Óbærilegur léttleiki kynfrelsisins

Höfundur: Anna Bentína Hermansen

Kynfrelsi er frelsi hverrar manneskju til að ákveða hvort og hvenær hún vill taka þátt í kynferðislegum athöfnum. Samkvæmt Pan American Health Organization (PAHO) sýna nýjustu rannsóknir á kynverund (e. sexuality) að hún sé undirstöðuþáttur í mannlegri tilveru. Kynverundarréttindi (e. sexual right) eigi því að vera hluti af grundvallarréttindum hvers einstaklings.

Í skýrslu PAHO er því haldið fram að möguleikar manneskjunnar til þess að sinna þessari grunnþörf sinni á heilbrigðan hátt séu háðir því að kynverundarréttur eða kynfrelsi hennar sé virt og viðurkennt. Mikilvægt er að hver manneskja fái að tjá kynverund sína til þess að hún geti blómstrað án þess að eiga hættu á að verða fyrir áreiti sem heftir hana sem kynveru. Kynverundarréttur er algild mannréttindi, grundvölluð á eðlislægu frelsi, virðingu og jafnrétti allra manna[1].

Til að tryggja að einstaklingar þrói heilbrigða kynverund og almenna velferð, verður að viðurkenna og verja kynverundarrétt hvers einstaklings.  Ábyrg kynhegðun einkennist af sjálfstjórn, gagnkvæmni, heiðarleika, virðingu og samþykki. Hún veldur ekki skaða, tjóni, undirokar ekki eða vanvirðir, ráðskast ekki með eða brýtur á rétti annarrar manneskju eða mismunar henni.

Samkvæmt Hjördísi Hákonardóttur, fv. hæstaréttardómara, tengist kynfrelsi réttinum til að ráða yfir eigin líkama. Að hennar mati þarf slíkur réttur að samræmast sjálfsvirðingu manna og þeim grundvallarrétti að þurfa ekki að þola ólögmætar þvinganir[2]. Ekki tilgreinir hún að það þurfi að beita ofbeldi til þess að þvingunin teljist ólögmæt og einnig beinir hún athygli að því að ef ólögmæta þvingunin skaðar sjálfsvirðingu manneskjunnar, þá er brotið á kynfrelsi hennar.

Stephen J. Schulhofer prófessor við Harvard-háskóla segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að skilgreina nauðgun með viðhlítandi hætti. Fæstar skilgreiningar á nauðgun fela í sér viðurkenningu á því sem ætti að vera í forgrunni, þ.e. mikilvægi þess að vernda kynfrelsi einstaklings. Schulhofer segir að þrátt fyrir að miklar samfélagslegar og lagalegar endurbætur hafi átt sér stað á undanförnum þremur áratugum, tekst lögunum ekki enn að tryggja konum rétt til kynfrelsis. Hann telur afar mikilvægt að samfélagið hefjist handa og skilgreini hvað felist í kynfrelsi hverrar manneskju. Að hans mati eiga refsiákvæði um kynferðisofbeldi að snúast um kynfrelsi einstaklingsins sem felst í því hvort hann samþykkir að taka þátt í kynferðislegum athöfnum eða ekki.

Tvær hliðar kynfrelsis
Samkvæmt Schulhofer eru tvær hliðar á kynfrelsi sem báðar eru jafnmikilvægar. Annars vegar virka hliðin en í henni felst rétturinn til að velja hvernig, með hverjum og hvenær einstaklingur kýs kynferðislegt samneyti. Hins vegar er hin óvirka hlið kynfrelsisins sem beinist að réttinum til að geta hafnað samræði eða öðrum kynferðismökum, án þess að þurfa endilega að tilgreina ástæðu. Hann telur það vera áhyggjuefni hversu þröngan skilning lögin leggja í orðið valdbeiting og einnig hvernig lögin hafa enn ekki útfært skilgreiningu á þvingun og misnotkun trausts. Þessi lagatúlkun kemur í veg fyrir að kona geti af fúsum og frjálsum vilja samþykkt eða hafnað kynferðislegu sambandi og þegar hún hafnar því þá bregðast lögin henni með því að tryggja ekki að val hennar sé virt. Schulhofer telur að virðing fyrir kynfrelsi geri kröfu um að einstaklingur tryggi sér jákvætt samþykki. Einstaklingur brýtur á kynferðislegu sjálfræði annars þegar hann sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja að hann hafi fullgilt samþykki, jafnvel þótt engum ógnunum sé beitt til að hefta val viðkomandi.

Schulhofer telur að krafa um raunverulegt samþykki myndi ekki færa sönnunarbyrðina á hendur sakbornings. Sakborningur væri aðeins fundinn sekur ef hann vissi að hann hefði ekki yfirlýst samþykki konunnar eða ef hann sýndi glæpsamlegt hirðuleysi með því að áætla að hann hefði samþykki hennar. Með því að verða að fá yfirlýst leyfi, með orðum eða gjörðum, er hægt að krefjast þess að við upphaf samfara sýni hver einstaklingur fulla virðingu fyrir sjálfræði hins með því að staldra við og kanna hvort hann hefur fullt samþykki[3].

