Konur og djöflar á miðöldum

Höfundur: Arngrímur Vídalín

devilAndre Jacques Victor Orsel,
„Hið góða og illa:  Djöfullin freistar
ungrar konu“

Mér þykir fátt áhugaverðara en miðaldir. Sérstaklega áhugaverð þykir mér sú hugmynd að Ísland hafi verið einskonar menningarlegt eyland á miðöldum. Hér hafi verið skrifaðar sögur og kvæði af miklum köppum óháð menningarstraumum Evrópu sem eigi sér enga hliðstæðu neinstaðar í heiminum. Það þarf raunar ekki að leita langt til að komast að því að sú söguskoðun stenst engan veginn. Að mörgu leyti var Ísland evrópskara þá en nú.

Meðal þeirra strauma sem bárust hingað eru ýmiss konar trúarbókmenntir, til að mynda sagnir af helgum mönnum og meyjum, þýddar og frumsamdar. Eitt af mörgu sem er athyglisvert við þessar bókmenntir er sú staða kvenna innan trúarheimsmyndarinnar sem í þeim birtist. Af þeim vil ég nefna tvö dæmi.

Í Jóns sögu helga segir frá Guðrúnu nokkurri sem „var kennd við kirkjuna og kölluð kirkjukerling. Hún unni mikið guði, en þó gerði hún marga hluti óviturlega, því hún var fám mönnum lík að undarlegum hlutum og siðum. Þessi kona vakti nætur allar nær í gegnum í kirkju hjá líkum.“ Það er ekki útskýrt til hlítar hvort það hafi verið starf hennar við kirkjuna að vaka yfir líkum, sem þó tíðkaðist fram eftir öldum sbr. hina dásamlegu þjóðsögu „Skemmtilegt er myrkrið“, en í öllu falli þykir þetta kynleg hegðun í sögunni. Ekki er þetta þó hið eina undarlega við Guðrúnu kirkjukerlingu: „Hún hafði gjört sér hjá hurðu kirkjunnar svo sem altari nokkuð, eða stall. Þar sté hún á þann stall daga og nætur og kallaði þaðan til guðs og mælti svo: „Tak þú mig Kristur og skjótt, tak þú mig! Eigi er þegar, nema þegar sé!““

Eina nóttina þegar Guðrún hefur vakað yfir líki einsog hún átti vanda til „þá sýndist henni um miðnættisskeið hrærast hinn dauði á börunum“. Sá dauði ræðst á Guðrúnu, sem flýr með ópum og skelfingu á bakvið altari. Ákall hennar til Krists færir henni óbeina björg í því að meinlætakonan Hildur vaknar við, og þegar hún lítur inn í kirkju sýnist henni „kirkjan öll full af draugum hræðilegum og skuggum, og sóttu allar þessar sjónhverfingar að Guðrúnu“. Lýsingin er hryllileg, og lengst af má Hildur sig varla hræra fyrir óhugnaði, uns hún herðir hugann og ákallar Jón biskup. Andi Jóns birtist med det samme og tekur til óspilltra málanna við að sópa burt djöfulganginum, og bjargar þannig Guðrúnu frá árás kirkjufyllis af gangandi líkum. En það er vegna Hildar sem Guðrúnu er borgið; Guðrún var aldrei bænheyrð.

Hitt dæmið sem ég vildi nefna er þátturinn af leiðslu Rannveigar í Guðmundar sögu biskups. Rétt er að útskýra hugtakið leiðsla fyrst: leiðslubókmenntir er sú grein helgisagna sem fjallar um leiðslu sögupersónu í gegnum handanheiminn, oftast Helvíti. Gleðileikurinn guðdómlegi eftir Dante er líklega þekktasta leiðslan.

Rannveig fellur í dá dag einn um veturinn 1198 eftir að hafa fundið til gríðarlegs líkamlegs sársauka. Þegar hún vaknar aftur biður hún um að Guðmundur Arason verði kallaður til svo hún geti sagt honum frá því sem hún upplifði. Djöflar höfðu tekið hana og pyntað, brennt á henni fæturna, hendurnar og bak hennar fyrir syndir hennar, að hafa lagst „undir tvo presta og saurgað svo þeirra þjónustu“. Hún hafði þá ákallað Maríu guðsmóður, sankti Pétur, Ólaf Helga, Magnús jarl af Orkneyjum og helgan Hallvarð af Osló. Aðeins Skandinavarnir mæta á svæðið og bjarga Rannveigu frá djöflunum.

