Höfundur: Anna Bentína Hermansen
Lagaákvæði um kynferðisbrot eru í XXII. kafla hegningarlaga frá 2007. Þeim má skipta í fjóra flokka í samræmi við mismunandi hagsmuni. Sameiginlegt með þeim öllum er að þau varða kynfrelsi fólks á einhvern hátt og er ætlað að veita athafnafrelsi á því sviði vernd. Þau fjalla með öðrum orðum um að vernda þá sem brotið er á og sækja þá til saka sem brjóta á brotaþola.
![]() |
Mynd af http://venturegalleries.com |
Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir erlendis og á Íslandi sem veita upplýsingar um hvernig kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot bitna á konum og börnum. Meðal annars gerði dómsmálaráðaneytið árið 1989 rannsókn á nauðgunarbrotinu og hvernig meðferð nauðgunarmála væri sinnt í refsivörslukerfinu (1). Einnig hafa verið gerðar rannsóknir á orsökum, umfangi og afleiðingum heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum og meðferð slíkra mála hjá lögreglu og dómskerfinu. Í þessum pistli fjallaði ég um þann óbærilega léttleika kynfrelsis sem brotaþolar kynferðisofbeldis mæta. Þar vísaði ég til þess að lögin yrðu ekki til í einhverju hlutlausu tómarúmi heldur mótist og breytist í gagnkvæmum tengslum við samfélagið, þar sem reglulega koma fram tillögur til breytinga á einstökum lagaákvæðum og að sama skapi mótstaða gegn slíkum breytingum.
Brynhildur G. Flóvenz lögfræðingur og dósent við lagadeild Háskóla Íslands segir í grein sinni „Um rétt og kynferði“ að rétturinn hafi lengst af verið mótaður af körlum. Karlar settu lögin og túlkuðu þau, til skamms tíma í krafti 100% kynjakvóta. Áhrifin urðu þau að reynsla og lífsviðhorf karla voru lögð til grundvallar í réttinum. Íslenskur réttur er nú að mestu leyti kynhlutlaus og kynferði er almennt ekki gefið neitt vægi í réttinum. Það þýðir þó ekki að rétturinn geti ekki haft mismunandi gildi og áhrif á kynin (2). Ef við skoðum lagaákvæði kynferðisbrota á Íslandi út frá sögulegu samhengi er ljóst að miklar breytingar hafa átt sér stað sem eru í takt við breytt umhverfi og aukna þekkingu.
Sögulegt samhengi lagaákvæða
Ragnheiður Bragadóttir prófessor í lögum við Háskóla Íslands fjallar um íslenskan rétt í sögulegu samhengi í bók sinni Kynferðisbrot. Þar kemur fram að frá þjóðveldistímanum 930-1262, er getið um refsingu fyrir að hafa samræði við konu utan hjúskapar. Skipti þá ekki máli hvort konan var ógift eða ekki. Engu skipti hvort samræðið væri með eða móti hennar vilja. Á þessum tíma var litið á konur sem hluta af ættinni og í brotinu fólst misgerð við ætt þeirra fremur en þær sjálfar. Hefna mátti fyrir nauðgun og framkvæmd refsinga var í höndum einstaklinganna sjálfra.
Í Jónsbók sem var lögtekin árið 1281 og gilti í margar aldir, var óbótarmál að taka konu nauðuga ef það voru tvö lögleg vitni fyrir því að það væri satt. Ef engin vitni voru en konan sagði samdægurs frá nauðguninni áttu 12 menn að dæma um hvort hún segði satt (3). Árið 1564 kom Stóridómur síðan til skjalanna. Hann fjallaði um skírlífisbrot, sifjaspell, hórdóm og frillulifnað. Dönsku lögin voru lögfest á Íslandi 1838, samkvæmt ákvæðum kynferðisbrota var það nauðgun, þegar karlmaður þröngvaði konum með ofbeldi til samræðis gegn vilja hennar. Brotið taldist ekki fullframið fyrr en maðurinn hafði sáðlát. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins verndaði það aðeins skírlífar konur, ekkjur og giftar konur og unnt var að náða brotamanninn ef hann kvænist konunni sem hann hafði nauðgað. Ekki nutu því allar konur réttarverndar. Verndarandlag brotsins var hjónabandið og fjölskylda en ekki konan sjálf.
Hegningarlögin 1869 höfðu ennþá í forgrunni brot gegn skírlífi sem vernda áttu helgi hjónabandsins. Þar voru ákvæði fyrir hór, blóðskömm, hneykslanlega sambúð, samræði gegn náttúrulegu eðli og að hafa atvinnu sína af lauslæti. Ákvæðin miðuðu að takmörkuðu leyti að því að vernda einstaklinginn gegn kynferðisbroti og ef það var gert voru það eingöngu konur og stúlkur sem nutu verndar (4). Árið 1940 tóku ný hegningarlög gildi með þeim breytingum að ekki eru lengur í lögum ákvæði um hór, hneykslanlega sambúð og samlíf gegn náttúrulega eðli. Enn var eingöngu hægt að nauðga konum og stúlkum og héldu þessi lög fram til ársins 1992 þegar breytingar voru gerðar á ákvæðum hegningarlaga um nauðganir. Þá urðu ákvæði kynferðisbrotalaga kynhlutlaus og gert var ráð fyrir því að karlmanni gæti líka verið nauðgað.
