Gínur og geirvörtur

Höfundur: Ingibjörg Rósa Björnsdóttir

Jæja, ég get ekki lengur orða bundist. Stinnar geirvörtur á fatagínum, HVAÐ ER ÞAÐ?

Ókei, gínur í búðargluggum hafa aldrei átt að vera sem raunverulegastar enda eru stærðarhlutföllin á þeim svo kolröng að það væri efni í heilan pistil. En það sér nú auðvitað hvert mannsbarn, ekki síst þar sem fötin utan á þeim eru þrengd og næld saman hér og hvar til að þau fari betur – vissuð þið það annars ekki? Og jújú, þær hafa flestar einhverskonar mannsmynd en það gerir enginn kröfu um að þær líti mjög raunverulega út. Flestar eru sköllóttar eða hárlausar að öðru leyti, margar andlitslausar og jafnvel höfuð-, handa- og fótalausar. Og án þess að ég hafi oft séð naktar gínur þá finnst mér nokkuð augljóst að þær eru ekki framleiddar með kynfærum, hvers vegna væri það svosem? Svo eru þær ekki bara húðlitar heldur líka til í svörtu, hvítu, gráu, brúnu, silfruðu, gylltu og ég veit ekki hvað! Fatagínur eru í raun í sama flokki og herðatré, bjóða bara upp á aðeins betra tækifæri til að leyfa flíkunum að njóta sín en með þokkalegu tilstandi og plássfrekju þó.

Mynd af http://www.guardian.co.uk

Fyrir nokkru fór ég þó að taka eftir því að æ fleiri fatagínur eru að því er virðist ekki einungis MEÐ geirvörtur, heldur pinnstífar geirvörtur í þokkabót (döh, þess vegna tek ég eftir þeim). Hvað á það eiginlega að fyrirstilla? Verða fötin eftirsóknarverðari ef gínurnar eru með stinnar geirvörtur? Nú er ég enginn sérfræðingur en ég veit ekki betur en að geirvörtur harðni eða standi fram þegar vöðvinn undir þeim herpist og dregst saman. Þannig að geirvörturnar sem slíkar rísa ekki, líkt og gerist með karlmannslimi, heldur skaga þær aðallega fram þegar húðin í kring herpist saman. Þetta gerist vegna viðbragðs í líkamanum, því sama og veldur gæsahúð, enda fer þetta tvennt oft saman.

Gæsahúð og stinnar geirvörtur myndast þegar manneskjunni verður kalt eða hún upplifir sterkar tilfinningar á borð við hræðslu, lotningu eða unað. Þannig getur hugarástand sett ferlið í gang en einnig utanaðkomandi erting eins og kuldi, núningur við fataefni eða líkamleg snerting. Bæði huglæg og líkamleg kynferðisleg örvun getur því valdið stinnum geirvörtum hjá báðum kynjum og er það vel þekkt. Hvers vegna er samt skyndilega orðið svona mikilvægt að fatagínur hafi stinnar geirvörtur? Til að sýna hvað fötin halda illa hita, hvað þau feli illa kynferðislega örvun eða hversu mikið fötin nuddist við brjóstkassann? Er það eftirsóknarvert að klæðast fötum sem geta ekki einu sinni hulið stinnar geirvörtur – eða beinlínis valda því ástandi?

Persónulega myndi ég einmitt velja mér flíkur eða fataefni sem sýna ekki augljóslega ef geirvörturnar eru stinnar því mér finnst það sennilega álíka vandræðalegt og karlmönnum þykir að fá standpínu á almannafæri  – alveg hrikalega neyðarlegt. Og ekki myndi ég vilja að bara eitthvert fólk úti í bæ héldi að ég væri kynferðislega örvuð nálægt þeim, eða börnunum þeirra!

