Um feðraveldið í vöggu evrópskrar menningar

Höfundur: Þorsteinn Vilhjálmsson

Feðraveldið

Margir kippast við þegar þeir sjá orðið feðraveldi. Partur af þessu kann að vera afleiðing af þeirri einstaklingshyggju sem hefur tekist að taka mörg félagsfræðileg hugtök úr sambandi; fólki finnst að það að segja að samfélagið sé X þýði að allir einstaklingar innan þess samfélags séu X. Eitt leiðir hinsvegar alls ekki af öðru.

En þrátt fyrir þetta er
furðulegt hversu margir afneita eða misskilja hugtakið feðraveldi. Maður þarf ekki að hafa lært neinar félagsfræðilegar kenningar til að átta sig á því hvað er átt við með því – en maður þarf að hafa lært einhverja sögu. Ég vil reyna að útskýra hvað feðraveldið er með því að taka dæmi af einu samfélagi sem ég rannsaka í námi og er jafnframt yfirleitt stillt upp sem einhverskonar evrópsku fyrirmyndarsamfélagi, samfélagi fornrar dýrðar sem okkur væri gott að rata til aftur.

Í Aþenu til forna (3., 4. og 5. öld f. Kr.) var gríðarleg áhersla lögð á borgararéttindi einstaklinga. Þetta skýrist mikið til af því að þátttaka í aþenska lýðræðinu, þeirri frægu uppfinningu, takmarkaðist við karlmenn með borgararéttindi; þetta
þýddi að bæði konur, útlendingar (þ.e. þeir sem ekki gátu rakið ættir sínar til aþenskra fjölskyldna) og þrælar voru útilokaðir frá öllum pólitískum réttindum. Þegar hvað flestir bjuggu í Aþenu nutu á að giska 30.000 karlmenn lýðræðisins: Þeir drottnuðu þarmeð yfir meira en hundrað þúsund réttindalausum Aþeningum.

Til að tryggja að þessi pólitísku réttindi lentu örugglega í fáum útvöldum höndum voru því sett afar ströng lög um borgararéttindi: Maður þurfti að vera kominn af tveimur réttbornum aþenskum borgurum, sem báðir voru komnir af öðrum tveimur réttbornum aþenskum borgurum, til að geta tekið þátt í lýðræðinu. Þegar svo er við komið verður gríðarlega mikilvægt að tryggja að börn séu réttfeðruð; annars er framtíð barnanna í rúst. Aðferðin til þessa var einföld: Að loka konur inni.

Í grískum húsum var það venjan að hafa tvær hæðir eða allavega tvö aðskilin rými í húsinu: eitt var setustofa og híbýli fjölskylduföðursins; þetta rými kallaðist andron (af aner, andros: karlmaður), en hitt (oft á efri hæð) var aflokað fyrir eiginkonu hans og ambáttir, og kallaðist gynaikeion (af gyne gynaikos: kona.) Kvenrýminu var sérstaklega stillt þannig upp að konan gat ekki komist út úr húsinu óséð, og hjá fjölskyldum sem höfðu efni á var þræl komið fyrir við dyr hússins til að gæta þessa. Eini karlmaðurinn sem konan fékk að hitta var eiginmaður sinn.

Eiginmanninum var hinsvegar frjálst að beina kynferðislegum áhuga sínum hvert sem hann vildi, svo lengi sem það voru ekki eiginkonur annarra. Til er fræg lýsing á afnotum kvenna frá Aþeningi til forna, þar sem segir að aþenskir karlmenn hafi „vændiskonur til að njóta þeirra, hjásvæfur til að þjónusta líkamann dags daglega, og eiginkonur til að eignast skilgetin börn með og standa traustan vörð um heimilið“ (Dem. 59.122). Með hjásvæfunum er líklegast átt við ambáttirnar á heimilinu.

Sjálfar eiginkonurnar voru oft giftar um 13 ára aldurinn eiginmönnum á bilinu 18-19. Með þeim fylgdi svo veglegur heimanmundur, sem þær sjálfar áttu aldrei neitt í; fyrir giftingu tilheyrði hann föður hennar eða bróður, eftir giftingu eiginmanni hennar. Þessir karlmenn báru ábyrgð á konunni hverju sinni, og kallaðist sú staða kyrios (drottinn eða meistari). Ef eiginmaðurinn dó gat konan ekki erft eða tekið við heimanmundinum: Honum var dreift milli karlkyns afkomenda ef þeir voru fyrir, en ef svo var ekki var konan gift aftur eins fljótt og hægt var. Ef hún var ekki lengur giftileg (orðin eldri en þrettán), var það algengt að einhver nákominn ættingi hennar giftist henni – til halda heimanmundinum innan fjölskyldunnar. Ella var konan boðin upp til giftingar opinberlega, á þinginu, hæstbjóðanda. Áherslan á að halda eignum frá konum var ótrúlega hörkuleg.

