Frambjóðandi svarar

Knúzið sendi öllum frambjóðendum til forseta Íslands 2012 stuttan spurningalista um viðhorf þeirra til femínisma og jafnréttis. Fjórir frambjóðendur hafa þegar svarað og hér birtast svör þess fimmta:

Þóra Arnórsdóttir

Ertu femínisti?
Já, ég er femínisti og ég held að allar konur séu það í raun. Líka flestir karlar. Femínismi er vítt hugtak og getur verið fræðilegt eða pólitískt, án þess þó að snúast um hægri eða vinstri. Fyrir mér er femínismi lífsskoðun þeirra sem telja að fullt jafnrétti eigi að ríkja á milli karla og kvenna, en að því markmiði hafi ekki enn verið náð og vilja gera eitthvað í því. Femínismi er þannig nátengdur og samofinn þeim gildum sem ég vil halda í heiðri í mínu einkalífi og sem ég tel að við ættum að hafa í hávegum í samfélaginu; jafnrétti, heiðarleika, umburðalyndi, víðsýni, frelsi og mannúð 
 
Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?
Lagalegt jafnrétt er ekki það sama og jafnrétti í reynd. Hér hefur mikið verið gert til að skapa konum og körlum jafna stöðu að lögum, en svo kemur til kasta samfélagsins, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að vinna með þau verkfæri sem því eru gefin. Hér er enn launamunur, konur eru alltof fáar í stjórnum fyrirtækja og ýmsum ábyrgðar- og stjórnunarstöðum, svo dæmi séu tekin. En ég fagna hverju skrefi fram á við, hverjum ávinningi og hverju vígi sem fellur.

Hefur þú tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna og þá hvernig?
Ég held að jafnréttishugsunin sé svo samofin öllu því sem ég tek mér fyrir hendur að ég sé í jafnréttisbaráttu alla daga. Ég tel að við verðum stöðugt að berjast fyrir jafnrétti og ávallt að vera á varðbergi svo við glötum ekki því sem þegar hefur áunnist. Ég er femínisti. Maðurinn minn er femínisti. Vonandi tekst okkur að ala börnin okkur upp sem femínista, bæði soninn og dæturnar. Það ættum við öll að gera og um það markmið ættum við að geta sameinast.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti?

Með því að halda vöku minni gagnvart jafnréttismálum og gera mitt til að halda athygli annarra vakandi gagnvart þessum málum. Fjalla um þau opinberlega og hvetja aðra til umræðu. Nái ég kjöri hef ég í hyggju að funda reglulega með áhrifafólki á öllum sviðum þjóðlífsins og þar gæfist mér gott tækifæri til að ræða þetta mikilvæga mál. Einnig tel ég að það skipti miklu máli hvers konar fyrirmynd forsetinn er og að það geti verið lóð á vogarskálarnar að forsetinn sé kona á barneignaraldri, með heimavinnandi maka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.