![]() |
Af sandrine70.wordpress.com |
Ég er femínisti af því ég lærði mannfræði í háskólanum á sínum tíma, en sú grein kenndi mér að skoða heiminn með öðrum augum en gengur og gerist. Að sjá út fyrir normið og efast og spyrja af hverju er þetta svona en ekki hinsegin? Spurningunni af hverju konur eru almennt taldar óæðri og af hverju við þurfum að berjast, þarf að halda á lofti. Svarið við kvenréttindum er nefnilega fólgið í efanum um að allt sé eins og það á að vera. Ég geri mér grein fyrir því að óæðri er sterkt orð, en ég fann ekkert annað betra þar sem ójafnréttið er enn við lýði. Vissulega eru íslenskar konur komnar framar í réttindamálum en margar kynsystur þeirra í minna þróuðum löndum og nýlega las ég að niðurstöður viðamikillar könnunar settu Ísland í efsta sæti þar sem best er fyrir konur að búa. En við skulum samt ekki gleyma því að takmarkinu hér er ekki náð. Það sést best í launamisréttinu.
Sumir tala neikvætt um hugtakið femínisma og vísa til „öfga“, en þótt ég teljist líklega seint til öfgafemínista (á þó erfitt með að skilgreina það þar sem í mínum huga hlýtur femínismi alltaf að vera jákvæður) þar sem ég hef hingað til aðeins verið virk í hjarta mínu og hvorki gengið með skilaboð á skilti né skrifað í blöðin þá virði ég slíka persónuleika. Fyrir að þora, fyrir að gera, fyrir að berjast. Því þetta er ennþá barátta og það sem við þurfum síst er að gagnrýna femínískar aðgerðir. Að boða nýja hugsun og hugmyndir tekur tíma og krefst oft „öfga“ eða róttækra hugmynda og aðgerða, það er alltaf þannig með nýja heimssýn og þegar samfélagsnormið er brotið. Svokallaðir „öfgafemínistar“ eru í mínum huga sterkir einstaklingar sem vilja bara það sama og við: Jafnrétti. En þeir fara oft nýjar eða róttækar leiðir. Ég verð að virða þá fyrir það. Ef hugtakið femínismi er orðið neikvætt hlaðið fyrir einhverja þarna úti þá langar mig bara að segja að þetta snýst um hugsanagang en ekki orðið sjálft. Við getum eins talað um kynjafræði, kvenréttindi eða jafnrétti. Þetta snýst um að breyta vestræna karllæga norminu og breyta hugsanagangi, hjá körlum og konum líka. Að lyfta þessu ósýnilega þaki og greiða götuna saman. Þá einn daginn verður hugtakið jafnvel óþarft.