“Þetta er þrælahald nútímans” – Fyrri hluti

Þessi grein birtist í þýska femínistatímaritinu EMMA vorið 2011, sem hluti af greinasafni um vændi í Þýskalandi. Herdís H. Schopka þýddi og endursagði með leyfi tímaritsins og höfundarins, Chantal Louis. Greinin mun birtast í tveimur hlutum hér á knúzinu og fyrri hlutinn fer hér á eftir.

Konur í nauðum staddar leita á La Strada, og á Café Mistral hanga dólgarnir og eyða peningunum sem þær vinna fyrir. Chantal Louis fór og skoðaði sig um í Stuttgart – og veltir fyrir sér hvers vegna enginn mótmæli.

Mynd: http://www.emma.de

Nicki situr á bekknum á biðstofunni og klórar taugaveikluð í hlébarðaskinnsveskið með bleikum, löngum nöglum. Samt er hún ekki ein þeirra sem bíður eftir að komast í skoðun til kvensjúkdómalæknisins. Hún fékk ekki miða með númeri á, eins og konurnar sem þurfa að fara eins og skot aftur út á götu til að lenda ekki í vandræðum. Að sitja og bíða í klukkutíma eftir læknishjálp af því manni sé illt í móðurlífinu? Ekki til í dæminu. Menn í leðurjökkum, nú eða íþróttagöllum, rigsa um götur rauðljósahverfisins í miðborg Stuttgart, hrópa skipanir á útlensku til kvenna í háhæluðum stígvélum og sjá til þess að þær haldi sig við efnið.

ÓLÉTT, EN EFTIR HVERN?

Mynd: http://www.emma.de

Konurnar sem myndu lenda í enn meiri vandræðum ef þær þyrftu að bíða lengi eftir læknishjálpinni fá því miða með númeri á hjá Sabine Constabel. Þær tékka öðru hvoru bak við hurðina með mjólkurlitaða glerinu hvort röðin fari að koma að þeim. Á næstu hæð fyrir ofan hitta þær svo Dr. Friedrich Spieth, sem skoðar vændiskonur hér á hverju fimmtudagskvöldi eftir klukkan hálfátta. Ókeypis, því hér er enginn með sjúkratryggingu og klamidía, sífillis og krónískar sýkingar í eggjastokkunum grassera.

Nicki þarf ekki að hitta Dr. Spieth í kvöld. Hún veit nú þegar hvað er að: Hún er ólétt. Hvað er hún komin langt á leið? “Góð spurning”, segir hún og brosir vandræðalega. Eftir kærastann eða kúnna? Það er erfitt að segja.

Nicki er tvítug, eða það segir hún alla vega, og kom til Stuttgart frá Ungverjalandi 2008. Hún er úr lítilli borg “mjög langt frá Búdapest”. Faðir hennar er látinn, móðirin þurfti að ala hana og tvö systkini hennar upp ein. Nicki lærði hjúkrunarfræði í hjúkrunarskóla og lauk náminu. Hún vann hins vegar aldrei sem hjúkrunarkona, enda hefði hún aðeins fengið 200 evrur á mánuði í laun í Ungverjalandi. “Það er allt erfitt í Ungverjalandi” segir hún.

Í VÆNDI HJÁ FRÆNKU

Frænka Nicki, sem rekur vændishús í gömlu miðborginni í Stuttgart, bauð litlu frænku sinni að koma að vinna fyrir sig. Nicki mætti, og fyrstu kúnnarnir hennar líka. “Það var mjög erfitt”, segir hún. Tveimur árum og mörg þúsund kúnnum síðar skuldar þessi blíðlega unga kona rekstraraðilum vændishússins þar sem hún vinnur 300 evrur. Hún borgar neflilega 100 evrur fyrir herbergiskytruna sem hún vinnur í. Á dag. Samfarir kosta 30 evrur, sem þýðir að hún þarf 100 kúnna á mánuði til þess eins að geta borgað leiguna.

Og núna er Nicki ólétt, eftir Guð má vita hvern. Hún vill eiga barnið. Og hætta, einhvern veginn, í gömlu miðborginni. Hún veit ekki enn hvernig hún ætlar að fara að því. “Ég ætla að tala við Sabine um það”.

