Konur friðhelgar í Svíþjóð

Höfundur: Drífa Snædal

Mynd: Wikimedia Commons

Friðhelgi kvenna var lögfest í almennum hegningarlögum í Svíþjóð árið 1998, þ.e. brot á friðhelgi eða kvenhelgi (kvinnofrid) voru gerð refsiverð, til viðbótar refsiverðri háttsemi eins og líkamsárás og nauðgun. Með lögfestingu kvenhelgi var gerð tilraun til að koma lögum yfir menn sem beita konur stöðugri áreitni, svona tilvik sem fara venjulega ekki fyrir dóm ein og sér, en safnast þegar saman kemur og þegar hægt er að tala um mynstur áreitni og ofbeldis er mögulegt að dæma viðkomandi til refsingar. Eins og oft áður sýna Svíar með þessu snilldartakta í löggjöf sem ætlað er að vinna gegn feðraveldinu en þeir voru, eins og þekkt er, fyrstir til að gera kaup á vændi refsiverð.

Þegar konur eru beittar ofbeldi er oft erfitt að festa hendur á einstaka tilvikum. Eftir að hafa unnið í Kvennaathvarfinu situr í mér þetta valdaleysi sem konur upplifa sem verða fyrir stöðugri áreitni og það óöryggi sem þær finna fyrir þegar hvenær sem er má búast við til dæmis fyrrum sambýlismanni á glugganum, andstyggðar SMS-um og símtölum, að skorið sé ítrekað á bíldekkin, mætt í tíma og ótíma í vinnuna til að ógna og svo framvegis. Það sem hægt var að ráðleggja þeim var að halda dagbók yfir öll tilvikin, halda til haga skilaboðum og tölvupóstum og tilkynna til lögreglunnar öll tilvik með hótunum, meiðingum og skemmdum. Þetta óöryggi og stöðuga ógn gat þó varað lengi, jafnvel í mörg ár án þess að nægt tilefni væri til að fara fyrir dómstóla. Á þessu er löggjöf um kvenhelgi ætlað að taka.
Lengi vel var skilyrði fyrir beitingu laganna að viðkomandi hefði verið dæmdur áður fyrir brot gegn konunni, en því var svo breytt eftir hæstaréttardóm árið 2000 og nú nægir að geta sýnt fram á mynstur friðhelgisbrota en alvarleiki þeirra og tíðni ráða dómsniðurstöðunni. Tilgangur laganna var að draga fram í dagsljósið þessi brot gegn konum og ná sakfellingu í fleiri tilvikum þegar ítrekuð áreitni hefur áhrif á sjálfsmat konunnar. Miðað er við að gerandinn sé náinn konunni, þ.e. að þau hafi búið saman eða að um sé að ræða annan nákominn ættingja. Þessi tilgangur hefur náðst, samkvæmt nýrri úttekt, og dómarar nýta sér þennan lagabálk í auknum mæli.
Á Íslandi er rekið Kvennaathvarf þar sem ásóknin er nokkuð stöðug og reglulega berast okkur fréttir af ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Því er fullt tilefni til að skoða þessa löggjöf Svía og þá úttekt sem þeir hafa gert á áhrifum laganna og meta hvort og hvernig við getum nýtt þá reynslu. Ég veit fyrir víst að frumvarp í þessa veru var í smíðum á vegum Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir nokkrum árum síðan. Spurningin er, hvaða fulltrúi á Alþingi er tilbúinn til að grípa boltann og styrkja réttarstöðu kvenna sem verða fyrir ofbeldi af hendi nákomins karlmanns?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.