Alvöru konur

eftir Hanne Blank. Greinin birtist upphaflega á Filling a Much-Needed Void, http://www.hanneblank.com/blog/2011/06/23/real-women/.

Mynd af http://www.livluna.com

Alvöru konur hafa ekki bogalínur. Alvöru konur líta ekki allar eins út.

Alvöru konur hafa bogalínur, eða ekki. Þær eru  hávaxnar, eða ekki. Þær hafa brúna húð og ólífulita húð, eða ekki. Þær hafa lítil brjóst eða stór eða alls engin brjóst.

Alvöru konur byrja lífið sem litlar stelpur. Eða litlir strákar. Eða börn af ógreinanlegu kynferði sem gera lækna og fjölskyldur skelfingu lostin þegar þau sjá líkama þeirra og taka þá alls konar ákvarðanir í fljótræði.

Alvöru konur hafa stórar hendur og litlar hendur og langa, glæsilega fingur og stutta, kubbslega fingur og snyrtar neglur og brotnar neglur með sorgarröndum.

Mynd af http://www.daila-laika.com/

Alvöru konur hafa hár undir höndunum og hár á fótleggjunum og hár á kynfærunum og í andlitinu og á bringunni og sexí yfirvararskegg og stórt og mikið alskegg. Alvöru konur fá ekkert af þessu fyrirvaralaust eða af því að þær hafa einsett sér að breytast. Alvöru konur eru nauðasköllóttar, bæði af hendingu og eigin vali og lyfjameðferð. Alvöru konur hafa svo sítt hár að þær geta setið á því.

Alvöru konur eru með hárkollur og áfesta lokka og hárlengingar og pottlok og frollur og hárnet og höfuðklúta og hatta og kollhúfur og mynstraðar sundhettur með plastblómum á hliðinni.

Alvöru konur eru í háhæluðum skóm og pilsum. Eða ekki.

Alvöru konur eru kvenlegar og ilma vel og þær eru karlmannlegar og ilma vel og þær eru kynlausar og ilma vel, nema þegar þær ilma ekki sérlega vel, en því geta þær breytt ef þær kæra sig um það, af því að alvöru konur breyta hinu og þessu þegar þær vilja.

Alvöru konur hafa eggjastokka. Nema þær hafi þá ekki og stundum hafa þær þá ekki af því að þær fæddust þannig og stundum ekki af því að það þurfti að fjarlægja úr þeim eggjastokkana. Alvöru konur hafa leg, nema þær hafi það ekki, sjá hér að framan. Alvöru konur hafa leggöng og sníp og XX-litninga og hátt hlutfall estrógens, þær hafa egglos og tíðablæðingar og geta orðið ófrískar og eignast börn. Nema stundum ekki, út af býsna löngum lista af ástæðum, bæði sjálfsprottnum og af mannavöldum.

Alvöru konur eru feitar. Og mjóar. Og bæði, og hvorugt, og eitthvað allt annað. Þær verða ekki minna alvöru fyrir því.

Glenn Marla.

Ég veit um setningu sem ég vildi óska að ég gæti letrað á hjarta hverrar einustu manneskju í gjörvöllum heiminum og þessi setning kom af vörum hins merka og mælska snillings Glenn Marla:

    Enginn líkami er rangur.

Ég ætla að endurtaka þetta af því að það er mikilvægt: Enginn líkami er rangur.

Ef siðferðisáttavitinn þinn vísar á einhvern hátt eða í einhverri mynd eða formi til jafnréttis þarftu að koma þessu inn í hausinn á þér og hætta þessu „alvöru konur eru svona-og-svona“ kjaftæði.

Þú hefur ekki úrskurðarvald um hvað „alvöru“ manneskjur eru og hver telst „alvöru“ og á hvaða grundvelli. Allar manneskjur eru alvöru.

Já, ég veit að þú ert leið(ur) á finnast þú vera fótum troðin(n). Það er lýjandi og andstyggileg tilfinning og tilvera. En að troða aðra undir til að jafna metin leysir ekki vandann. Samstaða og samhugur þarf að byrja einhvers staðar og það getur allt eins byrjað hjá þér og mér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.