Þegar hún nær meðvitund aftur eru sárin eftir Helvítisvistina enn til staðar, en þannig skýrðu dýrlingarnir þau:

Nú brannstu því á fótum, að þú hafðir skrúðsokka og svarta skúa og skreyttist svo við körlum, en því á höndum, að þú hefur saumað að höndum þér og öðrum á hátíðum, en því á baki og herðum, að þú hefur borið á þig skrúð og léreft og skreyst við körlum af metnaði og óstyrk.

„Í þessu geta bæði fjandar og helgir menn sameinast gegn konunni,“ hafði Helga Kress um málið að segja, og þykir mér hún helst til stuttorð.

Það sem helst vekur athygli mína í flóru íslenskra helgisagna frá miðöldum er að yfirleitt eru það konur sem hljóta líkamlega refsingu fyrir syndir sínar. Vissulega er víða nefnt í leiðslum fólk af báðum kynjum sem líður kvalir í Helvíti af ýmsum sökum, enda eru þetta fyrst og fremst dæmisögur ætlaðar áheyrendum sem nokkuð bókstaflegt víti til varnaðar. Karlar sem leiddir eru gegnum Helvíti sleppa hinsvegar billega miðað við konur að öllum jafnaði, og þeir sem hljóta líkamlegan skaða meðan á vistinni stendur vakna aldrei öróttir aftur til lífsins. Það kemur hinsvegar fyrir Rannveigu. Það vekur líka athygli að henni er refsað fyrir að halda við tvo presta, en engum sögum fer af því hvort þeim prestum verði nokkru sinni refsað fyrir sinn hluta ástarævintýrisins. Henni er líka refsað fyrir að klæða sig skrautlega og ganga þannig í augun á körlum.

Fyrir enga muni er ljóst í hverju refsing Guðrúnar kirkjukerlingar felst. Hún er litin hornauga fyrir að vaka með líkum, sem þó á ekki að hafa verið óeðlilegt fyrir sinn tíma. Hún er mjög trúuð, en helst má finna henni til foráttu að hana skortir hógværð – hún á það til að flíka trúnni sem mest hún má. Þetta er þó ekki nefnt henni sérstaklega til lasts í sögunni. Hildur hefur á hinn bóginn snúið baki við veraldlegum gæðum og það er fyrir hennar ákall til almættisins að Guðrúnu er borgið. Almættið virðist því einlægt ákall Guðrúnar um hjálp að vettugi, á vissan hátt sambærilegt við smaladrenginn sem gerði sér að leik að vara við úlfaferðum. Konur eru jafnframt ætíð einar til frásagnar um þær yfirnáttúrlegu árásir sem þær verða fyrir, en jafnan eru mörg vitni að hetjudáðum og klókindum helgra karla.

Ég nefndi í upphafi pistilsins að Ísland hefði verið í nánu sambandi við Evrópu á miðöldum. Þó ég hafi ekki rúm til að fara sérstaklega í þau tengsl hér þá langar mig að nefna eitt þessu að stærstum hlut ótengt í lokin. Ísland sker sig nefnilega alveg frá meginlandinu þegar kemur að galdrafárinu: það er eina landið þar sem fleiri karlmenn voru teknir af lífi fyrir galdra en konur. Það eitt og sér er fyrir margar sakir merkilegt.

Hvernig stendur svo eiginlega á þessu öllu saman? Það er helst til flókið að rekja í stuttu máli og því hef ég því miður ekkert gott svar við því í augnablikinu. En án efa er það efni í annan pistil.

Rit sem vísað er til:

Guðmundar saga biskups. Biskupa sögur. Hið íslenzka bókmenntafélag. Kaupmannahöfn, 1858.

Helga Kress. „Grey þykir mér Freyja.“ Um konur, kristni og karlveldi í íslenskum fornbókmenntum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 1996. 

Jóns saga helga. Biskupa sögur. Hið íslenzka bókmenntafélag. Kaupmannahöfn, 1858.

Stafsetningu sagnanna færði ég til nútímahorfs.

Ein athugasemd við “Konur og djöflar á miðöldum

  1. Bakvísun: Hann er skáldið, hún er tröll – um Máttugar meyjar eftir Helgu Kress | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.