Höfundur: Drífa Snædal
Svíar eru sú þjóð sem hafa gengið lengst í baráttunni gegn vændi og mansali. Með lögunum um að banna vændiskaup 1996 var brotið blað í löggjöf á sviðinu og mörg lönd hafa fylgt í kjölfarið, meðal annars Ísland. Hugmyndafræðin að baki er að gera kaupendur ábyrga og draga þannig úr eftirspurn í stað þess að gera oft og tíðum fórnarlömb mansals eða nauðungar ábyrg fyrir vændi. Eftir að lögin voru sett dró úr vændi í Svíþjóð og manseljendur fóru að sniðganga landið. Vændi er þó ennþá til í Svíþjóð og nýlega var birt rannsókn á umfangi þess og hvort félagsleg aðstoð til vændiskaupenda og -seljenda hefði haft áhrif. Niðurstöðurnar koma á óvart en hafa ber í huga að svarhlutfallið var einungis rúmlega 50% og margir völdu að taka ekki þátt – það gæti skekkt niðurstöðuna.
Meðal þátttakenda í könnuninni höfðu 10,2% karla keypt vændi en 0,1% kvenna, þetta eru varla fréttir. Hins vegar kemur líka í ljós að 0,8% karla en 0,6% kvenna hafa einhvern tímann þegið greiðslu gegn sölu á líkama. Flestir sem hafa bæði keypt og selt vændi hafa gert það innan við þrisvar sinnum. Lítill félagslegur munur er á körlum sem kaupa vændi og þeim sem ekki kaupa vændi en þó eru þeir sem kaupa vændi aðeins líklegri til að neyta áfengis og fíkniefna og hafa beitt eða búið við ofbeldi. Sömu sögu er að segja um fólk sem selur vændi, það er líklegra til að neyta áfengis og eða fíkniefna og að hafa búið við ofbeldi og nauðung í kynlífi.
Þegar áhrif laganna frá 1996 voru skoðuð tíu árum síðar kom í ljós að þau félagslegu úrræði sem ætlunin var að fylgdu í kjölfarið höfðu látið á sér standa og því var farið í átak til að aðstoða fólk út úr vændi og aðstoða menn að hætta að kaupa vændi. Fólk sem fékk ráðgjöf og stuðning eftir að hafa hætt í vændi í gegnum FAST (försäljare av sexuella tjänster) vitnaði um aukin lífsgæði og betra sjálfsmat en stærsti hluti þátttakendanna voru konur. Þeir kaupendur sem sóttu sér aðstoð í gegnum KAST (Köpare av sexuella tjänster) gerðu það vegna kynlífsfíknar og sjálfsskaðandi hegðunar í tengslum við kynlíf. Þeir vitnuðu um betra sjálfsmat og bættra geðheilsu í kjölfar aðstoðarinnar. Þá hefur einnig verið boðið upp á aðstoð fyrir aðstandendur kynlífsfíkla.
Stærsti hluti sænsku þjóðarinnar álítur það skaðlegt fyrir fólk að bæði kaupa og selja vændi og almenn ánægja er með nýju löggjöfina. Svíþjóð er hins vegar ekki eyland og 80% vændiskaupenda greina frá því að kaupin hafi átt sér stað á erlendri grundu, oft í tengslum við viðskiptaferðir. Til að vinna gegn vændi og mansali þarf því alþjóðlegt átak og verra að hvorki sé hægt að koma sér saman um að vinna gegn vændi né aðferðafræði. Það er þekktara en frá þarf að greina að flestar kvennanna sem selja eða seldar eru í vændi búa við mikla ofbeldishættu og þessi rannsókn staðfestir það.
Það sem rannsóknin flettir ofan af er fjöldi karla sem selja öðrum körlum vændi og sú staðreynd að það eru fleiri karlar sem hafa selt vændi í Svíþjóð en konur. Þarna hafa yfirvöld sofið á verðinum því allur stuðningur og flestar rannsóknir hafa beinst að því að greina veruleika kvenna og aðstoða þær til að komast út úr vændi. Það er einungis allra síðustu ár sem kastljósinu hefur verið beint að körlunum þó að ýmislegt bendi til þess að aðstæður þeirra séu þær sömu og kvennanna, þ.e. hætta á ofbeldi, aukin áfengis- og fíkniefnaneysla og fortíð sem er mörkuð ofbeldi og nauðung í kynlífi. Fleiri konur en karlar eru þó tíðir seljendur vændis því karlar gera þetta frekar í örfá skipti.
Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á vændi á Íslandi og því er ágætt fyrir okkur að sækja þekkingu til annarra landa. Reyndin er sú að félagsleg hegðun okkar er svipuð og nágrannaþjóðanna og því er tilefni til að við skoðum stuðningsnet okkar við fólk í vændi og þá í ríkari mæli karla í vændi. Þá tel ég tilefni til að ræða aðstoð við kaupendur vændis til að rjúfa hegðun sem skaðar þá sjálfa og umhverfið.
Líkar við:
Líka við Hleð...