Að drekka eins og kona

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

„Hlutfall kvenna í sjúklingahópnum á Vogi hefur hækkað á síðustu árum og er nú komið upp í 37 prósent. Árið 1980 var það 20 prósent.“ Þessar gleðifregnir las ég á visir.is að morgni síðastliðins föstudags.

Mynd af: http://blisstree.com

Nú kynni einhver að spyrja af hverju undirritaðri þyki það gleðilegt að viðkoma kvenna í áfengismeðferð hafi aukist umtalsvert undanfarin ár. Fyrir því er einföld ástæða: konur hafa löngum ekki sótt sér meðferð við áfengis- og vímuefnavanda í sama mæli og þörf krafði. Það getur því ekki annað en talist gleðiefni að þær skuli nú hafa „sótt í sig veðrið“ og séu orðnar duglegri að leita sér aðstoðar við sínum vanda, rétt eins og karlar hafa gert, og vonandi er það til marks um að eitthvað sé að draga úr þeim gríðarlegu fordómum og ranghugmyndum sem lengi hafa ríkt gagnvart konum og vímuefnavanda. Fordómum sem hafa á margvíslegan hátt stuðlað að því að konur leita sér síður meðferðar, gera það seinna á sjúkdómsferlinu og eru gjarnan orðnar verr á sig komnar og veikari, á líkama sem sál, en karlarnir þegar þær að endingu gera það.

Fyrirsögn fréttarinnar er í nokkru ósamræmi við tilefni hennar og, að mínu mati, æði misvísandi: „Íslenskar konur búnar að ná körlum í drykkjunni“

Þessi fyrirsögn er misvísandi af tveimur ástæðum: í fyrsta lagi gefur magn áfengis sem innbyrt er af tilteknum þjóðfélagshópum ekki nema takmarkaðar vísbendingar um útbreiðslu áfengissýki (en fréttin undir fyrirsögninni tengir mjög beint saman aukningu á neyslu áfengis og tíðni sjúkdómsins) eða alvarleika sjúkdómsins, enda felst hann ekki endilega í magninu sem neytt er heldur mun fremur í því hvernig þess er neytt og með hvaða afleiðingum; í öðru lagi felur fyrirsögnin í sér að konur hafi ekki fyrr en tiltölulega nýlega tekið upp á þeim óskunda að verða alkóhólistar í sama mæli og karlar – en það er gamalgróin ranghugmynd sem ég hélt að væri löngu búið að afsanna.

Nú eru konurnar, samkvæmt blaðamanni visir.is, búnar að „ná“ körlunum og ljóst af fréttinni að það þykir ekki sérstaklega lofsvert. Og það sem ég staðnæmdist einkum og sér í lagi við eru ummæli Gunnars Smára Egilssonar, formanns SÁÁ, sem kýs af einhverjum ástæðum að setja þennan árangur kvenna í baráttunni við vímuefnavanda sinn í samhengi við jafnréttisbaráttu undangenginna áratuga – og það með fremur neikvæðum formerkjum:

Varðandi mögulegar ástæður fyrir þessari þróun veltir Gunnar Smári upp spurningunni um kynjajafnrétti. „Konur þurfa að geta gert allt eins og karlar, þar á meðal drukkið eins og þeir,“ segir hann. „Það hefði verið betra að fara hina leiðina, þar sem karlarnir hefðu þurft að læra að drekka eins og konur.“

Látum það nú eiga sig í bili hversu óígrunduð og smættandi sú fullyrðing er að „konur þurfi að gera allt eins og karlar“, sú útlegging á megininntaki jafnréttisbaráttu kvenna undanfarna hálfa öld eða lengur dæmir sig í rauninni sjálf. Íhugum frekar þá skoðun Gunnars Smára að það hefði verið skárra ef karlar hefðu tileinkað sér neyslumynstur kvenna og „lært að drekka eins og konur“.

Þá blasir við að spyrja: hvernig drekkur maður eins og kona?
Á plötunni Áfram stelpur, sem kom út í tilefni að kvennafrídeginum árið 1975, var sungið um áfengis- og vímuefnavanda kvenna – þótt það væri gert undir rós:

Ef börnin í þig ónotum hreyta
æskirðu liðsinnis buguð af þraut.
Og ef bóndinn hann segir bless og er farinn
þá búið það tekur að vanta graut.

Þá vappaðu inn í Víðihlíð,
inni í Víðihlíð, í Víðihlíð
og vertu þar síðan alla tíð, alla þína tíð.

Ef enginn þér sýnir samúð neina
en sorgirnar hlaðast að fyrir því.
Og ef engin hræða til þín tekur
tillit né sýnir viðmót hlý.

