Af hverju er ég femínisti?

Höfundur: Erla Sigurlaug Sigurðardóttir

Ég áttaði mig kannski ekki á því að ég væri femínisti fyrr en nokkuð nýlega.

Ég er femínisti, ekki bara af því ég er kona (ég held það komi samt ekki sjálfkrafa út af því ) heldur af því ég er af þeirri gerð að vilja almennt berjast fyrir betri heimi. Mér finnst réttlætið mikilvægt og tek þátt með ýmsum leiðum í því að bæði styrkja og vinna með góð málefni. Til dæmis eru mannréttindi úti í hinum stóra heimi mér hugleikin og ég hef áhuga á réttindum barna um allan heim. Ég vil sjá börn geta leikið sér áhyggjulaus í sakleysi sínu og notið þess að vera börn. Nú, og svo brennur greinilega í mér þessi kvenréttindakona, þessi femínisti sem vill að alla konur fái notið jafnra tækifæra og karlmenn í hvívetna.
Af sandrine70.wordpress.com

Ég er femínisti af því ég lærði mannfræði í háskólanum á sínum tíma, en sú grein kenndi mér að skoða heiminn með öðrum augum en gengur og gerist. Að sjá út fyrir normið og efast og spyrja af hverju er þetta svona en ekki hinsegin? Spurningunni af hverju konur eru almennt taldar óæðri og af hverju við þurfum að berjast, þarf að halda á lofti. Svarið við kvenréttindum er nefnilega fólgið í efanum um að allt sé eins og það á að vera. Ég geri mér grein fyrir því að óæðri er sterkt orð, en ég fann ekkert annað betra þar sem ójafnréttið er enn við lýði. Vissulega eru íslenskar konur komnar framar í réttindamálum en margar kynsystur þeirra í minna þróuðum löndum og nýlega las ég að niðurstöður viðamikillar könnunar settu Ísland í efsta sæti þar sem best er fyrir konur að búa. En við skulum samt ekki gleyma því að takmarkinu hér er ekki náð. Það sést best í launamisréttinu.

Ég er femínisti af því ég trúi á breytingar og ég trúi því að þær hefjist með breyttum hugsanagangi. Ég vil kenna sem flestum að sjá heiminn með og út frá augum kvenna. Sjá glerþakið og sjá ó/meðvitaða umtalið. Sexismi í tungumáli er eitthvað sem ég hef spáð í og trúi að viðhaldi fordómum og mismun og ég reyni að vera meðvituð um það þegar ég tala. Það getur þó oft verið erfitt þar sem við ölumst upp við rótgróið hugsanakerfi sem getur tekið á að mæta.
Sumir tala neikvætt um hugtakið femínisma og vísa til „öfga“, en þótt ég teljist líklega seint til öfgafemínista  (á þó erfitt með að skilgreina það þar sem í mínum huga hlýtur femínismi alltaf að vera jákvæður) þar sem ég hef hingað til aðeins verið virk í hjarta mínu og hvorki gengið með skilaboð á skilti né skrifað í blöðin þá virði ég slíka persónuleika. Fyrir að þora, fyrir að gera, fyrir að berjast. Því þetta er ennþá barátta og það sem við þurfum síst er að gagnrýna femínískar aðgerðir. Að boða nýja hugsun og hugmyndir tekur tíma og krefst oft „öfga“ eða róttækra hugmynda og aðgerða, það er alltaf þannig með nýja heimssýn og þegar samfélagsnormið er brotið. Svokallaðir „öfgafemínistar“ eru í mínum huga sterkir einstaklingar sem vilja bara það sama og við: Jafnrétti. En þeir fara oft nýjar eða róttækar leiðir. Ég verð að virða þá fyrir það. Ef hugtakið femínismi er orðið neikvætt hlaðið fyrir einhverja þarna úti þá langar mig bara að segja að þetta snýst um hugsanagang en ekki orðið sjálft. Við getum eins talað um kynjafræði, kvenréttindi eða jafnrétti. Þetta snýst um að breyta vestræna karllæga norminu og breyta hugsanagangi, hjá körlum og konum líka. Að lyfta þessu ósýnilega þaki og greiða götuna saman. Þá einn daginn verður hugtakið jafnvel óþarft.
Ég er femínisti af því ég er foreldri. Femínistinn ég hef hugsað um hvað ég geti gert til að hafa áhrif. Mín niðurstaða er helst sú að við verðum að uppfræða og kenna, með því að skapa umræðu og tala saman. Sjálf tala ég oft um hin ýmsu lífsins mál við 7 ára dóttur mína, femínísk og ekki, án þess þó að prédika eða troða ofan í hana skoðunum, heldur meira til að fá hana til að hugsa og velta hlutum fyrir sér. Það þarf að byrja í leikskóla að kenna jafnrétti af heilum hug með kerfisbundnum hætti og fylgja svo eftir restina af skólagöngunni en líka einfaldlega tala við börnin okkar með þessum hætti og við fólk í kringum okkur, skapa umræður.
Dóttir mín er að fara á diskó í skólanum sínum í kvöld. Í morgun varð mér á að spyrja hana hvort hún hlakkaði ekki til að vera „diskódrottning“. Hún hneykslaðist á mér og sagði: Æi mamma, ég fíla sko ekki prinsessur eða drottningar, ég ætla að vera diskóstjarna.

Svo mun ungur sonur minn læra af okkur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.