Kvennasögusafn Íslands

Höfundur: Auður Styrkársdóttir

Kvennasögusafn Íslands var stofnað á nýársdag árið 1975, á heimili Önnu Sigurðardóttur sem lagði því til húsnæði og gaf því einnig eigið heimilda- og bókasafn. Hún var jafnframt eini starfsmaður þess og gegndi starfi forstöðumanns þar til hún lést í ársbyrjun 1996. Síðar sama ár tókust samningar um flutning safnsins í Þjóðarbókhlöðu. Þar starfar það sem sérdeild og hefur sér til fulltingis sérstaka stjórnarnefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá Landsbókasafni, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Kvenfélagasambandi Íslands.

Markmiðin

Samkvæmt stofnskrá Kvennasögusafns Íslands og samningi við Landsbókasafn eru markmið þess að safna og varðveita heimildir og gögn er varða sögu kvenna, svo sem útgefnar bækur, óprentuð handrit, bréf og fundargerðir. Safnið skal auk þess sjá til þess að gögn séu skráð og stuðla að því að skráðar séu heimildir og gögn er varða sögu kvenna og varðveitt eru annars staðar. Safnið skal einnig greiða fyrir áhugafólki um sögu íslenskra kvenna og veita aðstoð við að afla heimilda og miðla þekkingu um sögu kvenna.

Kvennasögusafni er einnig ætlað að hafa samvinnu við önnur kvennasögusöfn. Samvinnan hefur verið mest við sambærileg söfn á Norðurlöndunum, KVINFO í Kaupmannahöfn, Kvinnohistoriska samlingarna í Gautaborg og Kilden í Osló. Kvennasögusöfn á Norðurlöndunum skiptast á margvíslegum upplýsingum og er þessi samvinna ómetanleg fyrir Kvennasögusafn Íslands.

Starfsemin

Safnið hefur aðeins einn starfsmann. Forstöðukona sinnir flokkun og skráningu efnis auk þess að svara fyrirspurnum sem berast símleiðis, um tölvupóst og frá gestum sem leita til safnsins, en þeir eru fjölmargir, aðallega þó fræðimenn og nemendur á framhaldsskólastigi. Safninu berst töluverður fjöldi skjala á ári hverju og mörg kvenfélög og kvenfélagasambönd hafa komið skjalasöfnum sínum til varanlegrar geymslu hjá Kvennasögusafni. Þetta eykur gildi safnsins fyrir þá fræðimenn sem áhuga hafa á sögu kvenfélaga og samtaka og hreyfinga kvenna.

Veraldarvefurinn er sú leið sem fólk er farið að feta fyrst í leit að upplýsingum. Kvennasögusafn Íslands hefur lagt aukna áherslu á þennan þátt í starfinu. Á heimasíðuna hafa til að mynda verið settir nokkrir leslistar sem gagnast fólki sem er að leita að heimildum um tiltekið efni. Þá er þar að finna frásagnir af ýmsum merkisviðburðum í kvennasögunni, meðal annars baráttunni fyrir kosningarétti kvenna, kvennafrídögum og nýju kvennahreyfingunni, svo nokkuð sé nefnt.

Hvað er á Kvennasögusafni?

Þegar Kvennasögusafn flutti í Þjóðarbókhlöðu var bókum þess og tímaritum komið fyrir hjá öðrum bókum Landsbókasafns en handrit eru varðveitt í handritageymslum Landsbókasafns, merkt Kvennasögusafni Íslands. Kvennasögusafn nýtur mjög nálægðar sinnar við Landsbókasafn með sinn mikla innlenda bókakost, handrit og skjöl og sérhæfða starfsmenn.

Handritasafn Kvennasögusafns er fjölbreytt og árlega bætast við fjölmörg handrit, bæði frá einstaklingum og kvenfélögum og kvennahreyfingum. Má þar nefna skjöl Félags íslenskra leikskólakennara, Hvíta bandsins, Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu, Kvennalistans, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Mæðrafélagsins, Rauðsokkahreyfingarinnar og Zontaklúbbs Reykjavíkur. Skjöl þessara félaga hafa verið skráð og lista yfir efni þeirra má finna á heimasíðu safnsins.

