Níð og niðurrif

Greinin er eftir leikkonuna Ashley Judd og birtist upphaflega á vefsetrinu Daily Beast. Þýðing: Halla Sverrisdóttir

Sem leikkona og sem kona, sem endrum og sinnum nýtir sér fjölmiðla í starfi sínu, er mér afar ljóst að það á sér stað viðvarandi umræða um kvenlíkamann og að sú umræða snýst af og til um minn eigin líkama. Þetta veit ég, jafnvel þótt ég leggi mig alla jafna fram um að hunsa það sem er skrifað um mig. Ég les til dæmis ekki viðtöl sem ég veiti fréttamiðlum. Ég er á þeirri skoðun að það komi mér í sjálfu sér ekkert við hvað fólki finnst um mig. Ég komst að þessari niðurstöðu eftir að hafa á fyrstu árum mínum sem leikkona, fyrir átján árum síðan, lesið hvert einasta orð sem skrifað var um mig. Smám saman hætti ég að lesa annað en „vönduðu“ greinarnar. Og með tímanum náði ég þeim þroska að geta skilið að jafnt það góða sem það slæma er háð persónulegri túlkun þess sem skrifar og að oftar en ekki er hvort tveggja jafn mikill uppspuni. Mig langar ekki að fela vald mitt, sjálfstraust mitt eða stjórn á lífi mínu í hendur einhverjum einstaklingi, vettvangi eða fyrirbæri, utan við mig sjálfa. Þess vegna forðast ég alla fjölmiðlaumfjöllun um sjálfa mig. Það eina sem skiptir mig máli er mín eigin afstaða til sjálfrar mín, mín persónulegu heilindi og mitt persónulega samband við skapara minn. Auðvitað er dásamlegt að vera mikils metin og elskuð af fjölskyldu, vinum og samfélagi, en andlegt líf mitt byggist að verulegu leyti á því að sleppa takinu á „annarravæðingu“. Og það er hættulegt og sjálfseyðandi að binda trúss sitt við álit almennings og ég met sjálfa mig of mikils til að gera það.
Í nýliðnum marsmánuði birtist þó umfjöllun, Vangaveltur og ásakanir sem vakti hjá mér sterkar tilfinningar og samstarfsfólk mitt og vinir hvöttu mig til að kynna mér það sem þar kom fram. Í kjölfarið ákvað ég að tjá mig um þetta, þar sem orðræðan sem þar fór fram var ákaflega andstyggileg; hún var kynbundin og einkenndist mjög af kvenhatri. Hún var afar lýsandi fyrir það sem allar konur og stúlkur í menningarheimi okkar þurfa, að meira eða minna leyti, að þola á degi hverjum með bæði beinum og óbeinum hætti. Þessi umræða, sem á yfirborðinu snerist um andlitið á mér, er í raun annað og meira; í henni kristallast árásirnar á líkamsmynd okkar, yfirgengileg kynveruvæðing stúlkna og kvenna, sú niðurlægjandi mynd sem er dregin upp af kynverund okkar frá vöggu til grafar og hin almenna og linnulausa hlutgerving samfélagsins á okkur.
Stutt greining á þessari orðræðu leiðir í ljós að á einum og sama deginum (20. mars) voru eftirfarandi „ályktanir“ dregnar um eina konu (mig) og útlit hennar, allar út frá einu og sama myndskeiðinu sem sýnt var í sjónvarpi. Dæmin sem ég tek hér að neðan eru öll raunveruleg og eru fengin af ýmsum (í orði kveðnu) marktækum fréttamiðlum (svo sem Huffington Post, MSNBC og álíka miðlum), en einnig úr slúðurmiðlum og af samskiptasíðum:

1.    Ef ég verð lasin og þarf að taka lyf í rúman mánuð (margfaldan skammt af steralyfjum) er ég sökuð um að hafa „greinilega látið gera eitthvað við mig“ vegna þess að ég er þrútin í framan, og fréttamenn sem njóta alla jafna mikils trausts telja sig með talsverðri fullvissu „sjá greinileg merki um“ allar þær lýtaaðgerðir sem ég á að hafa farið í. 

2.    Ef ég er orðin 43 ára gömul og er enn með nánast lýtalausa húð og ekki enn komin með hrukkur sem sjást á sjónvarpsskjá hef ég „látið gera eitthvað“, en þá fullyrðingu styðja fréttaveitur með því að leita álits hjá lýtalæknum sem ég hef aldrei hitt og sem „álykta“ um þær aðgerðir sem ég hef „augljóslega“ látið framkvæma (athugið að þetta er líka býsna tvíeggjað hrós – fyrst ég lít svona vel út getur það ekki verið í alvöru!). 

