Basil

Höfundur:  Magnea J. Matthíasdóttir

Þegar ég var stelpa lásum við systkinin allt sem við komum klónum í en við söfnuðum Basil fursta, konungi leynilögreglumannanna, meistarans með grímurnar óteljandi. Við keyptum heftin gömul og þvæld hjá fornbókasölum sem voru farnir að þekkja grislingana með nafni og stinga undan hefti og hefti sem slæddist til þeirra. Við rifumst um hvert okkar fengi að lesa „nýtt“ hefti fyrst og meira að segja um hefti sem við höfðum lesið margsinnis áður. Við lásum af slíkri áfergju að þegar yngri kynslóðin í systkinahópnum komst á legg var ekkert eftir nema tætlur einar og þau þurftu að byrja söfnunina alveg upp á nýtt.

Mynd af http://www.dv.is/blogg/gurri/2009/10/14/
astfanginn-basil-fursti-og-fleira-stoff/

Nú er Basil fursti farinn að koma út aftur, öllum þessum árum seinna, enda þykir útgefandanum ekki veita af að fá mótvægi við ófögnuðnum „sem sífellt er boðið upp á í kvikmyndum, sjónvarpi og bókum nú til dags“ og tímabært að „fá sér pilsner sem afréttara eftir glæpasögufylleríið sem er í gangi hjá þjóðinni“. Ég fagna þessu framtaki og gleðst innilega yfir að rekast aftur á æskuvin minn, moldríka og dularfulla rússneska aðalsmanninn sem býr í píramída í Egyptalandi, innréttuðum með öllum nýmóðins græjum. Ég ætla svo sannarlega að koma mér upp nýju safni, svo fremi Vestfirska forlagið haldi útgáfunni áfram, og hver veit – kannski mætir Maðurinn með stálhnefana líka til leiks og Percy hinn ósigrandi, ef vel tekst til. Það væri nú ekki ónýtt.

Einu hjó ég samt eftir í formála að fyrsta heftinu – sem ég held svei mér þá að ég hafi náð um leið og það lenti í búðinni – og það er eiginlega tilefni þessa örpistils. Gefum útgefanda aftur orðið:

Í ævintýrum Basil fursta koma oftast fyrir í hverju hefti bæði reglulega fagrar glæpadrósir og glæpakvendi og það eru sko engir femínistar. Sonja, Soffía, lafði Ethel og Sæta Emmy, svo nokkrar séu nefndar, voru engin lömb að leika við.
(Úr formála. – Leturbreyting mín.)

Í þessu hefti, Eitraðir demantar, kemur einmitt fyrir skæð glæpadrós sem nokkuð er um fjallað, enda kona sem Basil elskaði einu sinni. Augu hennar loga gjarnan af „heift og hefndarþorsta“, hún er „djöfullegur kvenmaður“ sem hefur fallið „niður í fen lasta og svívirðinga, unz hún var sneydd allri sómatilfinningu“ (bls. 19),  og: „Það mátti með sanni segja, að mörg hundruð ára ódyggðir ættar hennar hefðu saman safnazt í sálarlífi þessarar stúlku og að hún var líkust illum anda, en ekki mennskri konu.“ (bls. 14)  Margt fleira misjafnt kemur fram um Sonju í þessu ágæta hefti og margar krassandi lýsingar á illu innræti hennar og mannvonsku og því meira flagð sem þar steig fram, því kátari varð ég.

Mikið lifandi skelfing er gaman að vita að á Íslandi er amk. einn maður sem trúir ekki slíku eðli og atferli upp á feminista. Hann sagði það sjálfur í formálanum sínum: Þessi forhertu, hefndarþyrstu og heiftúðugu glæpakvendi eru sko ekki femínistar.

Hjúkk!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.