Það er ljóst að saga íslenskra kvenna er ekki nærri öll í Kvennasögusafni Íslands. Víða liggur mikill fróðleikur um konur og eftir konur og erfitt verður, ef ekki ógjörningur, að safna þeim fróðleik saman á einn stað. Fæst safnanna flokka heimildir eftir kynferði og Kvennasögusafn hefur ekki mannafla til að ráðast í leit á öðrum söfnum. Engu að síður býr mikill fróðleikur í Kvennasögusafni Íslands sem fjölmargir Íslendingar nýta sér á hverju ári – og sífellt bætist í sarpinn.

Framtíðarsýnin

Safnið stefnir að því að verða miðstöð þeirra sem stunda kvennarannsóknir þar sem hægt er að leita upplýsinga um vænlegar heimildir, hvort sem þær væri að finna í safninu sjálfu, á veraldarvefnum eða í öðrum söfnum. Það er von þeirra er standa safninu næst að þessi þáttur eflist enn frekar með framsetningu upplýsinga á heimasíðu safnsins, svo og að safnið megni að standa fyrir blómlegu útgáfustarfi í framtíðinni.

Hvers vegna Kvennasögusafn?

Kona í peysufötum – óþekkt
(Ljósmyndasafn Ísafjarðar, http://myndasafn.isafjordur.is/)

Það er auðvitað með sögu kvenna eins og sögu karla, eða sögu heillar þjóðar, að hún verður aldrei sögð til fulls. Hún er í rauninni ekki annað en þær heimildir sem hver kynslóð skilur eftir sig – og að því gefnu að næstu kynslóðir eyði þeim ekki, en það kemur oft fyrir.

Stundum er þessi eyðilegging meðvituð eins og þegar kristnir menn brutu hof og aðrar minjar heiðinna manna og lúterskir kirkjuskraut, bækur og handrit úr kaþólskum sið. Þessa eyðileggingu grátum við nú, því hana er ekki hægt að bæta með neinum hætti. En sennilega er eyðingin ómeðvituð í flestum tilfellum, þ.e. við vitum hreinlega ekki að við erum að eyða gögnum eða munum sem næstu kynslóð eða kynslóðum þætti fengur í. Fólkið sjálft sem sagan er um er einnig misduglegt við að halda lífi sínu til haga.

Á Kvennasögusafni Íslands er aðeins brot af sögu íslenskra kvenna. Hin brotin liggja hér og hvar um landið, sumt á söfnum en annað hjá einstaklingum, félagasamtökum og jafnvel fyrirtækjum sem eiga gögn í fórum sínum og vita jafnvel ekkert hvað á við þetta að gera. Markmið Kvennasögusafns er að geta sinnt öllum sem til þess leita þannig að fólk fari ánægt af fundi þess – og viti a.m.k. hvar það getur leitað heimilda. Þessu markmiði getur safnið auðvitað ekki sinnt nema í góðri samvinnu við öll bóka- og skjalasöfn landsins og ekki síður í góðri samvinnu við þá sem luma á sögu kvenna. Þessi saga þarf alls ekki að vera gömul. Það eru t.d. ekki nema um 30 ár síðan Samtök um kvennalista voru stofnuð og brutu þar með blað í stjórnmálasögu Íslendinga. Þessi saga er komin hér á safn og orðin aðgengileg öllum þeim sem vilja kynna sér hana, hvort heldur fræðilega eða af almennum áhuga. Skjöl samtakanna eru varðveitt í sýrufríum umbúðum sem eiga að tryggja góða endingu til framtíðar svo fræðimenn geti skoðað hana endalaust. En hitt er ekki síður mikilvægt að þeir sem ekki eru æfðir í fræðilegum störfum, og það er nú meirihluti landsmanna, hafi einnig góðan aðgang að sögunni. Hlutverk Kvennasögusafns verður í æ ríkara mæli það að miðla upplýsingum um söguna – og kannski fyrst og síðast vekja athygli og áhuga á einstökum þáttum hennar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.