Af meintu sakleysi grínsins

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Vinkona mín á unglingsstelpu. Hún er 15 ára og var komin á fast en svo gekk það ekki upp, þau hættu saman. Skömmu síðar sér móðir stúlkunnar að á facebook-vegg vinkonu dótturinnar er búið að setja mynd af dótturinni ásamt beiðni um tilboð, þar sem hún sé nú á lausu. Þetta fannst móðurinni frekar óþægilegt. Fyrst komu einhver tilboð upp á þúsundkalla hér og fimmþúsundkalla þar, voða fyndið eða þannig, en athugasemd frá fyrrverandi kærastanum sem hróðugur sagðist nú bara hafa fengið hana ókeypis, reyndist dropinn sem fyllti mælinn í huga vinkonu minnar.

Eins og svo oft hendir mann í lífinu, var vinkona mín ekki alveg viss um það hvort þetta væri í raun jafn ógeðfellt og óásættanlegt og henni fannst það vera. Hún ákvað að hringja í mig, því ég er femínistavinkonan sem alltaf er hægt að spyrja um svona hluti. Ég fullvissaði hana um að vanlíðan og áhyggjur væru fullkomlega eðlileg viðbrögð við þessum skrifum drengsins og reyndar stelpunnar líka, þeirrar sem setti upp auglýsingu eftir tilboðum. Því þó að þetta væri kannski „bara djók“ í þeirra huga, hafa brandarar áhrif og fyllsta ástæða til að gera krökkunum grein fyrir því að grín sem varðar vændi sé hvorki saklaust né fyndið. Þau fóru þarna út á mjög hálan ís og voru komin yfir velsæmismörk í þessum leik sínum. Ef hún gerði ekkert í því væri hún að samþykkja þessa hegðun.

Móðirin var fegin að fá staðfestingu á því sem hún í raun og veru vissi alveg. Hún skrifaði athugasemd og lýsti því yfir að henni þætti þetta mjög óþægilegt og bað drenginn um að strika athugasemd sína út. Hann varð við þeirri bón. Hún talaði líka við námsráðgjafann í skólanum þeirra, sem sagðist myndu hafa þetta bakvið eyrað, en sú kona kennir bekknum Lífsleikni og er mjög vinsæll kennari. Vinkona mín er þó ekki viss um að málið hafi verið tekið upp í tíma og hefur ekkert fylgt því eftir, en kennarinn sagði að þau rædddu mikið um „svona hluti“ í skólanum.
En hvað eru börn og unglingar að gera á netinu annað en að skrifast sín á milli á facebook? Nú ætla ég að miða bara við sjálfa mig, en strax upp úr tíu ára fór ég að lúslesa dagblöðin sem mamma og pabbi voru áskrifendur að. Ég las alls konar fréttir og greinar, skildi sumt ekki alveg en mér fannst samt spennandi að skyggnast inn í heim hinna fullorðnu. Ég get ekki ímyndað mér annað en að fullt, fullt af krökkum liggi yfir fréttum á vefmiðlunum. Og þegar ég hugsa til þess hvað þau geta lesið þar í athugasemdum, þá er ekki laust við að um mig fari nettur hrollur. Sjálf reyni ég eftir fremsta megni að forðast þessa athugasemdahala því í hvert skipti sem mér verður það á að lesa þá, líður mér eins og ég hafi dottið ofan í kamarholu.

