Öfgar og réttindi

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Vigdís Finnbogadóttir er á forsíðu Monitor, sem er fylgirit Morgunblaðsins. Þetta er 128. tölublaðið og fyrir áhugafólk um hausatalningar má geta þess að 31 kona hefur prýtt forsíðuna en 97 karlar.

Margt fróðlegt kemur fram í viðtalinu en netumræða dagsins staldraði einkum við tvær spurningar og svörin við þeim. Eðlilegt þótti að spyrja Vigdísi um stöðu mála í kvenréttindabaráttunni nú á dögum, en seinni liður spurningarinnar vekur furðu þar sem orðið
„öfgafemínismi“  er innan gæsalappa, án þess að það sé skýrt nánar, þótt tilefnið sé ærið. En svarið er frábært þótt það vísi líklega ekki beinlínis til þess sem spyrjandinn hafði í huga. Öfgarnar í umræðum um femínisma hafa ekki farið fram hjá viðmælandanum, en eru þær ekki einkum hjá andstæðingum femínista? Því seint verður sagt að sú einfalda hugsjón að vilja koma á jafnrétti, flokkist undir öfga. Þessar öfgar birtast einkum í formi haturs, óhróðurs, fúkyrða og níðs í netumræðu og víðar og einarðri kröfu karlmanna um að konur haldi kjafti. Öfgar geta eyðilagt góðan málstað, segir frú Vigdís og undir það tekur allt skynsamt fólk, einkum þeir sem muna að framboð hennar til forseta árið 1980 var talið til öfga hjá ákveðnum hópum. Enn er þörfin brýn að andæfa gegn þeim sem finna jafnréttishugsjóninni allt til foráttu og telja nóg komið.

Í ljósi þess eru seinni ummælin athyglisverðari. Vigdís er mikil kvenréttindakona eins og allir vita en virðist skynja að eitthvað halli á karlmenn í jafnréttinu.

„Ég vil ekki að karlar þurfi að upplifa það sem konur þurftu að upplifa áður, að konur séu orðnar það sterkar að karlar þurfi að hafa sig alla við til að halda jafnrétti.“

Þessa tilvitnun henti Ingólfur Gíslason á lofti með einfaldri útskiptingu:

„Ég vil ekki að hvíti maðurinn þurfi að upplifa það sem svertingjar þurftu að upplifa áður, að svertingjar séu orðnir það sterkir að hvítir þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti.“

„Ég vil ekki að gagnkynhneigðir þurfi að upplifa það sem hinsegin fólk þurfti að upplifa áður, að hinsegin fólk sé orðið það sterkt að gagnkynhneigðir þurfi að hafa sig alla við til að viðhalda jafnrétti.“

Ef staða mála hérlendis er orðin svo góð að karlmenn þurfi að hafa sig alla við að halda jafnrétti, hefur það sjálfsagt farið fram hjá flestum sem fylgjast með jafnréttismálum og nægir þar að nefna launamál. Auðvitað væri gott að hafa einhverja vogarskál sem mælir jafnréttið og lætur vita þegar hinu gullna jafnvægi er náð. En því er víst ekki að heilsa. Þangað til verðum við sammála um að „mikilvægt sé að karlar og konur standi jafnfætis í þjóðfélaginu“. 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.