Mynd af http://chris.quietlife.net

Annars er það merkilegt að einu geirvörturnar sem ég hef tekið eftir á karlkyns-fatagínum eru á vöðvastæltum karlagínum í útivistarverslunum. Mér finnst það hins vegar ekki beinlínis meðmæli með útivistarfatnaði að manni sé svo kalt í honum að geirvörturnar stífni. Það getur heldur ekki verið gott ef þær verða fyrir svo miklum núningi að þær séu stöðugt stinnar. Alvöru útivistar- og sportkallar setja oft plástur yfir geirvörturnar til að verja þær sársaukafullum núningi. Hvaða langhlaupari kannast annars ekki við blæðandi geirvörtur eftir hlaup? Framleiðendur og seljendur útivistarfatnaðar ættu því frekar að leggja sig fram um að framleiða fatnað sem særir ekki geirvörturnar og undirstrika það með algjörlega geirvörtulausum gínum. Konur geta reyndar vel komist hjá óþægilegum núningi með því að ganga í góðum brjóstahaldara, eins og sennilega meirihluti kvenna gerir dagsdaglega. Fataverslanirnar gætu því einfaldlega klætt gínurnar í brjóstahaldara innan undir fötunum, enda fengju konur þá líka að sjá hvernig flíkin fer utan yfir brjóstahaldara.

Minnsta fyrirhöfnin  væri vitaskuld að kaupa bara gínur án stinnra geirvartna. Hvernig gerist það annars að búðareigendur ákveða allt í einu að kaupa fatagínur með stinnum geirvörtum? Fylla þeir út sérstakt eyðublað og haka við? Gína með  höfuð: nei – fætur: nei – hendur: nei – stinnar geirvörtur: já – fjöldi: 3 – litur: svartur/matt Ætli það sé ekki dýrara að hafa stinnar geirvörtur á fatagínunum? Kannski haus og höndum sé sleppt þess vegna, til að geta splæst í stinnar geirvörtur?

Og hvað með gínur í barnastærðum? Ég man ekki betur en að sem flatbrjósta, lítil stúlka hafi geirvörturnar harðnað í kulda og þegar hrollur fór um mig – átti eflaust við strákana líka.  Ættu þá barnagínurnar ekki líka að vera með stinnar geirvörtur, fyrst þetta er svo mikið inn núna? Til að gæta jafnræðis í gínuveröldinni. Eða er eitthvað athugavert við barnagínur með stinnar geirvörtur en ekki fullorðinsgínur með stanslaust stinnar geirvörtur? Af hverju, er það eitthvað perralegt? Af því að stinnar geirvörtur tákna hvað og eiga að höfða til hvers?

Hvað þýða stinnar geirvörtur í hugum okkar og hvers vegna eru fataverslanir farnar að nota þær til að selja vörur sínar? Getur ástæðan kannski verið sú að í vestrænu nútímasamfélagi er lögð svo mikil áhersla á að allir séu sexí, alltaf, allstaðar, að verslununum dugir ekki lengur að hafa óeðlilega mittismjóar gínur til að sýna fötin sín, heldur skírskota til kynferðislegrar örvunar – kynlífs – með gínunum, til að gera fatnaðinn söluvænni? Svo að í undirmeðvitundinni hugsum við – sem erum svo gegnsýrð af klámvæðingunni að okkur finnst við alltaf þurfa að vera sexí, allstaðar – að bara ef við kaupum svona sexí föt hljótum við að líta betur út, verða betri og líða betur. Af því við verðum sexí, eins og gínurnar. Skítt með þótt þær séu hauslausar, líflausar og sálarlausar, þær eru hasarkroppar með stinnar geirvörtur og í flottum fötum! Hver vill ekki vera eins og þær?

Ég er engin tepra en það er til staður og stund fyrir allt, líka stinnar geirvörtur. Og mér finnst rétti staðurinn ekki vera í búðargluggum og verslunum sem eru bara að selja ósköp venjulegar flíkur, jafnvel útivistarfatnað og yfirhafnir. Mörgum finnst þetta eflaust óttalega smásmugulegt af mér, að fjargviðrast yfir þessu litla smáatriði á fatagínum þegar það er svo margt annað í samfélaginu sem þyrfti frekar að gagnrýna. En það er einmitt sú staðreynd að ég hef ekki heyrt einn einasta kjaft vekja máls á þessari þróun í gínubransanum sem hræðir mig. Fólk virðist bara rölta upp og niður Laugaveginn, um Kringluna og Smáralind – án þess að taka eftir þessari birtingarmynd klámvæðingarinnar í öðrum hverjum búðarglugga – á meðan undirmeðvitund okkar, unglinganna og barnanna okkar sogar í sig skilaboðin um að það sé eftirsóknarvert að sýna stinnar geirvörtur af því að allir eigi að vera sexí, alltaf, allstaðar – líka í fjallgöngum og fótbolta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.