„Ósýnilegu konurnar“

Höfundur: Gísli Ásgeirsson
Ég fylgdist einu sinni með kvennahlaupi ÍSÍ í Garðabæ rétt fyrir aldamót. Þangað mættu hátt í tíu þúsund konur og hlupu, gengu, röltu eða skokkuðu einhverja af þeim leiðum sem voru í boði. Veðrið var gott og edilonsgóð stemmning, þegar konurnar streymdu í mark og þáðu markpening um hálsinn og drykk úr fernu. Þarna voru konur á öllum aldri, ömmur, dætur, mæður, dótturdætur, frænkur og svo mætti lengi telja.  Og í hópnum var líka aldraður maður sem ég þekkti lítillega að ríkri athyglisþörf. Hann mætti í flest almenningshlaup á þessum árum og fannst sjálfsagt að kvennahlaupið væri líka fyrir hann. Viðstaddir sjónvarpsmenn tóku eftir karli og ræddu við hann, rjóðan og ánægðan og í sjónvarpsfréttum kvöldsins var hann eini viðmælandinn í stuttri umfjöllun um þennan fjölmennasta íþróttaviðburð ársins.
Þetta rifjaði ég upp meðan ég las viðtal á Visir.is við  rokksöngvarann Magna. Hann kemur fram á tónleikum til heiðurs Whitneyju Hjúston sálugu  síðar í þessum mánuði. Þar verður einnig fjöldi söngkvenna, sem er skiljanlegt þar sem Whitney var kona. Tvær þeirra eru nefndar en í viðtalinu kemur fram að þær eru fleiri. 

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Hermann Stefánsson, rithöfund. Honum og 13 öðrum ritfærum körlum datt í hug að stofna hópbloggsíðu um bókmenntir til heiðurs annarri slíkri síðu, Druslubækur og doðrantar. Þegar viðtalið var tekið var ein færsla komin á síðu Hermanns og félaga en boðaðar eru fleiri og einnig að líftími síðunnar verður 2 mánuðir. Umfjöllunin er annars nokkuð ítarleg og er prýðileg kynning á þessari hugmynd þeirra. Aðdáunin á fyrirmyndinni, Druslubækur og doðrantar, leynir sér ekki. Sú síða hefur síðan 2008 birt nær daglega færslu um bókmenntir, eða alls 568 þegar þetta er ritað. Fréttablaðið sá ekki ástæðu til að fjalla um stofnun síðunnar á sínum tíma og hefur ekki sýnt henni álíka áhuga og téðri síðu þeirra félaganna.

Þetta eru þrjú dæmi sem þættu sennilega vatn á myllu þeirra sem berjast fyrir auknum sýnileika kvenna í fjölmiðlum og ég fann hvernig þögul reiði svall í mér, ásamt löngun til að brenna feðraveldið til grunna. Eða þannig.  En þegar grannt er skoðað er þessi „stefna“ fjölmiðlanna að gera körlum sérstaklega hátt undir höfði, meðvituð tilraun til að rétta af meinlegan halla á hlut þeirra.  Í kvennahlaupinu var sá gamli í svo miklum minnihluta að hann hefði týnst í kvennahafinu og verið þaggaður í hel, hefði sjónvarpið ekki bjargað honum. Varðandi Magna er auðvitað hróplegt óréttlæti að ekki skuli jafnmargir karlar og konur flytja lög Whitneyjar og í viðtalinu felst sjálfsagt dulbúið ákall til kynbræðra hans um að spenna raddböndin. Bókmenntasíða Hermanns og félaga er ljós í myrkri þess ofurvalds sem konur hafa á bókmenntaumræðu á netinu og er mál að þar  linni.
Það er einmitt út af svona málum sem ég gerðist jafnréttissinni. Ég ætla að vera það fram á sumar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.