Sabine Constabel hefur ekki enn tíma til að setjast niður og spjalla. Það er í mörg horn að líta hjá félagsráðgjafanum. Klukkan er hálfníu og mikil traffík í La Strada. Athvarfið er rekið af samfélagsþjónustu kaþólsku kirkjunnar í Stuttgart, Caritas, og er opið eftir klukkan sex fjögur kvöld í viku. Teymi sjálfboðaliða og félagsráðgjafa hlynnir að konunum og veitir þeim það sem þær vantar helst: Máltíð eða heitt te, smokka eða lyf, sturtu eða þýskunámskeið. Eða tuskudýr. Constabel setur kassa með tuskuböngsum, öndum og hérum fram þetta kvöld sem önnur. “Þessi kassi tæmist alltaf fyrst”, segir hún.

Einu sinni í viku kemur nuddkona í sjálfboðavinnu. “Konurnar eru jú aldrei snertar á eðlilegan hátt”, útskýrir Constabel. “Nudd hjálpar þeim að halda sambandi við líkamann”. Þó “það sé náttúrulega ekki beint eftirsóknarvert í þessu starfi” bætir hún svo við, kaldhæðin að vanda. Vilji kona hætta í þessu starfi, sem krefst þess að hún tékki út úr eigin líkama, er Sabine Constabel til hjálpar reiðubúin. Hún hefur starfað við þetta í 20 ár á vegum Heilbrigðisnefndar Stuttgart, og veit að það er nánast ómögulegt fyrir konur að komast úr vændi einar og óstuddar.

Nú stendur hún, ljóshærð í svörtum kjól og gerðarlegum stígvélum, innan við afgreiðsluborðið og skenkir tveimur svarthærðum konum heimalagaða minestrone-súpu. Þegar þær tvær eru búnar að háma í sig súpuna og meðlætið yfirgefa þær La Strada með poka fullan af samlokum og ávöxtum. Nesti fyrir nóttina, eða fyrir samstarfskonur sem gátu ekki brugðið sér sjálfar í athvarfið.

Tvær ungar konur í viðbót koma og biðja um miða með númeri, sú þriðja kemur inn með tannpínu og vill fá verkjalyf, sú fjórða stendur við afgreiðsluborðið og vill hvorki kex né rúnnstykki heldur biður í sífellu um “Gell!”. “Hvað meinarðu?”, spyr Constabel. “Gell!” endurtekur unga, svarta konan, sem greinilega hefur ekki stóran orðaforða, og bendir á skúffu. “Já auðvitað,” segir félagsráðgjafinn og nær í eina túbu af sleipuefni. “Þarftu líka smokka?”, spyr hún. Konan hristir höfuðið og fer.

Constabel lítur ofan í kassann með tuskudýrunum. Hann er tómur. “Sabine, nennirðu aðeins að koma?”, er kallað úr eldhúsinu. Það gæti orðið einhver bið á að hún nái að setjast niður með Nicki til að spjalla.

LÖGLEIÐING OG FRJÁLST VÆNDI

Ólétta er hluti af lífinu í La Strada. Samkvæmt tölum Spieth læknis komu 40 ófrískar konur til hans árið 2010, þ.e. ein á viku að meðaltali. “Þær vinna án smokka og nota engar getnaðarvarnir” segir Sabine Constabel. Þessar tölur koma henni þannig ekki á óvart – reyndar kemur fátt henni á óvart lengur eftir tveggja áratuga starf með vændiskonum. Síst af öllu mantran um frjálsa vændið, sem er fyrst og fremst haldið á lofti af stjórnmálamönnum og -konum á vinstri/rauða og græna vængnum.

Constabel er reyndar hætt að furða sig á því að mannfyrirlitningin og ofbeldið, sem á sér stað í götunum og húsasundunum allt um kring, hafi verið normalíseruð með lögleiðingu fyrir tíu árum síðan. Fyrst um sinn gat hún engan veginn skilið að öll opinber umræða síðan vændisumbótalögin (Prostitutionsreform) voru sett árið 2001 skuli skauta yfir það sem hún, félagsráðgjafinn, sér á hverjum einasta degi: Að konurnar og stúlkurnar í La Strada fyrirlíta starf sitt og eru sér vel meðvitaðar um að það gerir þær veikar á bæði líkama og sál.