3.    Ef andlitið á mér árið 2012 lítur öðru vísi út en það gerði þegar ég lék í kvikmyndinni Double Jeopardy árið 1998 er ég sökuð um að hafa „klúðrað“ á mér andlitinu (þetta er kurteislega útgáfan, mun fleiri nota F-orðið) og menn harma það einlæglega að „Ashley hafi glatað þeirri fegurð sem aðdáendur hennar þekkja og elska.“

4.    Ef ég þyngist og fer úr fatastærðinni 2/4 (34/36) upp í 6/8 (38/40) eftir að hafa verið löt í svona sex mánuði og ekki nennt í ræktina, og ef sú þyngdaraukning verður sýnileg á andliti mínu og handleggjum, er ég „belja“ og „svín“ sem „ætti að passa sig því eiginmaðurinn er þegar farinn að leita að eiginkonu númer tvö“ (Tókuð þið eftir því hvernig þetta elur á ótta og samkeppni á milli kvenna? Og hvernig ýjað er að því að eiginmaður minn meti mig aðeins á grundvelli líkamlegs útlits míns? Dæmigerð kynjamismunun. Ég ætla ekki einu sinni að ræða það hvers vegna það teljist eðlilegt að uppnefna einhvern sem „feitan“ sem notar fatastærð númer 8).

