Um sönnunarbyrði og sönnunarmat.

Höfundur: Rún Knútsdóttir.

Í umræðunni um kynferðisbrot undanfarið hefur verið talsvert mikið talað um sönnunarbyrði í sakamálum og hvar hún eigi að liggja.

Hér virðist fólk oftar en ekki rugla aðeins saman hugtökunum sönnunarbyrði, sönnun og sönnunarmat. Verður því aðeins tæpt á muninum á þessum hugtökum og sett í samhengi við þá umræðu sem hefur skapast um fyrirliggjandi frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum. Þessari grein er ekki ætlað að vera lögfræðileg grein, heldur aðeins til upplýsingar og útskýringar.

Um sönnun


Reglur um sönnunarbyrði snúast um það hver beri hallann af því að tiltekin staðhæfing sé ósönnuð. Almenna reglan er sú að sá sem heldur fram tiltekinni staðhæfingu fyrir dómstólum, kærunefnd eða annarsstaðar og krefst einhvers á grundvelli hennar, skal styðja hana gögnum til þess að krafa viðkomandi á grundvelli hennar verði tekin til greina. Í einstaka tilfellum er sönnunarbyrðinni snúið við að einhverju leyti, svo sem í málum sem varða kynbundinn launamun á vinnustöðum. Ef einstaklingur hefur þar sýnt fram á að hann sé með lægri laun en annar af gagnstæðu kyni og að augljósir þættir eins og menntun, reynsla og ábyrgð útskýri ekki launamuninn, er það lagt á vinnuveitandann að sýna fram á að munurinn byggist á málefnalegum sjónarmiðum en ekki á kynferði viðkomandi.

Öll dæmi sem höfundi er kunnugt um þar sem sönnunarbyrði er snúið við eiga það sammerkt að sönnunarbyrðin er ekki lögð á gagnaðila fyrr en sá sem heldur staðhæfingunni fram hefur að minnsta kosti gert það líklegt að staðhæfing hans sé sönn, þ.e. stutt hana einhverjum gögnum. Þá er þeim einnig sameiginlegt að ástæður þess að sönnunarbyrðinni er snúið við er það mat löggjafans að það sé auðveldara fyrir gagnaðila að sanna að staðhæfing sóknaraðila sé röng. Í dæminu sem nefnt var hér að ofan um launamuninn er það t.d. auðveldara fyrir vinnuveitanda að sýna fram á hvaða málefnalegu rök eru á bak við launamun heldur en fyrir starfsmanninn enda er það vinnuveitandinn sem tekur ákvörðunina um hver laun starfsmanns skuli vera. Erfitt væri fyrir starfsmanninn að sanna svo óyggjandi sé hvaða sjónarmið lágu til grundvallar þegar vinnuveitandi tekur ákvörðun um laun hans. Því er sönnunarstaða hans mjög erfið ef sönnunarbyrðinni væri ekki snúið við í þessum tilvikum.

Sönnunarmat er svo það hvernig dómari eða annað úrskurðarvald leggur mat á þau sönnunargögn sem lögð eru fram til stuðnings tiltekinni staðhæfingu. Þau geta verið ýmis konar og hafa mismikið vægi auk þess sem einstakir dómarar geta metið sönnunargögn með mismunandi hætti.

Um sönnun í sakamálum er fjallað í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. Er þar í 3. þætti fjallað um sönnun og sönnunargögn. Í upphafi XVI. kafla, sem ber heitið Almennar reglur um sönnun, er að finna eftifarandi greinar:

108. gr. Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu.
109. gr. Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
Dómari metur það enn fremur ef þörf krefur hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.
Ekki þarf að sanna það sem er alkunnugt á þeim stað og tíma sem dómur eða úrskurður gengur.

