Af puntudúkkum og axjónhetjum

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

Mynd af http://www.etsy.com/
Best ég játi það strax: Ég lék mér ekki sérlega mikið að dúkkum þegar ég var lítil. Ég átti fullt af þeim, enda eina stelpan í systkinahópnum fyrstu níu ár ævinnar. Ég átti venjulegar dúkkur, dúkkustrák (þeir voru sjaldgæfir, dúkkur voru yfirleitt kvenkyns) í grænum stuttbuxum og með týrólahatt, dúkkur með blá augu sem opnuðust og lokuðust eftir því sem dúkkunni var hallað, dýrgripinn „dúkkuna sem gengur“ í handofnum, norskum þjóðbúningi sem var lokuð inni í skáp og ekki tekin út nema við hátíðleg tækifæri (hún gerðist pönkari þegar hún lenti í höndunum á yngri kynslóð og fékk loksins frelsi), pissudúkku og já, puntudúkkur. Dúkkurnar mínar áttu svo alls konar dót: Föt til skiptanna, glæsilegan dúkkuvagn frá Ameríku, dúkkuhús sem þær fengu í arf frá gengnum dúkkukynslóðum , glæsileg og grjóthörð húsgögn og svona hitt og þetta sem til féll. Dúkkur voru „stelpudót“ og strákar léku sér ekki að svoleiðis, að minnsta kosti ekki nema í laumi. Ég lofaði bræðrum mínum til dæmis hátíðlega að þegja og tjái mig að sjálfsögðu ekki um þátttöku þeirra í slíku athæfi.
Mynd af
nationalcostumedolls.blogspot.com
Puntudúkkurnar voru reyndar sá hluti af dúkkusafninu sem ég hafði mestan áhuga á. Pabbi ferðaðist mikið í tengslum við vinnuna og færði mér yfirleitt þjóðbúningadúkku þegar hann kom heim frá nýju landi. Dúkkurnar voru flestar frekar stífar og eflaust ætlaðar til að standa óhreyfanlegar uppi á hillu og láta dást að sér. Þær vöktu hins vegar áhuga okkar systkinanna á öðrum löndum og heilmikið grúsk á bókasafninu kom í kjölfarið, að maður tali nú ekki um aumingja pabba sem sætti þriðju gráðu yfirheyrslum á köflum um lífshætti annarra þjóða. (Hann hafði margt fróðlegt að segja um hótel, ráðstefnusali og ferðir þar á milli, en það er önnur saga.) Mamma reyndist líka talsvert fróð um útlönd og margir aðrir fjölskyldumeðlimir, eins og iðulega kom í ljós þegar þeir dáðust að nýjustu puntudúkkunni. Mér áskotnaðist  meira að segja dúkka í íslenskum þjóðbúningi  með tilheyrandi fræðslu um Sigurð málara, skautbúninginn og ýmislegt annað.
Mynd af http://www.kaboodle.com/

Svo urðu vatnaskil í leikjamenningu og allt í einu máttu strákar leika sér að dúkkum. Ja, reyndar ekki – þeir léku sér að „köllum“. Fyrstu svona karldúkkurnar voru GI-Jóar og Axjón-menn í amerískum hermannabúningum, frekar stífir allir og ef okkur hefði ekki verið sagt annað, hefðum við líkast til flokkað þá með þjóðbúningaklæddu puntudúkkunum út af almennum stirðleika og sett þá líka upp á hillu. Við fengum hins vegar að vita að þetta væru miklar bardagahetjur og útverðir ameríska draumsins og hins vestræna heims, enda skein af þeim karlmennskan og allir – jæja, þessir tveir sem rötuðu inn á heimilið á þeim tíma – voru þeir fremur þungir á brún.

Svona bardagahanar þurfa auðvitað að hafa einhvern að berjast við og þar sem ekki bárust viðunandi óvinir í sömu sendingu var lausnin að sjálfsögðu hörð og mikil styrjöld með mörgum blóðugum bardögum kallanna og puntudúkkanna.

Það gleður mig að geta sagt áhugasömum að puntudúkkurnar fóru iðulega með sigur af hólmi, enda sigrast menningin oft á ruddaskapnum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.