Ég hef heyrt að sumum finnist þessi hugmynd út í hött, að hér sé verið að meina fólki að stunda kynlíf. Kynlíf sé með öðrum orðum gert ólöglegt. Það er hins vegar talsverður munur á samþykktu kynlífi og kynferðisofbeldi. Ef þú hefur ekki samþykki fyrir kynferðislegum tilburðum þínum, þá ertu að brjóta á kynfrelsi manneskjunnar og þvingað kynlíf er ólöglegt.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur segir í kandídatsritgerð sinni „Nauðgun frá sjónarhorni kvennaréttar„, að sá greinarmunur sem gerður er á kynferðisbrotum eftir verknaðaraðferð sé óeðlilegur. Löggjöfin verði að taka mið af þeim hagsmunum sem raunverulega er brotið gegn þegar þessi brot eru framin, þ.e. kynfrelsi, athafnafrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þolenda. Verknaðaraðferðin ætti því að vera aukaatriði en ekki þungamiðja í skilgreiningum á kynferðisbrotum[4]. Að auki er skipting kynferðisbrota út frá verknaðaraðferð birtingarmynd á ólíku vægi kynfrelsis kvenna við mismunandi aðstæður.

Líf að baki laga
Lögin verða ekki til í einhverju hlutlausu tómarúmi. Þau mótast og breytast í gagnkvæmum tengslum við samfélagið, þar sem reglulega koma fram tillögur til breytinga á einstökum lagaákvæðum og að sama skapi mótstaða gegn slíkum breytingum. Á bak við hvert lagaákvæði er saga einhvers. Textar geta ekki af sér texta eins og sjálfvirk vél. Á bak við bókstafina er líf og reynsla, oft barátta sem er blóði drifin. Í þessu samhengi þarf að skoða hvaða reynsla leggur grunninn að lagaákvæðum. Þær raddir hljóma hátt sem segja „vælið“ um karllæg lög séu uppspuni einn, runninn undan rifjum hatrammra kerlinga sem hata karlmenn. Ef við horfum framhjá kyni þess sem gagnrýnir (þar sem það skiptir engu máli, eða hvað?), þá hefur þessi gagnrýni hljómað í nokkra áratugi einkum og sér í lagi innan lögfræðinnar.

Helsta gagnrýnin sem komið hefur fram á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna snýr að verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins. Sú lýsing er sjaldan í samræmi við reynslu kvenna og hefur mun afdrifaríkari áhrif á konur en karlmenn, þar sem þær eru meirihluti þolenda. En burtséð frá þeirri tölfræði, þá er körlum líka nauðgað. Fram til 1992 var ekki hægt að nauðga karlmanni samkvæmt lögum.

Hver setur lögin?
Þorbjörg segir í ofangreindri kandídatsritgerð að lagasetningarvaldið hafi lengst af verið hjá karlmönnum. Verknaðarlýsing nauðgunarákvæðisins snýst um að of mikil áhersla sé á líkamlegt ofbeldi við nauðgun eða hótunum um það. Slík áhersla samræmist líklega betur þeim ógnunum sem karlmenn standa helst frammi fyrir. Að hennar mati virðist sem karllæg hugsun sé ráðandi í þessum málaflokki og að reynsluheimur kvenna, einkum þolenda sem vissulega geta verið af báðum kynjum, sé ekki hafður að leiðarljósi.[5] Ef að lögin myndu skilgreina að skemmdarverk væri ekki skemmdarverk nema ef notað var orf og ljár til að eyðileggja, væri nánast vonlaust að ákæra fyrir slík brot hvað þá að dæma í þeim.

Er það ásættanlegt að fæstir hafi hvata til að kæra kynferðislegt ofbeldi? Finnst okkur eðlilegt að rúmlega 70% kynferðisbrotamála er vísað frá árlega? Eru lögin að virka ef þau vernda ekki það sem þau eiga að vernda; kynfrelsi, athafnafrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins? Eru lögin eins hlutlaus og þeim er ætlað að vera?

Í næstu pistlum mun ég halda áfram að reifa þessi mál, það mun ég gera með því að leita í viðurkenndar rannsóknir og sérfræðinga sem hafa tekið á þessu viðfangsefni.

Anna Bentína Hermansen

[1] Promotion of Sexual Health: Recommendation for Action. (2000). Antigua Guatemala: Proceedings of a Regional Consultation Convened by Pan American Health Organization (PAHO), World Health Organization (WHO) in Collaboration with World Association for Sexology (WAS).

[2] Hjördís Björk Hákonardóttir. (1994). „Siðferðileg verðmæti og mannasetningar“. Afmælisrit. Gaukur Jörundsson sextugur. Reykjavík: Bókaútgáfa Orators.

[3] Schulhofer, Stepehn J. (1998). „Unvanted Sex: The Culture of Intimidation and the Failure of Law.“ London: Harvard University Press.

[5] Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir (2005). „Nauðgun frá sjónarhorni kvennaréttar.“ Kandídatsritgerð til embættisprófs í lögfræði. Háskóli Íslands, Lögfræðideild.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.