Í 108. gr. er að finna ákvæði sem tekur af allan vafa um hvar sönnunarbyrðin liggur í sakamálum, þ.e. hjá ákæruvaldinu. Í sakamálum getur sönnunarbyrðin þar af leiðandi aldrei legið á sakborningi. Í 109. gr. er svo kveðið á um að sönnunarmat dómara, sem er að meginstefnu frjálst; en þar kemur fram að hann skuli meta í hverju tilviki hvort hann telji að staðhæfing hafi verið studd nægjanlega sannfærandi gögnum og eru þau gögn sem heimilt er að leggja fram talin upp í greininni. Vægi þessara sönnunargagna getur verið mismunandi innbyrðis og hefur almennt verið litið svo á að sýnileg sönnunargögn og skjöl hafi mest gildi en skýrslur aðilanna sjálfra minna gildi, en vægi sönnunargagna getur verið mismunandi eftir málum.

Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum

Nú liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem lögð er til breyting á nauðgunarákvæði hegningarlaganna þannig að dregið verður úr þætti ofbeldis eða hótun á því í verknaðarlýsingu ákvæðisins. Reyndar er það mat höfundar að með breytingunni verði verknaðarlýsingin svo óskýr að erfitt verði að beita ákvæðinu í framkvæmd en það er önnur umræða. Ummæli í greinargerð hafa valdið talsverðum umræðum þar sem því hefur verið fleygt að verið sé að snúa við sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Það er alrangt.

Hér er um ummæli í greinargerð að ræða sem ekki geta ein og sér breytt gildandi lögum og þaðan af síður öðrum lögum en frumvarpinu er ætlað að breyta. Reglan um sönnunarbyrði í sakamálum byggir á mun eldri og víðtækari meginreglu um að einstaklingur teljist saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð með gögnum svo hafið verði yfir skynsamlegan vafa. Sú regla á rætur sínar að rekja aftur til forneskju en eftir því sem ég best veit er hana m.a. að finna í fyrstu lögbókum Gyðinga sem eru um tæplega 2000 ára gamlar. Hún hefur svo fundið sér stað í réttarskipan flestra ríkja í heiminum á einn eða annan hátt. Því tel ég nokkuð ljóst að það þurfi talsvert meira til heldur en ein ummæli í greinargerð til þess að breyta þessari rótgrónu reglu.

Greinargerðir hafa vissulega ákveðið gildi þegar skýra ber gildandi lög. Góðar greinargerðir geta veitt mikilvægar vísbendingar um hvernig löggjafinn hafði hugsað sér tiltekið lagaákvæði, t.d. samspil þess við önnur ákvæði, hvort það skuli túlkað rúmt eða þröngt o.s.frv. Ummæli þessi sýnast mér fyrst og fremst geta haft áhrif á sönnunarmat dómara, þ.e. hvernig hann metur innbyrðis vægi sönnunargagna í slíkum málum en samkvæmt þeim virðist matsskýrslum sálfræðinga veitt aukið vægi við að styðja við fullyrðingu meints brotaþola. Ummæli í greinargerð geta þó ekki afnumið regluna um frjálst sönnunarmat dómara. Ef löggjafinn ætlar að afnema rétt dómara til að meta sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig hvenær nægjanleg sönnun er fram komin þarf slíkt að koma fram ótvírætt í lagatexta. Fjölmörg dæmi eru til þar sem dómstólar horfa fram hjá mjög skýru orðalagi í greinargerð ef þau stangast á við það sem stendur í lögum, enda lög æðri greinargerðum.

Því telur undirrituð að meðan 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála standa óbreyttar breyta þessu umdeildu ummæli í greinargerð í engu gildandi reglum um sönnunarbyrði og sönnunarmat, en gætu mögulega veitt sérfræðiskýrslum meira vægi í því heilstæða mati sem dómari leggur á framkomin sönnunargögn þegar hann metur hvort sönnur hafi verið færðar á sekt viðkomandi.

Höfundur er lögfræðingur

Ein athugasemd við “Um sönnunarbyrði og sönnunarmat.

  1. Bakvísun: Skuggarnir leysast ekki lengur upp | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.