Kynórar og raunórar

Höfundur: María Lilja Þrastardóttir

Mynd af http://www.menathome.net/

Í prýðisgóðum pistli á Netinu er fjallað um söfnunarátak sem stendur yfir þessa dagana og bent á undarlega stöðu innan þess. Átakið felst í því að ung kona hefur tekið að sér að safna saman sögum af kynórum kvenna fyrir Forlagið. Höfundar sagnanna fá ekki greitt fyrir sögurnar og eru ekki heldur nefndir á nafn í bókinni. Ekki er annað að sjá en þarna séu kona og bókaforlag að biðja fólk um að vinna fyrir sig vinnu, sem það fær svo hvorki heiður af, né laun fyrir vikið. Það fá hins vegar þeir sem að söfnunarátakinu standa. Kannski eru einhverjir þarna úti sem ganga með draum í maganum um að verða gröð Stella Blómkvist og sjá í þessu tækifæri til að koma sér – nafnlaust – á framfæri. Ég skal ekki segja, við sjáum til hvernig söfnunin gengur.

Kynórar geta verið margvíslegir og ætla ég ekkert að fjölyrða um það. Fólk verður að fá að eiga þær hugsanir með sjálfu sér og hvaðan hugmyndir þess og órar eru sprottnir. Það er því vandasamt að ætla að markaðsvæða kynóra ónafngreindra leynikvenna. Hvernig ætla aðstandendur að greina á milli hvað af sögunum eru raunórar og hverjar eru spunnar upp af þessu tilefni, en það skiptir þau kannski ekki máli? Er þetta þá ekki bara enn eitt samspil kapítalisma og klámvæðingar?

Mér þætti líka fróðlegt að vita hvernig aðstandendur hyggjast koma í veg fyrir að karlmenn sendi inn sögur í nafni kvenna. Karlmenn geta ekki með nokkru móti þekkt kynóra kvenna af eigin raun. Það segir sig sjálft að það yrðu aldrei kynórar kvenna heldur hugmyndir karls um kynóra kvenna. Hvað er kvenlægt við það?

Á vefsíðu verkefnisins segir: ,,Það er bæði mikilvægt og skemmtilegt að íslenskar konur fái notið kynferðislegs efnis og fjölbreytileika þess á sínum forsendum.“

Ef tilgangurinn væri raunverulega sá að safna upplýsingum á kvenlægum forsendum og vinna verkefnið sem rannsókn og upphafningu kvenlegra óra í þágu kvenna væri auðveldast að leggjast bara í svolitla rannsóknarvinnu og tala við konur. Ég spyr því: Er það of tímafrekt í svona „get rich quick“ verkefni?

Mig langar einnig að vita hvar mörkin verða dregin? Ef einu kynórasögurnar sem berast eru klámfengnar, ekki erótískar, hvað gera aðstandendur þá? Fær jafnvel að fljóta með lífseiga mýtan um að konur vilji innst inni raunverulega láta nauðga sér? Það er nú ein óraplágan sem hefur fylgt konum í gegnum tíðina og jafnvel verið notuð gegn þeim sem réttlæting á viðbjóðslegum glæpum og/eða hótunum um þá.

Mig langar að benda á að í 210. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940, segir:

    Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.

Það er kannski ekki að ástæðulausu að Forlagið fékk til liðs við sig lögfræðing?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.