Mynd: http://www.emma.de

“Eins og ég segi alltaf, þetta er nútíma þrælahald”, segir Helga Beck, ein af 30 sjálfboðaliðum sem manna La Strada. Hún er illborgari (Wutbürgerin vs. Gutbürgerin, góðborgari vs. illborgari), ef svo má að orði komast. Ekki einasta er hún ill út í nýju, umdeildu lestarbygginguna í Stuttgart, heldur er hún líka fokill út í vændiskaupendur sem “nýta sér neyð kvennanna”. Þessi sjötuga kona ólst upp í stríðinu og veit því mætavel hvað neyð er; hún veit það líka vegna þess að hún bjó lengi á Spáni og hefur því heyrt sögur fjölmargra kvenna frá Ekvador og Kólumbíu sem hafa endað á að leita sér hjálpar á La Strada. “Við erum eina athvarfið sem margar þessara kvenna eiga”, útskýrir Beck. Þess vegna fer hún, eftirlaunaþeginn, með þegar einhver kvennanna þarf að mæta fyrir rétt, eða heimsækir þær á sjúkrahúsið. Hún er líka ill þegar hún, sem sjálf á son, lýsir upplifun Rómakvenna sem eru gerðar út í vændi af bræðrum sínum og feðrum. “Konurnar eru meðhöndlaðar eins og úrgangur af sínum eigin fjölskyldum og eru svo látnar sjá fyrir körlunum!”.

“Ef fólk hefði haft áhuga á að kynna sér raunveruleikann hefði vændisumbótafrumvarpið aldrei verið samþykkt”, segir Constabel með sannfæringarkrafti. “En í sjónvarpinu eru bara lobbíistar, eða vændiskonur sem fá 500 evrur fyrir að mæta og lýsa hvað þeim finnist vændi æðislegt”, heldur hún áfram. “Konurnar okkar hér hafa hvorki krafta né tíma til að mæta í spjallþætti. Þær þurfa að einbeita sér að því að lifa af.”

AÐ LIFA VÆNDIÐ AF

Rósa lifði af, varla samt. Hún er líka frá Ungverjalandi og ólst upp á munaðarleysingjahæli. Þegar hún var 16 eða 17 ára gömul kom kona og borgaði hælinu fyrir Rósu. Þessi kona og maðurinn hennar létu engan tíma fara til spillis: Á 18 ára afmælisdag Rósu fóru þau með hana á diskótek þar sem einn gestanna tók hana traustataki. “Ég grét”, segir hún og strýkur fingrinum frá augnkróknum yfir kinnina. “En hann sagði: Ég er búinn að borga fyrir þig!”. Þetta var fyrsta skiptið hennar. Þau urðu mörg fleiri, og barsmíðarnar líka, árum saman. “Sjáðu, ég var barin hér” segir hún og bendir á ör á enninu.

Þegar hún var tvítug varð Rósa ólétt. Hún þurfti að fara aftur að vinna um leið og hún var búin að fæða og þegar hún kom til baka af götunni var barnið horfið. Önnur hjón keyptu hana og píslarvættið hélt áfram. Hún var 33 ára þegar hún flýði og húkkaði sér far til Þýskalands. Hún talaði ekki orð í þýsku og endaði í gamla miðbænum í Stuttgart.

Það vildi Rósu til happs að hún var tekin einn dag án farmiða í lestinni og dæmd til samfélagsþjónustu sem hún fékk að inna af hendi í La Strada þökk sé skynsömum dómara. “Ég er alveg ónýt. Má ég vinna hjá þér?”, spurði Rósa Sabine Constabel, sem tók málin í sínar hendur. Fyrir stuttu fékk Rósa sína fyrstu alvöru vinnu, í eldhúsinu á McDonalds.

Mynd: http://www.emma.de

Þegar maður horfir á þessa litlu, áköfu, elskulegu konu með ógreitt hárið smyrja brauð og skenkja te, og hlustar á hana lýsa hryllingnum á bjagaðri þýsku, er ekki auðvelt að ímynda sér hvernig mennirnir sem borguðu fyrir að láta hana þjónusta sig hugsa. Hvernig þeir tikka. En svoleiðis menn eru ekki einasta til; þeir eru margir. Og það eru margar konur eins og Rósa í boði fyrir þá.