5.    Hér kemur svo náðarhöggið: ef ég er að leika í dramatísku atriði í kvikmyndinni Missing – þar sem söguþráðurinn krefst þess að ég leiki konu sem er í miklu andlegu uppnámi og hefur verið svefnvana og á flótta dögum saman – senda þeir sem sjá myndir af mér inn athugasemdir sem spanna allt sviðið frá „Hvern andsk. hefur hún gert við andlitið á sér?“ niður í varfærnislega Þórðargleði – „Dömur mínar, sjáið bara hverju allar aðgerðirnar hafa skilað henni!“ Myndskeiðin úr Missingeru að sjálfsögðu tekin talsvert fyrir mars s.l. og athugasemdirnar um það hvernig ég leit út þegar ég lék þetta hlutverk eru skýrt dæmi um smitandi og andstyggilegt eðli þessarar samræðu.
Ásakanirnar og lygarnar sem bornar eru á borð fyrir almenning eru nú hermdar upp á mig sem konu, yfir langan tíma og allmikið rými; þær eiga við mig sem hvaða konu sem er og við mig sem allar konur.
Feðraveldið er kerfi karla og kvenna
Það er afar mikilvægt að halda því til haga að konur taka fullan þátt í þessu sífellda niðurrifi á ásýnd minni. Feðraveldið er ekki karlar. Feðraveldið er kerfi sem konur gangast undir rétt eins og karlar. Þetta kerfi setur, meðal annars, hagsmuni karla og drengja ofar líkamlegum heilindum, sjálfsstjórn og sjálfsvirðingu stúlkna og kvenna. Þetta kerfi er undir yfirborðinu, það er lúmskt, og það er illvígast einmitt þegar konur neita því staðfastlega að þær eigi sjálfar nokkurn þátt í að viðhalda því. Þessi afbrigðilega þráhyggja varðandi andlit og líkama kvenna er orðin að svo viðtekinni hegðun að við (og ég undanskil sjálfa mig ekki, því stundum geng ég beint í gildrurnar) höfum gefið okkur feðraveldinu nánast mótþróalaust á vald. Oftast nær tökum við ekki einu sinni eftir því sjálfar þegar við gerumst okkar eigin böðlar, eða þegar við tölum á niðrandi hátt um aðrar stúlkur eða konur.
Gott dæmi um það er að þessi umræða, sem ég vísa til nú, hófst hjá konum; þetta er bæði dapurleg staðreynd og mikið áhyggjuefni (að þessar konur skuli vera góðir kunningjar mínir úr mínu fagi og þekkja vel til bæði persónulegra eiginleika minna og skoðana, finnast mér enn sárari svik).
Fjöldi fréttaveita sem ég á reglulega samstarf við vegna veigamikilla málefna, svo sem þegar ég skrifa greinar um forvarnir geng HIV-veirunni, aðstoð við fátæk börn og unglinga um heim allan eða ámælisverðan námuvinnslu í Lýðveldinu Kongó, birtu þessa „frétt“ án þess að leita staðfestingar hjá almannatenglinum mínum eða auðsýna mér þá virðingu að veita mér færi á að tjá mig um málið. Það er áfellisdómur yfir þessum fjölmiðlum að þeir skuli yfirhöfuð hafa litið á þetta sem prenthæft efni og að þeir skuli líka, án þess að beita gamalreyndum og hefðbundnum vinnureglum blaðamanna, njóta þess svo mjög að birta efni sem er jafn kvenfjandsamlegt, aldursfjandsamlegt og einfaldlega andstyggilegt og þetta.
Þessi hlakkandi fyrirlitning…
Ég vona að með því að gera hugrenningar mínar opinberar geti orðið til ný samræða: Af hverju varð þroti í andliti yfirhöfuð að umræðuefni? Hvernig, og hvers vegna, tók fólk þátt í þessari umræðu? Ef ekki umræðunni um mig, þá umræðu um aðrar konur, í sínu nánasta umhverfi? Hvaðan kemur þessi hlakkandi fyrirlitning? Hvað er verið að fordæma? Hvaðan kemur fjölmiðlum þetta sjálfumglaða viðhorf þess sem í orði kveðnu „veit betur”? Á hvern hátt er þessi umræða táknmynd þeirra hlekkja sem stúlkur og konur bera og hvernig brýtur hún á rétti okkar til að vera einfaldlega eins og við erum, á hverjum tíma? Hvernig getum við, sem einstaklingar, breytt daglegri hegðun okkar á þann hátt að við getum látið af þeim ósjálfráðu viðbrögðum, inngrónum- fordómum og þráláta ótta um að við séum ekki nægilega verðugar, sem viðheldur þessari grimmd? Hvað getum við gert innan fjölskyldunnar, í vinahópnum? Hafa stúlkur og konur einhver önnur úrræði við höndina en drengir og karlar? Hvernig tengist þetta því hvernig komið er fram við konur á vinnumarkaðinum?
Öðru fremur spyr ég: Hvernig getum við beitt sterkum tengslum kvenna sem vogarstöng til að takast á við og breyta því að í þessari stöðu erum við sem konur búnar að tapa áður en leikurinn hefst? Það skiptir í raun engu hvort við eldumst eðlilega eða leitum ráða á skurðarborðinu. Við sætum ævinlega harkalegri gagnrýni. Orðræðan byggir á því að líkamar okkar eru stöðug uppspretta vangavelta, háðsglósa og óvirðingar, rétt eins og þeir væru eign annarra en okkar – og í mínu tilviki, eign almennings (mér er fullkomlega ljóst að það mun án efa einhver álíta að þar sem ég sé skapandi listamaður hafi ég afsalað mér þeim rétti að gerður sér greinarmunur á mér sem einstaklingi og mér sem opinberri persónu, en það er hliðarverkandi, og nátengd, afleiða af mjög brengluðum hugsunarhætti sem verður að bíða betri tíma).
Ef þessi umræða um mig á að fara fram ætla ég að sjá til þess að sú umræðan verði á femínískum nótum, því hún hefur frá upphafi litast af kvenhatri. Hver er það sem tekur undir sig röklegt ályktunarstökk frá því að einhver hafi verið lasinn eða bætt aðeins á sig yfir vetrartímann yfir í að viðkomandi hljóti að hafa farið í lýtaaðgerð? Það gerir menningarheimur okkar.
Mál að linni
Þessu brjálæði verður að linna, því jafnvel þótt þetta virðist, í þessu tilviki, beinast að mér snýst þetta í raun um allar stúlkur og konur. Og reyndar um drengi og karlmenn líka, sem eru engu síður hlutgerðir og hafðir að háði og spotti, samkvæmt hinni heterónormatífu skilgreiningu á karlmennsku sem hindrar þá í að ná fullum þroska sem einstaklingar. Þetta brjálæði hefur áhrif á hvert og eitt okkar, á margs konar og illvígan hátt: það hefur áhrif á sjálfsmynd okkar, það hvernig við komum fram við aðra, bæði í einkalífi og á vinnustað, það hefur áhrif á sjálfsmat okkar og það hvernig við lifum og þroskumst sem manneskjur. Taktu þátt í þessari samræðu – og hjálpaðu okkur að breyta henni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.