Í þessu stutta yfirliti sést að ákvæði um kynferðisbrot hafa í gegnum tíðina verið í sífelldri endurskoðun, rétt eins og önnur lagaákvæði. Síðasta heildarendurskoðun ákvæða um kynferðisbrot varð með lögum nr. 61/2007. Hugtakið nauðgun var þar rýmkað verulega með það að markmiði að það nægði til þeirra tilvika þar sem kynmök færu fram án samþykkis þolanda, enda er skortur á samþykki til kynmaka grundvallarskilyrði svo verknaður teljist nauðgun. Samkvæmt Ragnheiði Bragadóttur lagaprófessor við Háskóla Íslands, er aðalatriði kynferðisbrots að brotið hefur verið gegn sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi. Í samræmi við það sjónarmið var með lögum nr. 61/2007 dregið úr áherslu á verknaðaraðferðir og megináherslan lögð á að brotin felist í kynmökum við þolanda án samþykkis hans (5).
Út frá hefðbundinni lögfræði (pósitívisma) er litið á lögin sem kynhlutlaus og þau hafin yfir aðra samfélagslega þætti. Allt frá 19. öld hefur viðkvæðið verið að allir ættu að vera jafnir fyrir lögum og með því að beita aðferðum raunvísindanna væri unnt að ná markmiðinu um réttlátt samfélag. Vísindaleg þekking með trú á hlutlægni og nákvæmni varð grundvöllur sannleikans. Raunhyggja hefðbundinnar lögfræði (pósítivismi) var ríkjandi stefna í flestum fræðigreinum á síðustu öld. Samkvæmt þeirri stefnu eru lögin virt sem sjálfstæð, afmörkuð og aðskilin frá öðrum fræðilegum skýringum og sjónarmiðum. Lögin voru samkvæmt þessu ávallt í samræmi við siðferðishugmyndir samfélagsins og því voru mannréttindasjónarmið um siðferði eða félagslegar skýringar um eðli og áhrif laga í samfélaginu þeim óviðkomandi enda ávallt í samhljómi (6). Með því að gera lögin sjálfstæð og óháð, týnist hinn samfélagslegi veruleiki. Það sem er skráð í lagaákvæði er ekki endilega uppspretta raunveruleikans eða sjálfkrafa til í þeim veruleika. Eins og sést á þessu sögulega yfirliti hefur lagaumhverfi breyst í takti við samtíma sinn. Ákvæðin endurspegla ríkjandi viðhorf sem hvíla oft undir merkjum hlutleysis en endurspegla allt annan veruleika.
Er það hlutlaust mat að skilgreina ofbeldi eingöngu út frá líkamlegum áverkum þegar rannsóknir sýna að konur bregðist öðruvísi við líkamlegu ofbeldi en karlar og berjist ekki á móti? Er þá ekki til annars konar ofbeldi? Eða er það minna alvarlegt? Konur bregðast öðru vísi við ofbeldi en karlar, þær lamast yfirleitt af ótta. Þó að þær bregðist ekki við eins og karlar mundu líklega gera í svipuðum aðstæðum, þýðir það ekki að þær bregðist rangt við. Réttarkerfið setur kynferðisafbrot í flokk með alvarlegustu brotum samfélagsins. Sagt hefur verið að árangur réttarkerfisins í kynferðisbrotamálum felist ekki í fjölda ákæra eða sakfellinga. Þvert á móti sé ekki hægt að hugsa sér meiri árangur af dómsýslunni en að saklaus maður sé sýknaður af ákæru. Sex sakfellingar í nauðgunarmálum að meðaltali á ári, þýðir sem sagt að þeir 118 einstaklingar sem leituðu til Neyðarmóttöku nauðgana og 288 einstaklingar sem leituðu til Stígamóta árið 2011 vegna nauðgana, hafi líklega flestir verið að ljúga? Eða virkar réttarkerfið eingöngu fyrir þá einstaklinga sem berjast kröftulega á móti?
Tafla: Kynferðisbrot (194. – 198. gr. hgl.)
(1) Skýrsla nauðgunarmálanefndar. Útgef. Dómsmálaráðuneytið. Reykjavík 1989
(2) Brynhildur G. Flóvenz. Um rétt og kynferði. Rannsóknir í félagsvísindum v. lagadeild. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 2004.
(3) Jónsbók, Mannhelgi, 2. Kap. Bls 39
(4) Lagasafn handa alþýðu (1887), bls 185
(5) Ragnheiður Bragadóttir 2011. Refsingar fyrir kynferðisbrot gegn börnum í Hinn launhelgi glæpur. Háskólaútgáfan. Reykjavík.
(6) Brynhildur G. Flóvenz. Um rétt og kynferði. Rannsóknir í félagsvísindum v. lagadeild. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 2004.