Karlar sem hata að tala um konur

Höfundur: Ingólfur Gíslason

Við getum sagt og hugsað það sem hægt er að segja og hugsa í okkar samfélagi, á okkar tungumáli, með okkar vísunum í sameiginlega sögu og menningu. Skáldið yrkir einungis út frá þeim möguleikum sem eru þegar til staðar og orð þess hafa enga merkingu nema í krafti sameiginlegs tungumáls. Samt er alltaf eitthvert rúm til sköpunar. Við höfum áhrif á menninguna og tungumálið og erum sífellt að viðhalda því auk þess að bæta við það og breyta því.
Þess vegna er ekki rétt að hugsa um skoðanir, smekk og ummæli sem persónulegar eigur einstaklinga, sem koma engum við. Ég á að sjálfsögðu ekki við að fólki sé ekki frjálst að hafa sínar skoðanir og smekk og tjá sig að vild. Ég á við að annars vegar tileinkar fólk sér þessa hluti úr hinni sameiginlegu menningu og hins vegar að það ber ábyrgð á hinni sameiginlegu menningu. Við erum öll með í því að ákvarða menningu okkar.
Ef upplýst fólk kýs að þegja eða gera lítið úr hlutum eins og kvenfyrirlitningu eða rasisma í opinberu rými, þá er það að veita þeim þögla blessun sína. Það er að veita ummælum félagslegt lögmæti, það er að gefa til kynna að það sé eðlilegt að fyrirlíta konur eða fólk af tilteknum uppruna.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem teljum okkur ekki hata konur eða fólk af erlendum uppruna að sýna andúð okkar á þess konar skoðunum. Við eigum bara ekki að sætta okkur við þær. Ég verð líklega að taka fram að ég er ekki að tala um að setja lög eða að njósna um fólk. Ég er að tala um að við berum öll ábyrgð á sameiginlegri menningu okkar sem er í eðli sínu opinber og fyrir allra augum og eyrum. Við höfum áhrif á þá menningu hvað sem við gerum, með þögn, orðum eða aðgerðum.
Sérstaka ábyrgð bera þó þeir sem hafa völd á fjölmiðlum. Þeir hafa veruleg áhrif á það hvað telst skipta máli í hinni sameiginlegu menningu og opinberri umræðu. Fréttir eru ekki einfaldlega það sem gerist í heiminum, heldur það sem ritstjórum og fréttastjórum og öðrum slíkum finnst skipta máli. Og þeir hafa svo sín gildi frá samfélaginu og sér í lagi sinni nær-menningu. Því auðvitað er ekki bara ein menning heldur tilheyrir fólk allskonar ólíkum hópum sem geta skarast eða ekki. En þeir sem ráða efni stórra fjölmiðla hafa yfirleitt tileinkað sér viðhorf og menningu ráðandi afla. Annars væru þeir ekki ráðnir á þessa miðla, því þeir eru í eigu valdastéttarinnar. Eins og heimurinn er í dag leiðir þetta til þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa völd á stórum miðlum eru karlar.

Hér er ein afleiðing þess að karlar ráða yfir opinberri umræðu á Íslandi: ofbeldi karla gegn konum er ekki talið þess verðugt að vera rætt. Skilaboðin eru bæði þögul en samt mjög skýr. Það að karlar nauðga konum og beita þær öðru líkamlegu ofbeldi, af engum öðrum sökum en að þær eru konur, er eðlilegt ástand. Það að fjöldi karla lætur hafa eftir sér viðurstyggilega kvenfyrirlitningu á opinberum vettvangi er ekkert til að tala um og telst þar af leiðandi eðlilegur hluti af okkar menningarlega veruleika.

Önnur afleiðing af því að karlar stjórna umræðu er að tilraunir kvenna til að tala um og vekja athygli á ofbeldi karla gegn konum fær nánast enga umfjöllun – það er einfaldlega ekki talið mikilvægt mál. Ef minnst er á slíkar tilraunir á annað borð þá er það í framhjáhlaupi og án þess að nöfn kvennanna komi fram. Og sérkennilega afhjúpandi sem það er, þá er fréttapunkturinn yfirleitt um áhrif tilraunarinnar á karla!

Við sáum allt ofangreint í síðustu viku þegar Hildur Lilliendahl Viggósdóttir setti saman albúmið „Karlar sem hata konur“. Egill Helgason, valdamesti þáttastjórnandi landsins gat gjörningsins í framhjáhlaupi á blogginu sínu, án þess að nefna Hildi, og talaði eingöngu um áhrifin á karla, vini sína sem hann „þykist vita að hati ekki konur“. Gjörningsins og viðbragðanna var að engu getið í sjónvarpsþættinum hans.
Við getum lært margt af afhjúpandi gjörningi Hildar og viðbrögðunum við honum. Ég mun reyna að gera grein fyrir einhverju af því á næstunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.