Tímabær dauði Dr. Rembu eða: Hvernig ég hætti að tuða og lærði að elska femínisma.

Höfundur Bragi Páll Sigurðarson.
Áður birt á Facebooksíðu höfundar.

Opinber umræða er ógeðsleg. Sú var tíðin að ég tók þátt í henni, en svo fékk ég upp í kok, og hætti að birta hugsanir mínar opinberlega. Stolnar hentiskoðanir og áróður hagsmunaaðila er svo hávær að dásamlegar og útpældar unaðshugmyndir þínar um réttlátt samfélag og fullkomið mannkyn drukknar í flórnum. Mín upplifun er sú að bróðurpartur „málefnalegrar umræðu“ á Íslandi sé hreinn skítur. Innihaldslaus. Óupplýstur. Heimskulegur. Skítur.

Margur er misskilningur mannsins, og útbreidd sú skoðun að skoðanir séu óbreytanlegur sannheilagur fasti. Ég hef hinsvegar í gegnum tíðina mátað allskyns ólíkar hugmyndir, sveiflast þá yfirleitt á milli tveggja öfgafyllstu pólanna sem ég get fundið, og finn mér svo þægilegan stað einhvers staðar á milli eða utan þeirra. Þegar ég var 14 ára rembdist ég við að trúa á krist og nýja testamentið, það virkaði ekki svo ég prófaði að vera satanisti í nokkra mánuði, þvínæst trúleysingi, og endaði svo árum seinna sem kirkjulaus áhugabúddisti sem er nokkuð viss um tilvist einhverskonar guðs eða guða. Um 17 ára aldurinn ákvað ég að prófa kynþáttahyggju með dassi af nasisma, stuttu seinna kastaði ég því og gerðist kommúnisti, því næst daðraði ég við hugmyndafræði vinstri grænna, fór svo aftur yfir í algjöra frjálshyggju. Úr henni tók ég 720 gráðu beygju yfir í hina raunverulegu frjálshyggju, anarkó-syndikalisma.

Takk kærlega fyrir að lesa svona lengi, því nú ert þú komin(n) að því sem átti að vera umfjöllunarefni þessa texta: hugmyndir um kynhlutverk. Ég kynntist því aldrei á mínu heimili að rótað væri í hinum úreltu hlutverkum kynjanna. Mamma vann vissulega úti, en hún sá líka um barnauppeldið, matseld, þrif og þvott, og allt þetta erfiða og leiðinlega sem einhverra hluta vegna hefur verið sett í hendur kvenna í okkar samfélagi. Þegar ég var 6 ára spurði ég mömmu hvort við þyrftum ekki að kaupa á hana svona þernuhúfu. Í gagnfræðiskóla hélt karlkyns kennari, sem ég leit upp til, því fram að jafnrétti kynjanna væri í rauninni náð, og að þetta röfl og tíst í kvenréttindakonum væri bara frekja. Að nú þyrfti bara að passa upp á réttindi karla líka. Og þetta át ég upp eftir honum. Djöfulsins brandari.

Það tók mig hinsvegar mörg ár að fatta að þessi brandari er sjúklega ófyndinn og pönslænið stórhættulegt. Í flestum karlahópum og samfélögum er rík hefð fyrir því að tala niðrandi um konur, oft ómeðvitað, alltaf af fáfræði. Menn sem ekki standa undir karllægum viðmiðum eru helvítis kerlingar, tussur og pussur. Þessar kerlingar eru bara klikkaðar, vita ekkert hvað þær vilja, þær eru nefnilega svo aumar og heimskar og alltaf á blæðingum. Ég er ekki eins vel að mér í því hvernig konur ræði um karla sín á milli, en karlmenn taka af konum manndóminn, taka úr þeim sálina, gera þær að hlutum sem má koma fram við án virðingar; bara druslur til að ríða, kunta til að þrífa af mér. Hugsunin er eitruð. Útkoman kúgun.

Það verður samt að athuga það að þessar hugmyndir eru ekki strákunum að kenna, þeir eru bara að apa upp það sem feður, bræður, félagar og afar, klám, tónlistarmyndbönd og bækur hafa ranglega haldið fram í ómunatíð. Að konan sé karlinum óæðri. Skepna. Hlutur. Eign.

Það tók mig mörg ár að átta mig á þessu. Frumskilyrðingin var sterk. Það var eitthvað þægilegt vald í fullvissunni um að þú tilheyrðir betri helming mannkyns. „Sterkara kyninu.“ Það getur hinsvegar verið frelsandi að losa sig við úreltar skoðanir, soldið eins og að fara í bað eftir langan tíma. Það var ekki fyrr en eftir að ég skírðist til femínisma sem augu mín opnuðust. Ég sá loksins hversu djúpstæð geggjunin er og hversu brenglaðar hugmyndir stór hluti samfélagsins hefur um hlutverk kynjanna. Mislitir hjálmar og mansal eru bara einkenni sjúkdómsins, og þau er nauðsynlegt að ræða, en ef sjúkdóminn á að lækna þarf samfélagið að halda áfram að taka eina meðalið sem til er: femínisma.

Ég tel mig ekki vera neitt sérstaklega svartsýnan þegar ég tel að aldir muni líða áður en fyllilega er undið ofanaf þessum ömurlega misskilningi. Konur munu fæðast og deyja í kúgun og dætur þeirra líka áður en raunverulegu jafnrétti verður náð. En það þýðir ekkert að þegja lengur. Ef þú sérð fólk breyta rangt, áttu þá bara að þegja af því þau eru svo mörg? Verður maður ekki að rífa kjaft og sparka í rassa?

Ég veit það ekki, en ég ætla allavega að prófa.

9 athugasemdir við “Tímabær dauði Dr. Rembu eða: Hvernig ég hætti að tuða og lærði að elska femínisma.

  1. Flottasti texti sem ég hef lesið! Geri mig því miður sekan um að falla í umtalaðan hóp, en ég reyni að lifa með því að vera sú breyting sem ég vil sjá í heiminum, og þessi texti fær mig til að vilja sparka í rassa!!!!

  2. Ég er að mörgu leiti sammála þér en ég er svolldið að pæla svona miðað við mitt uppeldi þá var ég mikið hjá afa og ömmu þegar ég var yngri og var að miklu leiti alinn upp af þeim og svona svolldið forneskjulegt hvernig þau háttuðu sínu sambandi. Þá var það auðvitað þannig að amma eldaði og þreif og sá um allt húshald en þau voru bændur svo afi var alltaf úti og sá um allt þar og bara eins og þetta er í flestum sveitum. En virðingin á milli þeirra og ástin var samt ekkert þannig að afi átti ömmu. Þau alveg lifðu í fullkomnu jafnvægi og sennilega voru jafn háð hvor öðru. En já, veit ekki alveg hvað ég er að fara með þetta, fannst bara eithvað svo ljótt af þér að alhæfa um að allir í gamla daga hafi verið svo miklar karlrembur þó hafi örugglega verið litið niður á konur á þessum tíma. En ég meina, það eru allir bara að leita af ást og hamingju, bara aumingja fólkið sem þarf að vera í þessu veseni og vera svona óörugt með sig. Ást, virðing og hamingja yo!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.