Mega strákar segja nei?

Höfundur: Eyja M. Brynjarsdóttir

Fréttir af kynhegðun unglingsstúlkna á Íslandi hafa verið áberandi nýlega. Í þættinum Ísland í dag kom til dæmis fram unglingsstúlka sem lýsti því hvernig hún hefði frá 14 ára aldri verið beitt þrýstingi af unnusta sínum til kynlífsathafna sem henni hugnuðust ekki en hún litið svo á að sjálfsagt væri að hún léti undan þrýstingnum.* Skömmu síðar birtist í ýmsum miðlum frétt sem virtist tilkomin vegna frumvarps velferðarráðherra um að skólahjúkrunarfræðingar fái að ávísa getnaðarvarnapillum. Í fréttinni er haft eftir hjúkrunarfræðingi að stúlkur allt niður í 11 ára séu farnar að stunda kynlíf, hvað svo sem það nú þýðir. Í kjölfarið hafa ýmsar upphrópanir sést, ekki síst um að veita þurfi ungum stúlkum fræðslu og stuðning og jafnvel um að þeir sem sofi hjá ellefu ára gömlum stelpum séu nú bara ekkert annað en barnaníðingar. Það er ýmislegt við þetta sem ég verð hugsi yfir.
Til að byrja með finnst mér rétt að benda fólki á að það kemur hvergi fram í síðarnefndu fréttinni að aldur við fyrstu kynmök fari lækkandi eða neitt slíkt og einhvers staðar hef ég heyrt að sá aldur fari jafnvel hækkandi, en ég er svo sem ekki með neinar staðfestar tölur þess efnis. Það að heyrst hafi af 11 ára stúlkum sem sofa hjá er heldur ekki ný þróun, ekki nema þetta sé orðinn útbreiddur siður hjá þeim en það kemur að minnsta kosti ekki fram í fréttinni. Sjálf man ég eftir stelpum frá mínum unglingsárum sem byrjuðu á þessu ungar, allt niður í 11-12 ára þótt fleiri hafi kannski verið svona 13. Nú vil ég auðvitað alls ekki mæla því bót að börn og unglingar geri eitthvað sem þau hafa ekki þroska til að gera en ég verð að játa að mér fannst dálítið óljóst hvað það væri í pillutengdu fréttinni sem væri, tja, fréttnæmt.
Það sem mér finnst við samt fyrst og fremst þurfa að skoða betur og staldra við varðandi þessa hluti er hin einhliða áhersla á stelpurnar. Vonandi er áherslan ekki þannig meðal þeirra sem sjá um að styrkja og fræða börn og unglinga en hún vill verða þannig bæði hjá fréttamiðlum og í netumræðum í kjölfarið. Af hverju fáum við aldrei fréttir af því hve gamlir (eða ungir) strákar séu farnir að stunda kynlíf? Skiptir það engu máli? Er enginn sem fylgist með því? Hve gamlir eru til dæmis þessir strákar sem 11 ára stelpurnar hafa verið að sofa hjá? Eru þeir 11 ára líka eða eru þetta hálffullorðnir menn? Það er nokkuð sem mér finnst skipta talsvert miklu máli, ekki myndi ég kalla strákling sem sefur hjá jafnöldru sinni barnaperra. Ef svona ungir strákar stunda kynlíf hlýtur að vera full þörf á að þeir fái líka fræðslu og stuðning, eða hvað?

Málið er að með því að jesúsa okkur bara yfir stelpunum og tala um að styðja þær og styrkja, að það þurfi að gera þeim ljóst að þær megi setja mörk og segja nei, erum við að viðhalda ákveðnum kúltúr sem felur í sér þjóðsögu. Þjóðsagan er sú að konur fái ósköp lítið út úr kynlífi meðan karlmenn hafi óstöðvandi kynferðislegar þarfir. Flest gerum við okkur vonandi grein fyrir því að þetta er ekkert annað en þjóðsaga en hún er samt merkilega sterk í menningu okkar, kannski vegna þess að einhvern veginn hefur hún sprottið úr henni. Samkvæmt þessum kúltúr er karlinn kynferðislegur gerandi en konan kynferðislegt viðfang, konan lætur hinar ýmsu kynferðislegu athafnir yfir sig ganga til þess að þóknast karlinum og það er hennar að setja mörk og segja nei. Karlmaður er ekki gjaldgengur nema hann sé alltaf til í tuskið, hvar og hvenær sem er, og hann er til í að prófa hvað sem er í kynlífi. Karlmennska hans felst meðal annars í því að vilja ganga sem lengst og það virðist ekki vera til sú kynlífstengda athöfn sem er of gróf eða hrottafengin fyrir hans smekk. Það er aðeins hægt að misbjóða konum í þessum efnum.

Auðvitað eiga stelpur að fá þau skilaboð að þær megi segja nei við hlutum sem þær kæra sig ekki um og auðvitað eiga þær að geta haft það sjálfsöryggi sem þarf til að segja „hingað og ekki lengra“. En eiga strákar ekki að geta það líka? Er ekki full þörf á að strákar fái að vita að það sé nákvæmlega ekkert athugavert við að þeir séu ekki alltaf tilbúnir fyrir kynlíf, að það geti meira að segja verið í lagi fyrir þá að viðurkenna að þeim finnist þeir vera of ungir og að það eigi alls ekki að vera þeirra hlutverk að fruntast bara áfram í einhverri blindni reynandi á þolmörk kærustunnar? Mega strákar ekki líka segja nei, hvort sem það er við kynmökum yfirleitt eða við einhverjum tilteknum afbrigðum þeirra? Og getur ekki verið að þeim líði stundum illa, rétt eins og stelpum, yfir einhverju sem þeir hafi prófað?
Það er nefnilega eitthvað mikið að í samfélagi sem kennir karlmönnum að það sé sjálfsagt að þeir hegði sér eins og óseðjandi sæðisspýtingavélar sem æði bara áfram hugsunarlaust þar til þær rekast á vegg. Eigum við ekki öll, hvort sem við erum kven- eða karlkyns, að fá næði til að kynnast löngunum okkar og þrám og að fá viðurkenningu á því að okkur finnist kannski ekki endilega allt freistandi sem við rekumst á, hvort sem það tengist kynlífi eða einhverju öðru? Getur verið að ef sú mynd er dregin upp af unglingsstrákum að þeir séu bara einhverjir siðblindir klámhundar sem ekki sé einu sinni ástæða til að ræða málin við þá fari þeir einmitt að upplifa þrýsting þess efnis að nákvæmlega þannig eigi þeir að hegða sér?

*Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka það fram að mér fundust hvorki unglingsstúlkan sem kom fram í Íslandi í dag né móðir hennar sem líka var talað við falla í þá gryfju að demónísera unglingsstráka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.