Varúð: Karlar að störfum

Varúð: Karlar að störfum

Nauðgunarlög Aþenu voru einnig stórmerkileg. Konur gátu ekki kært eða flutt mál fyrir dómstólum; sá sem varð að sjá um það var kyrios hennar, sem kærði fyrir sína hönd, ekki hennar. Að nauðga konu var ekki talið snerta hana sérstaklega, en var árás á heiður eiginmanns hennar eða föður; eftir því var refsað. Nauðgun var heldur alls ekki talið neitt sérstaklega alvöruþrungið umræðuefni. Grísku Nýju gamanleikjunum svipar furðu mikið til nútíma farsa um samskipti kynjanna, með einni undantekningu: Plottið hverfist oftar en ekki um það að ungur maður nauðgar ungri stelpu, sem skapar einhverja flækju, sem svo leysist með að ungi maðurinn giftist þeirri sömu stelpu. Hlutverk stelpunnar í leikritinu er yfirleitt þögult. Ég endurtek að þetta voru gamanleikir. Varla þarf að taka það fram að konur fengu ekki að horfa á leikrit í Aþenu.

Þessi kúgun kvenna gekk þvert á allar stéttalínur: Konur hinna ríkustu borgara voru alveg jafn, ef ekki enn frekar, kúgaðar og konur hinna fátækustu. Um konur útlendinganna eru nær engar heimildir til. Eins og sést miðaðist allt líf kvenna við föðurinn: Þær lutu föður sínum sem börn, voru gefnar af honum öðrum manni, sem þær áttu svo að gera að föður, og lúta honum þar eftir. Þessir sömu feður fóru svo með öll pólitísk völd, og þeir beittu þessu föðurlega yfirvaldi á bæði þrælana, útlendinganna innan borgarinnar og nýlenduþegna sínar í þeirri spektakúler kúgunarorgíu sem var hið aþenska lýðræði.

Aþena er sérstök, en ekki svo sérstök. Aðstæður kvenna í Evrópu fóru batnandi, en afar, afar hægt, og það er ekki hægt að tala um neina byltingu í þeim efnum fyrr en tiltölulega nýlega. Og það er magnað. Á þessum tíma sem við erum að tala um gjörbreyttist pólitískt landslag Evrópu oft og mörgum sinnum, skipti um trú, skipti um siði og stjórnarfar. En alltaf var konan eign föður síns, eða föður barna sinna, í öllum stéttum. Þetta er feðraveldið.

Síðan hefur kvenfrelsisbaráttan skilað ótrúlegri breytingu sem er raunar, þegar öllu er á botninn hvolft, það langmerkilegasta við vestrænt nútímasamfélag. En þessar þúsundir ára af sögu, af sama kúgunarskipulagi feðranna, er ekki eitthvað sem er hægt að kollvarpa algjörlega á nokkrum áratugum: Enn eimir eftir af þessu, enda varla við öðru að búast. Þess vegna er enn talað um feðraveldi í okkar samfélagi í dag, en þá í merkingunni leifar þess.

Í ljósi sögunnar hlýtur það að teljast afskaplega skiljanlegt af hverju hugtakið er enn í notkun – fornrar sögu sem og nýrrar, því kvenréttindi geta sannarlega gengið afturábak og feðraveldið styrkst á ný; sem augljós dæmi má taka umbreytingu Weimar-lýðveldisins þýska í ofurfeðraveldið Þriðja ríkið, umbreytingu spænska lýðveldisins í kaþólskt ríki Francos, eða jafnvel glænýjar tilraunir Repúblíkana í Bandaríkjunum til að snúa kynlífsbyltingunni við í lagasetningu einstakra ríkja.

Vegna alls þessa notum við orðið feðraveldi, og höfum fullan rétt á því.

Ein athugasemd við “Um feðraveldið í vöggu evrópskrar menningar

  1. Bakvísun: Orðsending til íslenskrar umræðuhefðar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.