Af ástum og örlögum anda

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

Mynd af http://www.feilbloggen.no

Ég veit að það sýnir vítavert kæruleysi og léttúðugan hugsunarhátt, en umræðan um nýju barnalögin minnti mig á gamlar pælingar um fjölskylduhagi í blöðunum um Andrés önd og félaga. Andrés elur upp þrjá systursyni sína, Ripp, Rapp og Rúpp. Amma önd er einhleyp eldri „kona“ sem býr með gæsastegg – ég er alls ekki að gefa í skyn að samband þeirra sé að nokkru leyti vafasamt, gamla öndin má eflaust ekki vamm sitt vita – og virðist í fljótu bragði ekki blóðskyld neinni sögupersónu, þó að allir kalli hana ömmu. Skyldleiki Jóakims frænda við hana og aðrar persónur er loðinn á köflum en komið hefur fram að Hortensía systir hans er móðir Andrésar og Dellu (hinnar horfnu systur, móður „drengjanna“). Jóakim er af sömu kynslóð og Andrea önd (amma) en þau eru ekki skyld. Jóakim er einhleypur, en átti í sambandi við amk. eina bráðhuggulega önd (á dönsku heitir hún Gulda, Goldie á frummálinu; ég veit – ég grauta saman nöfnum á þremur tungumálum) á gullgrafaraárum, þótt engin séu afkvæmin. Andrés er líka að stíga í vænginn við bráðhuggulega önd, Andrésínu, sem fær stundum þrjár litlar frænkur í heimsókn. Þær búa þó ekki hjá henni.

Mynd af http://www.donaldisme.dk

Þegar maður veltir fyrir sér þessum ættartenglum persóna í Andabæ dettur manni kannski fyrst í hug að allir sem lifi kynlífi og eignist afkvæmi séu gerðir brottrækir úr bænum, þó með þeim fyrirvara að afkvæmi þeirra megi búa þar hjá frændfólki, amk. fram á unglingsár. Þessi skoðun styrkist þegar litið er á aðra bæjarbúa, til dæmis Mikka og Mínu mús (óstaðfestar sögur um hjónaband þeirra hafa verið á kreiki síðan 1933, en þau búa ekki saman, hvernig sem hjúskaparstaða þeirra kann að vera) sem ala líka upp systkinabörn sín, að minnsta kosti á köflum. Heldur hefur þó dregið úr heimsóknum Mik og Mak til Mikka eftir að músin lagðist í glæparannsóknir, framan af með Guffa vini sínum, undantekningunni sem sannar regluna. Blessaður einfeldningurinn hann Guffi er nefnilega annar af tveimur einstæðum feðrum í Andabæ, pabbi stálpaða „drengsins“ Max, en engum sögum fer af móður hans. Annar móðurleysingi, lítill úlfur, er einnig alinn upp hjá einstæðum föður sínum, þó ekki innan bæjarmarka Andabæjar.

Eina einstæða móðirin – og reyndar eina móðirin – sem ég man eftir í svipinn í sögunum er mamma Bjarnarbófanna, þeirra illskeyttu ræningja og erkifénda Jóakims. Kannski hefur þá vantað sterka föðurímynd í uppvextinum, eins og maður heyrir stundum um unga afbrotamenn í raunheimum. En svo læðist að manni sú tilhugsun að sterk föðurímynd sé ekki alltaf nóg, því að Bjarnarbófarnir eiga reyndar líka frændur (Bøllespirerne á dönsku, sem mér finnst betra en enska nafnið Beagle Brats) og eru þeim slæm fyrirmynd. – Persónulega held ég að kyn fyrirmynda skipti minna máli en lífsgildin sem þær hafa tileinkað sér og miðla ungviðinu, en það er nú bara ég …

Hvaða ályktanir getur maður svo dregið af þessu?

Ja, tvennt liggur ef til vill beint við: a) Andarsteggir eru miklu betri uppalendur en kvenkyns endur og b) Disney-samsteypan er ekki sérlega hrifin af mæðrum, amk. ekki sem (einstæðum) uppalendum í teiknimyndasögum.

Mynd af Wikipedia.org

Þegar ég var alast upp og seinna, þegar ég var sjálf að ala upp börn, voru einstæðar mæður litnar miklu hornauga í samfélaginu. Siðferði þeirra þótti vafasamt, varla hægt að leigja þeim húsnæði eða ráða þær í vinnu og fleira í svipuðum dúr. Ef kona lét frá sér barn var hún ekki síður vafasamur pappír, enda stríddi það gegn göfugu móðureðlinu og ekki var heldur gott til afspurnar að hún vistaði barnið á stofnun yfir daginn á meðan hún reyndi að sjá heimilinu farborða. – Væntanlega hafa íbúar Andabæjar verið sammála þessu og því gert mæður útlægar úr bænum.

Einstæðir feður voru svo til óþekkt stærð, helst þá ekkjumenn sem nutu mikillar samúðar og aðdáunar fyrir dugnað og elju. Þeir sem höfðu efni á því réðu ráðskonur eða vinnukonur til að annast börn og heimili, öðrum tókst einhvern veginn að halda í horfinu með aðstoð kvenkyns ættingja. – Andabæjarfeðrunum virðist hins vegar takast bærilega að komast af einir í heimilisrekstrinum, en Andabæjarbörnin eru náttúrulega líka óvenju sjálfbjarga og sjálfstæð, úrræðagóð og skynsöm (kannski af því að kvenlæg hugsun hefur ekki náð að spilla þeim).

Sem betur fer hafa tímarnir breyst og fólk er farið að gera sér grein fyrir því að börnum líður best ef þau njóta samvista við báða foreldra, ekki síst ef það er almennilegt fólk sem þykir vænt um börnin sín og lítur á þau sem manneskjur en ekki peð í persónulegu valdatafli, eins og einstaklingar af báðum kynjum eiga til að gera. Það á auðvitað að vera viðmiðið í öllum ágreiningi um forræði barna: hvað barninu er fyrir bestu og hvað barnið vill helst. Barni er enginn greiði gerður með því að neyða það til samskipta við foreldri sem það vill ekki umgangast eða reynist því ekki vel, ekki frekar en að neita því um samvistir við ástríkt foreldri sem hinu foreldrinu er illa við af einhverjum ástæðum. Velferð barnanna verður ævinlega að vera höfð að leiðarljósi í öllu því sem að þeim snýr.

Og hver er svo tengingin á milli allra „brotnu fjölskyldnanna“ í Andabæ og umræðna um barnalögin?

Ja, hún er svosem engin. Þau eru endur (eða mýs eða hundar eða óskilgreind kvikindi) sem búa í teiknimyndaheimi og við erum fólk í raunheimum. En ef þið smellið hér getið þið fræðst um Andrés önd og hans flóknu fjölskyldutengsl. – Ef þið hins vegar smellið hér getið þið séð það sjálf að langstærstur hluti foreldra fer sameiginlega með forsjá barna eftir skilnað og ef þið viljið skoða frumvarp um breytingu á barnalögum smellið þið hér. Þá getið þið myndað ykkur sjálfstæða skoðun byggða á einhverju öðru en glefsum úr fréttum og bloggi.

Um brækur og brókarleysi í Andabæ fjalla ég svo kannski síðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.