Ferðaveldið auglýsir….

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Ferðaskrifstofan Ferðaveldið valdi heiti sitt með femínista í huga, en þeim er svonefnt feðraveldi tamt á tungu og í huga. Þar sem munurinn er aðeins einn stafur vonast talskonur Ferðaveldisins til þess að heiti ferðaskrifstofunnar taki smám saman við af feðraveldinu og öðlist öllu jákvæðari mynd en það í hugum landsmanna.

Femínistar eiga það sameiginlegt með millistéttinni í árdaga Guðna í Sunnu og Ingólfs í Útsýn að hafa uppgötvað nýstárlegt og fróðlegt land sem höfðar til þeirra. Þetta er smáríkið Femínistan, sem á landamæri að Langtburtistan, Ferðakistan, og Framboðslistan. Til hægðarauka fyrir mörlanda hafa heiti ríkjanna verið íslenskuð, því annars væru þau ólæsileg, enda er samkýrillískt letur okkur mjög framandi. Í Femínistan búa Femínistar. Tungumálið heitir femíníska. Við skiljum það ekki.

Fyrir áhugafólk um jafnrétti er Femínistan næsti bær við paradís. Það er eina landið sem fær 100 stig af 100 mögulegum á Equal-skalanum. Þorri Evrópuþjóða er álíka neðarlega á honum og íslenska karlalandsliðið er á lista FIFA. Það skýrir almenna fáfræði okkar um skalann. En með væntanlegri inngöngu í ESB er ekki seinna vænna að kynna sér helstu þætti hans og matsaðferðir því hamingjusamasta og næstmontnasta þjóð í heimi vill auðvitað skora hátt í jafnrétti eins og á öðrum sviðum.

Flestar ferðir Ferðaveldisins til Femínistan byggjast á gistingu á heimilum alþýðufólks til að komast í nána snertingu við jafnrétti daglegs lífs. Almennar skoðunarferðir með rútu, hópgönguferð og fararstjóra ná aldrei að skyggnast undir yfirborðið. Eftir margra alda jafnrétti er að mörgu að hyggja því jafnrétti er til staðar í smæstu atriðum. Lítum á nokkur dæmi.

Talnakerfið í Femínistan kemur ókunnugum spánskt fyrir sjónir því þar eru engar oddatölur. Allt stendur á jöfnu. Femínistar eru afar félagslyndir og þar er enginn einn. Einlífi er óþekkt og gefur auga leið að tvíburafæðingar eru frekar regla en undantekning. Í öllum stjórnum, nefndum og ráðum er jöfn tala. Samkvæmt lögum þurfa allir stjórnarmenn að styðja ákvarðanir í fyrirtækjum og halda mætti að langar og strangar umræður þyrfti áður en komist er að niðurstöðu. Svo er ekki því samhugur þjóðarinnar þykir til eftirbreytni. Femínistar eru á einu máli. Alþjóðaskáksambandið FIDE tók snemma upp kjörorð Femínista: Gens una sumus.

Í Femínistan eru baðvogir ekki til því Femínistar vigta sig ekki og hafa engan áhuga á líkamsþyngd sinni eða annarra. Þetta var ekki gert með lögum eða tilskipun, heldur var kjörþyngd gefin frjáls fyrir rúmri öld og upp frá því dvínaði áhugi alþýðu manna á máli og vog. Útlitsiðnaður stendur afar höllum fæti og sólbaðsstofukeðja sem Novator hugðist stofna fyrir nokkrum árum, komst aldrei lengra en í bakherbergi við aðalstöð strætisvagna í höfuðborginni. Fyrir vikið eru eingöngu fréttir og spakar greinar í dagblöðum í Femínistan en dæmigerð dægurmál og frægðarsmjaður fyrirfinnst ekki vegna áhugaleysis. Stjórnmálasambandi við Smartland var slitið fyrir rúmri öld.

Fataverslanir í Femínistan merkja ekki föt fyrir fullorðna með stærðarnúmerum en miða lauslega við hæð viðskiptavina. Víð og þægileg föt í öllum regnbogans litum hafa verið vinsæl þar síðan á sextándu öld og tískusveiflur eru óþekktar. Bjartsýnir Vesturlandakaupmenn gerðu eina tilraun á liðinni öld að kynna heimamönnum diskófatnað en einu viðskiptavinirnir voru starfsmenn ríkissirkussins.

Í Femínistan er öllu skipt jafnt sem á annað borð er hægt að skipta. Minnstu matarskammtar eru ætlaðir tveimur. Í Femínistan var deilingin fundin upp, eins og lesa má um í Reikningsbók Elíasar Bjarnasonar. Stærðfræðireglan alþekkta, 2 plús 2 eru 4, var einnig þróuð í árdaga í Femínistan og hafa margar menningarþjóðir tekið hana upp.

Ferðaveldið fer fyrstu hópferð sína til Femínistan í vor og er uppselt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.