Loftkastalinn sem bráðum springur

Höfundur: Kári Emil Helgason

patriarchy-sucksFeðraveldið byggir á ákveðnum þröngt skilgreindum staðalímyndum um svokallaða „karlmennsku“ sem stofnunin hampar sem mikilvægum og æskilegum. Helstu fórnarlömb feðraveldisins eru auðvitað konur, þar sem allar konur eru samkvæmt skilgreiningu að einhverju leyti kvenlegar. En ramminn um karlmennsku er svo þröngur að ekki einu sinni allir karlmenn rúmast í honum. Það er hinni karlmannlegu valdastétt í hag að takmarka fjölda þeirra sem keppa um þeirra stöðu í samfélaginu.

Þannig eru hommar og tvíkynhneigðir menn útskúfaðir úr kastala karlmennskunnar sem og allir þeir sem á einhvern hátt hegða sér öðruvísi en hinn þröngi rammi gerir ráð fyrir. Til dæmis þykja útlenskir karlar iðulega „hommalegir“: Íslendingar segja að Suður-Evrópubúar séu „hommalegir“, Spánverjar kalla Suður-Ameríkana „maricones“ og Ameríkanar tala um Evrópubúa sem „kinda gay“. Hegðunarstaðlarnir eru örlítið breytilegir milli þjóða og menning okkar hefur vírað okkur til að vera fullkomlega meðvituð um þessi litlu frávik frá hegðunarstöðlum karlmennskunnar og ómeðvitað hættir okkur til að setja karla á eins konar karlmennskumælistiku í höfðinu.

Ég held að við séum aldrei jafnmeðvituð um „kvenleika“ kvenna, enda er kvenleiki held ég mun stærra hugtak. Karlmennska er hugsuð fyrir litla elítu karlmanna, hún er frávik fyrir hina útvöldu. Af einhverjum ástæðum getur það sem telst kvenlegt stækkað en það sem telst karlmannlegt er síður til þess fallið. Trjádrumburinn dynur á dyrum kastalans og hinu og þessu er hnuplað af sótsvörtum kvenlegum almúganum. Þannig eru buxur löngu hættar að vera einkaflík karlmanna, sem og hnepptar skyrtur með kraga og meira að segja krúna karlmennskunnar, bindið, hefur verið meðtekin sem kvenleg flík. Í ensku verða karlmannsnöfn oft að kvenmannsnöfnum: Taylor, Courtney, Casey og Leslie eru dæmi. Hið gagnstæða er ekki jafnalgengt. Fólk skírir strákana sína ekki stelpunöfnum, því það er ekki gott að vera stelpulegur strákur.

Nei, það er hreint ekki gott að vera stelpulegur strákur. Ég var lagður í einelti í tíu ár fyrir að vera stelpulegur strákur. Ég spilaði The Sims. Alvöru strákar spiluðu Counter Strike. Ég átti marglita skólatösku. Alvöru strákar áttu svartar. Minnstu smáatriði skiptu máli: Ég klæddist aðsniðnum fötum úr þunnri bómull. Alvöru strákar voru í of stórum peysum úr þykkri yrjóttri bómull. Ég valdi leiklist. Alvöru strákar voru í íþróttafræði. Ég æfði sund. Alvöru strákar æfðu körfubolta. Þegar ég burstaði hina strákana í sundi var gert lítið úr því og það var hlegið að mér. Þegar ég fór loksins að geta hnuplað karlmennskustigum sem ekki var hægt að gera lítið úr svo auðveldlega: þegar ég vann í hlaupakeppnum eða armbeygjukeppnum eða þegar ég fór í málmsmíði, fóru þeir í keng.

Ég ógnaði feðraveldinu í skólanum mínum. Eineltið versnaði. Þeir lömdu mig reglulega og siguðu stelpum á mig til að káfa á mér til að athuga hvort ég fengi standpínu. Það var pissað á mig í sturtuklefanum eftir íþróttir, strákarnir „kokkslöppuðu“ mig og héldu mér niðri og gáfu mér sogbletti. Þótt ég væri ennþá háróma, lágvaxinn og lélegur í boltaíþróttum, vissu þeir að það gengi yfir, svo þeir þurftu að niðurlægja mig til að halda mér á mottunni. Ég valdi að fara í menntaskóla eins langt í burtu frá grunnskólanum mínum og mögulegt væri og ég get enn ekki hugsað mér að vera Facebook-vinur flestra samnemenda minna úr grunnskóla. Lái mér það hver sem vill.

Ég sem meðlimur hins kvenlega almúga gekk á loftkastala karlmennskunnar með lítilli fyrirhöfn. Hetjurnar okkar, „öfgafemínistarnir“, mæta með saumnálarnar og prjónana og stinga göt á hann á hverjum degi. Við höfum komist að því að það þarf enga trjádrumba til að fella feðraveldið. Nokkur skitin skjáskot á Facebook og það hriktir hreinlega í stoðum jarðar. Sem betur fer kunna smákóngarnir í loftkastalanum ekki að stoppa í götin, þeir hötuðu hannyrðir! Vegna þess hvað karlmennska er bæði takmörkuð og takmarkandi, af því hversu íhaldsöm hún er og ómeðfærileg, vegna þess að karlmennsku skortir allt hugmyndaflug til nýsköpunar (listrænir karlar tilheyra ekki elítu feðraveldisins), þá mun allt loftið á endanum verða tæmt úr þessari stofnun. Því feðraveldið hatar ekki bara konur, heldur líka karla. Það pissar á seinþroska stráka í sturtuklefum. Það sendir skæruliðasveitir á eftir Miðausturlenskum hommum til að líma saman á þeim endaþarminn. Það hrekur ótal unga menn á ári til sjálfsmorðs. Það er svo hrætt um áframhaldandi tilvist sína að það eltir núna uppi unglingsstráka í Írak sem fylgja hinni svokölluðu emó-tísku og grýtir þá til dauða. Allt hið bitastæða sem feðraveldinu tilheyrir verður á endanum aðgengilegt hinum kvenlega almúga. Feðraveldið er deyjandi og best væri ef fólk segði upp þátttöku sem fyrst til að verða ekki undir þegar veggirnir hrynja.

Þegar veggirnir hafa hrunið getum við loksins losað okkur við hugtökin karlmannlegt og kvenlegt og bara verið við sjálf.

Batnandi mönnum er best að lifa. Ég fyrirgef ykkur, strákar.

Heimildir: New York Times og IGLHRC.

Ein athugasemd við “Loftkastalinn sem bráðum springur

  1. Bakvísun: Skuldafangelsi karlmennskunnar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.