Stutt er síðan ein hlið viðurstyggðarinnar var afhjúpuð af Hildi Lilliendahl en ég efast um að þessi athugasemdakerfi batni mikið við þann góða gjörning. Persónulega finnst mér algerlega kominn tími til að ritstjórar stóru fjölmiðlanna herði sig í að eyða óviðeigandi athugasemdum. Blaðamenn og ritstjórar bera ábyrgð á því að láta það óátalið að veikir einstaklingar fá að vaða uppi með alls konar ósóma sem nokkuð ljóst er að börn munu lesa. Þeir geta reynt fram í rauðan dauðann að afneita þessari ábyrgð, ég hlusta ekki á það, það er löngu kominn tími til að blaðamenn og ritstjórar geri sér grein fyrir því að jú, víst ráða þeir hvað stendur í fjölmiðlum, um hvað er fjallað og á hvaða hátt er fjallað um það. Athugasemdakerfin við fréttir eru hluti af fjölmiðlasíðunum og þeim ber að axla ábyrgð á því sem gerist þar. Og ég vona innilega að þessir hlutir séu einnig ræddir í skólanum, það er full ástæða til að ræða kurteisisvenjur í opnum umræðuhölum í tímum í Lífsleikni.
Ég heyri kennara og aðra sem starfa með börnum oft halda því fram að stærstan hluta hegðunarvandamála megi rekja beint til vanrækslu og/eða áhugaleysis foreldranna. Ekki endilega vegna þess að foreldrar elski ekki börnin sín, ekki að við séum ekki öll af vilja gerð. Það er bara svo mikið að gera, við erum í vinnu, skrifum blogg, rekum heimili, sjáum um þvottinn (og allir í íþróttum!) og þegar við gefum okkur tíma til að vafra um netið, eiga samskipti við vini okkar á facebook rekumst við á eitthvað frá krökkunum sem fer í taugarnar á okkur en það hittir bara of illa á: „Æh, djöh. Ég verð að muna að ræða þetta við þau. Bara ekki núna. Á morgun. Eða hinn.“ Furðulega erfitt getur svo verið að finna rétta tímann og réttu aðstæðurnar til að ræða þessi mál í rólegheitum.
Margt hefur breyst ótrúlega hratt í umhverfi barnanna og samskiptum þeirra við aðra. Ég tel ekki endilega að krakkar séu almennt kræfari en við vorum á sínum tíma. Það var ýmislegt miður fallegt látið falla milli okkar, og eflaust margt grafið og gleymt af þeirri einföldu ástæðu að mann langar ekki að muna það. En munurinn felst í því að við létum þessa hluti falla í smáum hópum, okkar á milli, munnlega. Facebook og aðrir samskiptavefir eru allt öðruvísi því þar er verið að grínast skriflega, það sem sagt er verður bæði varanlegra og mörgum sýnilegt.

Það er ekki auðvelt fyrir unglinga að finna mörkin milli þess að grínast og þess að verða dóni. Við fullorðna fólkið eigum iðulega fullt í fangi með það, hvernig eiga þá óharðnaðir krakkar, sem þrá svo mikið að vera orðin stór, en eru oft svo hrikalega barnaleg og óreynd, að ráða við það? Fjölmiðlar, netmiðlar, sjónvarpsþættir og kvikmyndir, þenja þessi mörk iðulega til allra átta, ýmist í skjóli þess að um listsköpun sé að ræða eða af hreinræktaðri græðgi, því alkunna er að það sem hneykslar, það selur. Allt virðist vera til sölu, að fárast yfir því er nánast guðlast, í það minnsta tepruskapur og púrítanismi.
Lausnin felst alls ekki í því að banna börnum aðgengi að netinu eða að horfa á sjónvarp. En í hvert skipti sem við sjáum þau hegða sér þannig að okkur ofbýður ber okkur fullorðna fólkinu siðferðisleg skylda til að segja eitthvað í staðinn fyrir að hrista bara hausinn og bakka út af síðunni þeirra. Við verðum að skýra fyrir þeim nákvæmlega hvað það er sem truflar okkur og hvers vegna. Það er ekkert auðvelt. Stundum vitum við ekki einu sinni sjálf hvort við erum að fara offari. Vera teprur. Vera orðin gamla kynslóðin sem býsnast stöðugt yfir þeirri ungu. En það er engin afsökun. Við megum og við eigum að skipta okkur af börnunum okkar.
Það vill enginn ganga um með teprustimpilinn á sér. Eða hvað? Fyrrnefnd vinkona mín er orðin alræmd meðal foreldra vinkvenna dóttur sinnar, sem deila ekki afstöðu hennar varðandi útivistartíma og fleira. Hún hefur samt tekið meðvitaða ákvörðun um að standa fast á sínu og það sem meira er, hún finnur það reglulega að dóttir hennar er henni þakklát. Alveg í laumi og eingöngu þeirra á milli, en samt, fimmtán ára barnið skilur staðfestu móður sinnar, þó hún sé ekki alltaf sátt við að þurfa að sitja heima þegar það er partý.
Foreldrar bera ábyrgð á því að fylgjast með því hvað börnin lesa, hlusta á og horfa á, þeir geta haft mikil áhrif á það hvernig þau vinna úr þessu efni, hjálpað þeim við að koma hugsunum í réttan farveg, kennt þeim að vera gagnrýnin að átta sig á því að það sem stendur skrifað sé síður en svo einhver heilagur sannleikur.

Þetta er tímafrekt en það er nú einu sinni svo að barneignir er ákvörðun sem skyldi tekin með það fyrir augum að þú gengur inn í lífstíðarhlutverk. Í átján ár ert þú fullorðni einstaklingurinn sem berð fulla ábyrgð á barninu. Þetta stendur í lögum og þarfnast vart frekari rökstuðnings.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.