Því miður ber mikið á upphrópunum og níði sem fólk án röksemda grípur of oft til í hita leiksins. Það varð tilefnið að skjáskotasafni sem er sannarlega netfrétt vikunnar.

Það er tímanna tákn að eftir líflega umræðu netmiðla tók Kastljós RÚV stóra myndasafnsmálið upp að kvöldi þriðjudags. Það þykir ákveðin viðurkenning að komast í ljósvakamiðlana en engu að síður hafði netið áfram forystuna daginn eftir, því þar þarf aldrei að bíða. Allt getur gerst strax. Nema breytingar. Þær eru alltaf á hraða snigilsins.Skjáskotasafn
Hildar Lilliendahl á að nægja til að sýna fram á á að svona getur umræðan ekki haldið áfram. Það er birtingarform bræði og reiði fólks sem þolir ekki beitingu annarra á málfrelsinu og þá er sendiboðinn skotinn og frekar farið í manninn en boltann, svo gripið sé til þekktra klisja. Og svo þegar þeim sárnar sem eiga tilvitnanir í safninu, en hafa sjálfir ekki sparað stóryrðin þegar það hefur þótt eiga við, tilkynna flótta sinn af vettvangi netsins, veldur það ákveðnum kjánahrolli að sjá hvað þeir fá mikla athygli netmiðla fyrir vikið. Kannski var það ekki ætlun þeirra, en öngvu að síður er það annað tímatákn hvað fésbókin þykir mikilvæg í netsamfélaginu.

Við eigum að geta verið sammála um að vera ósammála þegar það á við. Án fjölbreyttra skoðana verður netheimurinn litlaus, daufur og leiðinlegur. Ég vil einkum sjá þá á netinu sem eru ósammála mér. Ég veit þokkalega hvað hinir hugsa og það kemur oft ekki á óvart. En andstæðingarnir eru bestir. Þeir fá mann til að hugsa öðruvísi. Í þessum orðaslag hefur verið vitnað í orð sem oft eru eignuð Voltaire: „Ég er algerlega ósammála þér, en mun verja með lífi mínu rétt þinn til þinnar skoðunar“. (Hið rétta er að Evelyn Beatrice Hall sagði þetta,eins og fram kemur hér í athugasemdum og er hér með leiðrétt!)

Evelyn og Voltaire hefðu aldrei hætt á fésbók.

Að þessu sögðu kemur hér sýnishorn af bloggi karla sem treysta konum.

„Réttindi karla
Við höfum rétt á að líta á konur sem fólk, sem jafningja.
Við höfum rétt á að hlusta á konur þegar umræðan snýst um konur.
Við höfum rétt á að elska og dá konur sem við þekkjum, án væntinga og krafna.
Við höfum rétt á að styðja kynheilsu kvenna sem samfélagsmál, ekki sem kvennamál.
Við höfum rétt á að muna að konur eru rúmlega helmingur mannkyns.
Við höfum aldrei rétt á krefjast kynlífs, vænta kynlífs eða taka kynlíf með valdi.
Við höfum aldrei rétt á að stjórna aðgengi kvenna að getnaðarvörnum eða fóstureyðingum.
Við höfum aldrei rétt á að niðurlægja konu vegna fatnaðar hennar eða útlits.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.