Hið mikla kynfrelsi Dana

Höfundur: Arngrímur Vídalín

Nágrannar mínir á Universitetsparken í Árósum voru afskaplega opinskáir um kynvitund sína einsog ungt fólk er almennt, en misjafnlega einsog gengur voru þeir meðvitaðir um birtingarmyndir kvenfyrirlitningar í daglegu tali. Nægir að nefna eitt dæmi.

Einn daginn áttu sér áhugaverðar umræður stað í eldhúsinu. Þegar ég gekk inn stóðu þau nokkur á gægjum við gluggann og pískruðu að mér að koma og sjá nýástföngnu lesbíurnar sem stæðu í hörkusleik fyrir utan. Orðið sem þau notuðu var voldsnave, sem þýðist illa yfir á íslensku en lýsir ofsafengnum, ef ekki ofbeldisfullum, ástaratlotum. Þegar ég sagðist ekki hafa heyrt orðið áður var það skilgreint þannig fyrir mér að það lýsti því þegar tvær manneskjur ætu vélindað hvort úr öðru.

Samræðurnar þróuðust fljótlega yfir í almennar umræður um kynlíf og hvar grensan milli kynlífs og nauðgunar lægi (hresst umræðuefni). Einn nefndi ljóð eftir Keats sem fjallaði um hvernig ljóðmælandi þráði að njóta „laufa“ sofandi stúlku og „titrandi blómsturs“ hennar (spurning hvað Keatsmönnum þætti um þá túlkun). Í þeirri andrá að ég ætlaði að nefna til sögunnar kvæði Tómasar Guðmundssonar um hana Eygló litlu, sem pedófílískur ljóðmælandinn situr um og girnist, kúventi umræðunni skyndilega á mið umdeildra konkretdæma, þar sem Julian Assange ræður æðstur um þessar mundir.

Laganeminn í eldhúsinu stóð, einsog slíkir eiga vanda til, alveg harður á muninum milli misneytingar og nauðgunar og varði Assange á þeim forsendum að hingað til hefði það ekki talist til nauðgunar að ljúga utanum sig smokki í rúminu – í besta falli teldist það vera misneyting – að öðrum kosti væri þetta dálítið „genre overskridende voldtægt“. Hvorki fyrr né síðar hef ég heyrt talað um nauðganir einsog bókmenntagrein.

Það var dálítið erfitt að henda reiður á hvaðan þessi viðhorf kæmu. Ágæt vinkona mín orðaði það svo að Danir væru svo uppteknir af að vera frjálsir í kynferðismálum að nálgaðist oft og tíðum nær fasíska dýrkun á staðalmyndum kláms. Eins leiðinlegt og það er að segja það, þá er margt til í þessu hjá henni.

Dæmið að ofan er fengið að heiman þar sem eingöngu bjuggu meistara- og doktorsnemar. Dæmin sem hér fara á eftir eru fengin úr hinu stærra stúdentasamfélagi í Kaupmannahöfn og Árósum. Þar undanskil ég bæði kvenfyrirlitningu prófessora í Danmörku og birtingarmyndir almennrar kvenfyrirlitningar; hér eiga aðeins stúdentar í hlut, framtíð menntaðrar milli- og yfirstéttar í Danmörku. Dæmin eru fengin með þriggja daga millibili í mars síðastliðnum, annað úr Aarhus Universitets Studenterhus, sem er helsta félagsmiðstöð og mötuneyti stúdenta í Árósum, og hitt úr Øresundskollegiet í Kaupmannahöfn, sem er stærsti stúdentagarður Danmerkur og mörgum Íslendingum að góðu kunnur.

Hér er auglýst ball mannfræðinema (í dönskum háskólum er öllum frjálst að borga sig inn á böll óháð deild og mér vitandi er aldrei neinum vísað frá vegna mannfjölda eða aldurs). Auglýsingin og þema ballsins var í engu samhengi við dagskrá þess að öðru leyti en því að konur fengu ókeypis inn ef þær mættu sem „slutty hjúkkur“. Til þess voru þær sérstaklega hvattar, og þess þarf auðvitað ekki að geta að karlar áttu þess ekki kost að mæta sem graðir læknar eða fá afslátt með öðrum hætti. Tengingin við mannfræði er ekki augljós, en neðst í auglýsingunni stendur að mannfræði sé kynþokkafull, hvað svosem það þýðir.

Minni og talsvert smekklegri auglýsingu var dreift víðar, þ.m.t. á öldurhúsum:

Hér eru þó hvorki klámstaðalmyndir né sérstök hlutgerving kvenna. Fyrst mannfræðistúdentum á annað borð fannst nauðsynlegt að hafa heimskulegt, andrósentrískt þema hefði þeim verið í lófa lagið að nota frekar þessa auglýsingu.

Að helgi liðinni skrapp ég til Kaupmannahafnar að hitta nokkra góða vini. Einn þeirra býr á áðurnefndum stúdentagarði og þar rakst ég á þetta framan við þvottahúsið:

Þetta er auglýsing fyrir „bangbangkvöld“ skipulagt af Færeyingunum á garðinum og þarf ekki mörg orð til að lýsa því hversu súrrandi klikkað það er að auglýsa bjórkvöld á barnum með því að hengja nakta konu á súlu (það vakti athygli mína að tilkynningatöflurnar voru einmitt ekki notaðar). Auglýsingin er álíka lágstemmd og rauða hverfið í París (þar er m.a. rúnkbíó) og í engu samræmi við það sem var „í boði“ þetta tiltekna kvöld.

Danskir stúdentar lifa og hrærast í samfélagi þar sem þykir í lagi að auglýsa hversdagslega viðburði með því að hlutgera konur, stundum með bullréttlætingum á borð við að kvenlíkaminn sé náttúrlega fallegri en karllíkaminn (líklega þess vegna sem allar konur eru lesbíur innst inni í hugarheimi margra nágranna minna); þar sem nágrannakonur mínar voru fengnar til að mæla á sér brjóstin af því karlarnir voru forvitnir um hver hefði þau stærst; þar sem stöku prófessor (sbr. tengilinn að ofan) hlutgerir konur til að auglýsa rökfræðiáfanga, með ekki skárri afsökunum; þar sem nauðganir eru ein grein af kynlífstrénu og þar sem það þykir eðlilegt að hafa ekki vaxið uppúr því um þrítugt að glápa á lesbíur.

Það yrði allt vitlaust ef svona auglýsingar yrðu hengdar upp í Háskóla Íslands, og þvert á það sem sumir kynnu að halda ber það ekki vott um tepruskap heldur heilbrigða skynsemi. Það má alveg diskútera hvað beri að kalla þetta, hvort þetta er klámvæðing eða eitthvað annað, en hitt er víst að það er ekkert eðlilegt við þetta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.