Af vændiskonunum 3500, sem eru opinberlega skráðar sem slíkar til starfa í Stuttgart, eru nærri 80% útlendingar, samkvæmt tölum frá lögreglunni. Þar af eru tveir þriðju hlutar frá löndunum sem eru nýgengin í ESB (neuen Beitrittsländer). Á toppi listans árið 2010 eru Rúmenía og Búlgaría, en þaðan koma nærri helmingur þeirra 854 kvenna sem voru nýskráðar árið áður. Eitt hundrað konur voru frá Ungverjalandi. Flestar þessara kvenna eru Rómakonur – þær fátækustu af þeim fátæku, þær sem eru lægst settar bæði innan samfélagsins sjálfs og innan sinna eigin fjölskyldna. Oft eru þessar konur, sem eru fluttar í rútuförmum til Þýskalands til að vinna í vændi, bæði ólæsar og kunna ekki orð í þýsku og eru þannig algerlega upp á náð og miskunn dólganna komnar. Og ekki bara í Stuttgart.

FAST VERÐ – ÓTAKMÖRKUÐ ÞJÓNUSTA!

Ríkislögreglustjórinn í Þýskalandi hefur einnig staðfest mikla aukningu á fjölda kvenna frá þessum löndum í vændi í Þýskalandi síðan ESB var stækkað til austurs. Þetta má lesa í skýrslunni “Mennskar neysluvörur – Mansal í Þýskalandi” (Ware Mensch – Menschenhandel in Deutschland – fannst því miður ekki á internetinu (innsk. þýðanda)): “Þær eru oft við slæma heilsu og margar eiga að baki sögu um kynferðisofbeldi. Ekki ósjaldan bjóða þær upp á óvarðar samfarir fyrir gjafverð”. Sabine Constabel tekur undir þessi orð. “Konurnar gera hvað sem er fyrir 10 evrur. Þær fá sjálfar að halda kannski 200 evrum af því sem þær skaffa á mánuði. Þær senda helminginn af því til fjölskyldunnar heima fyrir. Sjálfar eru þær oft svangar”.

Þær eru líka Rómakonur, konurnar sem vinna í tilboðs (Flatrate)-vændishúsunum sem hafa sprottið upp um allt Þýskaland síðan 2009. Eitt svoleiðis er í einungis 10 km fjarlægð frá La Strada, í Fellbach. Hummer-risajeppar rúntuðu um helstu innkaupagötur bæjarins og auglýstu píkur á tilboði: “Fyrir 70 evrur á daginn, 100 á kvöldin, færðu ótakmörkuð afnot af öllum þeim konum sem þig lystir, eins oft og þú vilt, hvernig sem er!” Tilboðið náði yfir allt kynmakarófið, frá samförum í endaþarm, gangbang og yfir í “náttúruleg” munnmök, þ.e., án smokks.

Dagblöðin í Stuttgart fluttu fréttir af því að “búlgarskir dólgar” hafi “smalað saman miklum fjölda kvenna í byggðum Rómafólks í Rúmeníu eða Búlgaríu” en það stöðvaði ekki marga frá því að fara og nýta sér þetta kostaboð. Lögreglan áætlar að um 1700 kúnnar hafi heimsótt vændishúsið fyrstu helgina sem það var opið.

Stormur vandlætingar fór af stað eftir opnunina en ótrúlega stuttu síðar mátti lesa í blöðunum að konurnar í píku-klúbbunum skildu ekkert í þessum látum, að Flatrate-vændishúsin væru bara “fínn vinnustaður”. Teymið á La Strada getur ekki annað en lýst yfir undrun sinni á því hve barnalegir blaðamennirnir eru, því þær vita hvernig er í raun í pottinn búið: Nokkrar kvennanna úr píku-klúbbnum komu í ofboði í La Strada og sögðu frá því hvað það væri nú “fínt” að þjónusta alla þessa kúnna. “Þær sögðu að eftir þann þriðja fyndu þær ekkert lengur”, segir Sabine Constabel. “Þær aftengja sig því sem er að gerast.”

Þrátt fyrir það gat lögreglan ekki stöðvað hina ömurlegu starfsemi í píku-klúbbnum. “Málum er þannig háttað að samkvæmt lögum dagsins í dag getum við ekkert aðhafst”, var sagt. Á endanum báru yfirvöld fyrir sig “skorti á hreinlæti”, handtóku “framkvæmdastýruna” rúmensku fyrir skattsvik og lokuðu klúbbnum. Annars staðar fengu Flatrate-húsin að halda áfram starfsemi. “Við höfum enga lagalega heimild”, sögðu yfirvöld í Wuppertal og í Berlín.

Seinni hluti greinarinnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.