Þið eigið ekki börnin einar

Höfundur: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Femínistum er gjarnan legið á hálsi fyrir að berjast ekki fyrir réttindum forsjárlausra feðra. Um daginn tók ég þátt í einhverri umræðu þar sem karli einum þótti heldur lítið til mín koma. Hann skammaði mig föðurlega fyrir skeytingarleysi mitt í garð karla sem beittir eru misrétti. Hann sagði meira að segja að femínistar stæðu í vegi fyrir því að feður fengju að taka þátt í uppeldi barna sinna. Nánar tiltekið sagði hann: „það sem gerir stöðu femínista grátlega, er að þær standa ekki undir nafni. Ef þeir „ætla að gera eitthvað“ í ójafnréttindu og standa undir nafni sem jafnréttissinnar myndu þær taka þátt í baráttunni fyrir foreldrajafnrétti í stað þess að berjast á móti því. Staða femínista myndi snöggbreytast ef þær gerðu það. Þá væri málflutningur þeirra miklu trúverðugri. Þú skalt ekki gleyma að kvenréttindi urðu til ekki síst fyrir þáttöku íslenskra karlmanna í jafnréttisbaráttunni.“

Þetta og svörin sem fylgdu í kjölfarið má kynna sér nánar í opnum umræðuþræði á Facebooksíðu Evu Hauksdóttur.

Þegar ég benti honum á að ég hefði sannarlega látið mig réttindi forsjárlausra feðra og feðra yfirhöfuð varða í gegnum tíðina varð hann skyndilega mjög mjúkur og síðar skoraði hann á mig að skrifa grein um foreldrajafnrétti, þannig myndi ég gera mínum eigin trúverðugleika mikinn greiða. Ég get svarað því hér að ég ætla ekki að skrifa slíka grein. Fyrir því eru nokkrar ástæður – að almennri leti undanskilinni:

1. Mér finnst óréttlátt að þess sé alltaf krafist af konum að þær berjist fyrir réttindum karla. Það er ekki rétt hjá manninum hér að ofan að kvenréttindi hafi ekki síst orðið til fyrir þátttöku íslenskra karlmanna í jafnréttisbaráttunni. Þann árangur sem náðst hefur á ég kynsystrum mínum að þakka. Mín barátta sem femínista snýst um að skapa betri heim fyrir alla. Hún snýst ekki um að gera konum auðveldara að verða einræðisherrar eða að beita ofbeldi, hún snýst um að skapa jarðveg þar sem möguleikar kynjanna eru jafnir í raun. Ekki bara á pappír.

2. Ég trúi því að karlar geti knúið fram breytingar í öllum þeim málaflokkum sem þeir vilja. Réttindum fylgir hinsvegar auðvitað ábyrgð og skyldur sem þeir þurfa að kæra sig um líka. Það að ekki hafi náðst meiri árangur en raun ber vitni hvað varðar jafnrétti milli foreldra, vekur upp spurninguna; hvers vegna hafa karlar ekki tekið þennan slag með látum? Hvers vegna hafa þeir ekki sótt þessi völd? Ég trúi því staðfastlega að þeir gætu það ef þeir vildu og á meðan þeir reyna ekki verður erfitt að hrekja þá fullyrðingu mína.

3. Ég er þreytt á að hlusta á að ég eigi ekki að berjast gegn misrétti A á meðan misrétti B viðgengst. Mér finnst yfirlætisfullt að mér sé sagt að ég þurfi að berjast á fleiri vígstöðvum og taka upp málstað fleira fólks til þess að verða trúverðug.

Ég ætla semsagt ekki að skrifa grein um það hvernig mér finnst halla á feður í íslensku samfélagi. Ég get hinsvegar sagt það að það er einn staður öllum öðrum fremur þar sem ég verð vör við þann halla. Það er spjallborðið á Barnalandi. Þar hafa (mestmegnis) konur komið saman og talað um lífið í ein 10-12 ár. Þar er heill hellingur af femínistum en þar er líka stór hópur kvenna sem hefur aldrei leitt hugann sérstaklega að kvennabaráttu og það er einmitt sá hópur sem virðist standa í þeirri meiningu að mæður séu merkilegri foreldrar en feður.

Ég hef verið virkur notandi á vefnum í sjö ár. Mér er minnisstætt þegar ég var að byrja að fóta mig þarna inni og gerði athugasemd við það að einhver kona í Keflavík auglýsti eftir stelpu til að passa börnin sín. Ég spurði hana hvort hún hefði eitthvað sérstakt á móti strákum og mér var úthúðað ansi hressilega fyrir rembuna. Andrúmsloftið á vefnum hefur blessunarlega breyst heilan helling á þessum sjö árum og nú er svo komið að þegar kona telur sig hafa einhver umframréttindi sem foreldri í skjóli kyns síns er iðulega til staðar hópur af herskáum og meðvituðum, feminískum konum sem vilja leiða hana á rétta braut. Ég hef verið því sem næst óþreytandi í þessi sjö ár að rífast við þessar konur um jafnrétti milli þeirra og barnsfeðranna. Þetta verður ekki sagt of oft: Það eru ekki femínistarnir sem þykir ómerkilegt að vera pabbi. Það eru hinar konurnar.

Þannig að í staðinn fyrir að skrifa grein um foreldrajafnrétti til að auka trúverðugleika minn, þá tók ég saman mynd af ummælum eftir sjálfa mig af Barnalandi frá undanförnum nokkrum árum. Dæmin eru eflaust miklu fleiri, ég hef staðið í þessu rifrildi tíu þúsund sinnum. En þessi fann ég í fljótu bragði og þessar skoðanir hef ég ekki þrátt fyrir að vera femínisti heldur vegna þess að ég er femínisti.

(Ég biðst kvenlega fyrirgefningar á því hvað myndin er herfilega ljót, það krefst mikillar þolinmæði og tíma að gera þetta fallegar í paint með mína mad paint skills. Ég hef ekki slíka þolinmæði. Veit ekki hvernig myndin birtist á litlum tölvuskjám en hún er opnan- og þar með stækkanleg.)

Ein athugasemd við “Þið eigið ekki börnin einar

  1. Bakvísun: Efnistök Kynungabókar – söguskoðun og fjölskyldan | Pistlar Evu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.