Be afraid – be very afraid

Höfundur: Líf Magneudóttir

Forbidden_worldÍ nánast öllum samfélögum er alið á ótta. Það kemur sér vel fyrir þá sem hafa valdið, það kemur sér vel fyrir kapítalistana sem þurfa að selja ónauðsynlegan varning og það kemur sér vel þegar halda þarf gagnrýnisröddum niðri sem efast stórlega um það valdakerfi sem mannskepnan hefur skapað. Birtingarmyndir óttans eru fjölmargar og afar ólíkar. Óttinn við að missa eða deila með sér elur af sér afbrýðisemi. Óttinn við tapa heilsunni getur birst í óhóflegum kaupum á hvers kyns fæðubótarefnum, óttinn við að ráðist sé að manni um hábjartan dag getur réttlæt byssukaup og óttinn við að falla ekki í hópinn er eitt af stjórntækjum útlitskúgunar. Stjórnmálamenn og fólk í valdastöðum nýtir sér ótta fólks með markvissum hætti og elur beinlínis á honum. Fjölmiðlar taka svo undir og miðla óttanum hratt og örugglega og festa ýmsar ranghugmyndir um lífið og tilveruna í sessi. Ómeðvitað tileinkum við okkur að miðla óttanum t.d. í uppeldi barna okkar eða þegar við gefum vinum okkar ráðleggingar.

Í samfélaginu má sjá ýmis viðbrögð við ótta fólks. Komið er fyrir öryggismyndavélum hér og þar, hægt er að kaupa þjófavarnir og nágrannagæslu er komið á fót í götum og hverfum. Sérmerkt bílastæði í bílastæðahúsum eru gerð fyrir konur svo þær finni til meira öryggis ef þær eru einar á ferð. Konu-bílastæðin í Hörpunni er nýstárleg birtingarmynd óttans á Íslandi – sérinnflutt frá útlöndum.
Það ber hins vegar ekki að gera lítið úr óttanum. Menn geta orðið fyrir áföllum hvenær sem er á lífsleiðinni – hvort sem þeir séu óttaslegnir eða ekki. Og hvað hefur óttinn þá upp á sig?

„Orðasamsetningin „assaulted in a parking“ gefur 112.000 niðurstöður á google.com (við leit 26. apríl 2012),“ segir í frétt á DV, en eru 112 þúsund niðurstöður á google mikið? Margar þeirra gætu fjallað um sama atburðinn, sem myndi fækkaði raunverulegum árásum af þessu tagi sem liggja að baki fjölda niðurstaðnanna, en auk þess er vert að muna að leitarvélin fer yfir gríðarlega mikið magn af upplýsingum. 112 þúsund væri vissulega há tala hér á Íslandi en ekkert sérstaklega há þegar litið er á mannfjöldann í öllum hinum enskumælandi heimi.

Konum er vissulega nauðgað í bílastæðahúsum en þeim er líka nauðgað í húsasundum, klósettum á skemmtistöðum, bílum, heimahúsum, niðri í fjöru og ótal mörgum öðrum stöðum. Hvers vegna eiga konur þá að óttast bílastæðahús sérstaklega? Eða eiga þær að óttast þetta allt saman svo mikið að þær þori ekki að stíga fæti út fyrir dyr? – Hvað þá með konurnar sem er nauðgað heima hjá sér?

fangelsidÝmsar rannsókir sýna að þeir hópar fólks sem einna mest óttast að verða fórnarlömb glæpa og ofbeldis eru konur og ellilífeyrisþegar. Af því mætti draga nokkrar ályktanir, til dæmis að konur og ellilífeyrisþegar verði oftar fyrir ofbeldi en aðrir og óttist það því með réttu. En það mætti líka álykta að hræðsluáróðurinn beinist einkum að þessum hópum og í svo miklum mæli að þeir taki að líta á öryggisskort sinn sem staðreynd án þess að hafa á nokkru öðru en áróðrinum að byggja í þeim efnum. Skilaboðin sem eru send með sérmerktum bílstæðum fyrir konur eru þá kannski að konur hafi ástæðu til að óttast um öryggi sitt fyrst forráðamenn hússins merkja stæðin sérstaklega. Það er í takt við aðra umræðu til að „tryggja öryggi“ borgaranna: fleiri lögreglumenn, öryggismyndavélar, betri þjófavarnarkerfi og allt það. Kemur þetta í veg fyrir t.d. nauðganir? Hvað með aðra glæpi? Hvað skyldu margir hafa hætt við að fremja ofbeldisglæp út af öryggismyndavélum?

Vissulega eiga allir rétt á að fara ferða sinna án þess að þurfa að óttast um öryggi sitt. Óttinn er lamandi tilfinning og skerðir athafnafrelsi okkar á alla lund. En kannski ættum við fremur að beina sjónum að skilaboðunum sem dynja á konum úr öllum áttum: Konur eru í hættu. Konur eiga að vera hræddar. Konur eru ófærar um að verja sig sjálfar og því þarf að vernda þær.

Hverjir hafa hag af því að konur trúi þessum skilaboðum og hvers vegna? Ættum við ekki frekar að ræða það?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.