Fótbolti, vændi og mansal

Höfundur: Drífa Snædal

Fyrir sex árum síðan var heimsmeistarakeppnin í fótbolta haldin í Þýskalandi en íþróttaveislan varð í hugum margra að vettvangi niðurlægingar og ofbeldis. Þjóðverjar töldu nefnilega hluta af undirbúningnum vera að flytja inn 40.000 konur frá mið- og austurevrópu til að stunda vændi á meðan á keppninni stóð. Heilt hverfi var tekið undir vændisiðnaðinn, hverfi þar sem konur aðrar en vændiskonur voru ekki velkomnar og bílastöðvar voru byggðar sem vettvangur vændiskaupa með handhægan smokkasjálfsala við hvert stæði. Hlutgervingin var fullkomin og íþróttir voru bundnar við ofbeldi og niðurlægingu með blessun stjórnvalda. Margir gerðu athugasemdir við málið, meðal annars fjórtán íslensk félagasamtök sem afhentu þýska sendiráðinu og Knattspyrnusambandi Íslands áskorun um að hverfa frá þessari braut og láta óánægju sína í ljós. Reyndar voru það ekki bara hin hefðbundnu kvennasamtök á Íslandi sem létu í sér heyra heldur var Prestastefna haldin á sama tíma og umræðan reis sem hæst og sendi hún einnig frá sér áskorun til KSÍ um að vinna gegn mannréttindabrotum í tengslum við keppnina. Viðbrögð KSÍ voru nokkuð hefðbundin, lofað var að koma áskorununum á framfæri en jafnframt minnt á að samtökin væru óháð, sem sagt myndu ekki beita sér og halda sínu striki eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir að það sem mætti kalla jólin hjá knattspyrnuáhugamönnum væri vettvangur mannréttindabrota. Hvað er líka hægt að kalla flutning kvenna frá fátækari löndum í massavís til ríkari svæða í þeim tilgangi að ganga kaupum og sölum milli manna. 

Nú stendur yfir Evrópumeistarakeppnin í fótbolta í Úkraínu en minna hefur farið fyrir skuggahliðum hennar í fjölmiðlum. Kannski er það af þeirri ástæðu að vændisiðnaðurinn er  rótgróinn í Úkraínu sem hefur verið miðstöð mansals frá austurevrópuríkjum til Asíu um margra ára skeið. Vændi er leið margra kvenna til að hafa í sig og á í Úkraínu þar sem venjuleg laun duga vart fyrir framfærslu og þá eru ótaldar þær konur sem eru beinlínis hnepptar í þrælkun. Innanríkisráðherra Úkraínu gerir lítið úr málinu og vill meina að með fótboltaáhorfi og bjórdrykkju sé lítill tími afgangs til vændiskaupa. Þau samtök sem eru hvað mest áberandi í kvenréttindabaráttu í Úkraínu eru FEMEN og hafa þau látið hressilega í sér heyra í aðdraganda keppninnar. Samtökin eru þekkt fyrir sérstæða baráttuaðferð þar sem kvenkyns mótmælendur eru berir að ofan í aðgerðum. Því hefur verið haldið fram að baráttuaðferðin njóti meiri athygli en málstaðurinn og íslenskur femínisti á erfitt með að sjá hvernig berjast má gegn hlutgervingu kvenna með því að draga athyglina að brjóstunum. 

Hvað sem baráttuaðferð úkraínskra femínista líður þá er ástæða til að hafa áhyggjur af vændi í tengslum við fótboltamót. Þótt ekki hafi frést af jafn stórfelldum undirbúningi og í Þýskalandi um árið þá hefur vændi hækkað mjög í verði í aðdraganda keppninnar, vændishús auglýsa nú á ensku og vændiskonur undirbúa sig undir vertíð. Tengsl íþróttaviðburða við vændi er því enn staðreynd og viðvarandi áhyggjuefni. Það er enn ástæða til að velta vöngum yfir því af hverju íþróttaviðburðir ala af sér misnotkun og ekki síst af hverju samtök íþróttamanna mótmæla ekki kröftuglega eða reyna að stemma stigu við vændi og mansali.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.