Þá vappaðu inn í Víðihlíð…

(Lag og texti: Megas)

Sú Víðihlíð sem þarna var sungið um var ekki meðferðarstofnun við vímefnavanda í líkingu við það sem við þekkjum í dag heldur deild tengd Kleppi sem var skilgreind sem „taugasjúkdómadeild“ og að „vappa inn í Víðihlíð“ var í raun veigrunarorðalag yfir að leita sér hjálpar – þegar fokið var í öll skjól, ekki lengur hægt að leyna ástandinu og heimilislæknirinn endanlega hættur að skrifa upp á meira róandi – við sjúkdómi sem í þá daga taldist ekki sjúkdómur heldur í skásta falli „nevrósa“ og í versta falli aumingjaskapur. Þegar þetta auðnuleysi hrjáði konur komu margs konar tabú með í pakkanum sem áfengissjúkir karlar þurftu ekki að kljást við. Og þessa bannhelgi hefur reynst erfitt að uppræta, eins og kemur berlega fram í rannsókn sem var gerð á 516 sjúklingum sem komu til meðferðar á Vog, Teig og deild 33A á LSH á árunum 2000 og 2001. Niðurstöður rannsóknarinnar eru um margt athyglisverðar, eins og Fríða Proppé, blaðamaður og áfengisráðgjafi, gerir grein fyrir í Tímariti hjúkrunarfræðinga í maí 2003:

Mynd af: http://24.media.tumblr.com

Konur koma veikari til áfengismeðferðar, hafa meiri fráhvarfseinkenni og eru mun lengur að jafna sig en karlar. Þær hafa fleiri einkenni um alvarleika áfengissýki, bæði líkamleg og andleg. Þær eru einnig tilfinninganæmari og undanlátssamari, láta frekar undan þrýstingi og reyna frekar að bera í bætifláka fyrir sjálfar sig en karlar. Greinanlegur munur er á drykkjumynstri karla og kvenna. Konur eru t.d. mun fleiri í dagdrykkju á meðan karlar stunda frekar túradrykkju. Þá misnota konur í meira mæli lyf í tengslum við áfengisneyslu en karlar.
[ … ] Körlum fyrirgefst meira og er mismunandi afstaða til kynferðismála handhægust til skýringar. Drukknum körlum er talið til tekna að komast yfir sem flestar konur og þeir stæra sig af því. Konur, sem gera slíkt hið sama undir áhrifum, eru fordæmdar. Þær fá þann stimpil að vera lauslátar. Löngum hefur það verið svo, að þegar konu er nauðgað og gerandinn er drukkinn er það talið draga úr ábyrgð nauðgarans, en konan er talin ábyrgari, ef hún er drukkin.
[ … ] Umhverfið er sem sagt ekki eins umburðarlynt gagnvart konum og körlum. Konur sæta því meiri fordómum. Þetta veldur því að konur fá meira aðhald, þ.e. gæta sína betur á að drekka ekki um of á almannafæri, en þær konur sem verða sjúkdómnum að bráð eiga oftar í erfiðleikum með að leita sér hjálpar. Þær drekka oft lengi í felum inni á heimilum sínum, fá síður stuðning frá fjölskyldu, læknum og vinnufélögum. Það hefur verið hylmt yfir neysluna langt fram yfir eðlileg mörk af þessum ástæðum einum.
(Sjá grein í Tímariti íslenskra hjúkrunarfræðinga.)

Þessi rannsókn virðist því draga fram í dagsljósið með skýrum hætti að áfengis- og vímuefnavandi kvenna var, og er jafnvel að einhverju marki enn, falið vandamál. Allir sem hafa fylgst með umræðu um áfengisvanda og -meðferð eða starfað á þeim vettvangi þekkja hugtakið „gardínukonur“ – sem notað er um nákvæmlega þetta neyslumynstur: það er dregið fyrir gluggana, neyslan er í felum, hún er tabú, hún er inni á heimilinu en ekki úti í samfélaginu. Það blasir auðvitað við að aukin atvinnuþátttaka kvenna gerði þeim smám saman erfiðara um vik að „drekka eins og kona“, auk þess sem skipulegri aðför kvenréttindabaráttunnar að staðalmyndum kynjanna hefur tekist að flísa talvert úr helgistyttunni af hinni fullkomnu móður, konu og meyju, með þeim afleiðingum að bæði konur og samfélagið eiga nú örlítið auðveldara með að sætta sig við konu sem drekkur sér til skaða og hefur enga stjórn á neyslu sinni.

Afstaða almennings til þess að leita sér aðstoðar við áfengissýki hefur gerbreyst undanfarin ár, t.d. þykir ekki lengur neitt tiltökumál að minnast á áfengisvandamál í minningargreinum og þá ekki einu sinni undir heilum rósavendi, eins og áður var. Það er gefið veikindafrí úr vinnu til að fara í meðferð og það að gangast við sjúkdómnum, sem er jú fyrsta skrefið í átt að bata, felur ekki í sér áfellisdóm yfir þeim veika. Að minnsta kosti þegar karlar eru annars vegar. Enn í dag verður starfsfólk meðferðarstofnana hins vegar vart við rótgróna fordóma gangvart vímuefnavanda kvenna, eins og Stefanía Þóra Jónsdóttir, ráðgjafi á göngudeild, lýsti nýlega í SÁÁ-blaðinu (3. tbl., 2011): „Það er hægt að spyrja sig hvers vegna færri konur koma í meðferð en karlar, því það er ekkert sem bendir til þess að vandi kvenna sé minni,“ segir Stefanía Þóra, sem telur að ástæðan liggi að stórum hluta í viðhorfi samfélagins til vímuefnavanda kvenna. Hún bendir einnig á að fordómarnir séu jafn inngrónir með konunum sjálfum og þeir eru í samfélaginu:

„Konur hafa annars konar ábyrgðartilfinningu en karlar og fordómar þeirra í eigin garð eru meiri. [ … ] utan frá séð virðast konur ekki eiga við jafn mikinn vímuefnavanda að etja og karlmenn þó ekkert renni stoðum undir það. Sem betur fer hefur þetta breyst og konum sem leita sér hjálpar fjölgar jafnt og þétt.“

Hefur jafnréttisbarátta kvenna og femínisminn sem hugmyndafræði „breytt“ konum í alkóhólista? Eða aukið tilhneigingu þeirra til ofneyslu vímuefna? Auðvitað ekki, og mér er stórlega til efs að formaður SÁÁ telji svo vera. Það vekur hins vegar furðu mína að hann skuli kjósa að setja þessar nýfengnu tölur um aukna áfengisneyslu kvenna og fjölgun innlagna kvenna á Vog í nákvæmlega þetta samhengi. Að mínu viti hefði hér verið kærkomið tækifæri fyrir Gunnar Smára til að lýsa yfir ánægju með að sífellt fleiri konur treysti sér nú til að draga gluggatjöldin frá og nýta sér það markvissa starf sem unnið hefur verið hjá SÁÁ við að þróa meðferðarúrræði fyrir konur – starf sem hefur skilað góðum og varanlegum árangri, enda er þar unnið sérstaklega með sértæka, félagslega þætti sem snerta konur í vímuefnavanda – og nýta þetta tækifæri til að undirstrika þá staðreynd að áfengis- og vímuefnavandi kvenna er hreint ekki nýtilkominn, heldur er nú fyrst að koma fram í dagsljósið.

Jafnréttisbaráttan hefur ekki gert neina konu að alkóhólista, en það má leiða að því líkur að sú barátta hafi eflt margar konur og styrkt til að kasta af sér byrði bannhelginnar á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, og sækja sér þá meðferð sem þær þurfa. Og líklega hafa margar kynsystra þeirra af eldri kynslóðinni þjáðst áratugum saman að óþörfu, allt vegna þess að samfélagið sem þær bjuggu í brennimerkti þær sem aumingja, druslur, óhæfar mæður, misheppnaðar húsmæður og afbrigðilegar konur með hysteríu fyrir að þjást af sjúkdómi sem þótti að vísu ekki til eftirbreytni hjá karlkyns samtímamönnum þeirra, en var þó tekið af ólíkt ríkara umburðarlyndi og skilningi þegar það var karl sem fékk hann.

Þess vegna finnst mér ástæða til að gleðjast yfir því að sífellt fleiri konur skuli skila sér á Vog og í eftirmeðferðir og að sífellt fleiri konur skuli kjósa að hætta að „drekka eins og kona“. Eða er það ekki jákvæð þróun að konur séu nú síður hikandi við að leita sér meðferðar við þessum vanda, til jafns við karlana – en þjáist ekki hálfa ævina á bak við luktar dyr, leiti sér aldrei hjálpar og deyi jafnvel úr sjúkdómnum? Að tala eins og sú staðreynd að fleiri konur komi nú á Vog en áður sé til marks um að alkóhólismi hafi aukist meðal kvenna er, í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja um vímuefnavanda kvenna, afar vafasamt. Að ýja að því, jafnvel þótt í hálfkæringi sé, að vímuefnavandi kvenna hafi á einhvern hátt aukist í kjölfar sóknar þeirra í jafnréttismálum er satt að segja forkastanlegt.

Heimildir:
Konur eru veikari en karlar – Grein eftir Fríðu Proppé í Tímariti hjúkrunarfræðinga, 79. árg., 2. tbl. , bls. 34-37

Fordómar í garð kvenna meiri
Viðtal við Stefaníu Þóru Jónsdóttur, ráðgjafa á göngudeild SÁÁ, SÁÁ-blaðið, 3. tbl. 2011, bls. 22

Ein athugasemd við “Að drekka eins og kona

  1. Bakvísun: Að vera eða ekki vera – í kvenfélagi | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.