Alvöru karlmenn

Höfundur: Magnea J. Matthíasdóttir

Ég þýddi um daginn bloggpistil sem ég kallaði „Alvöru konur“ á okkar ástkærra ylhýra en fór uppúr því að velta fyrir mér hverjir séu eiginlega „alvöru karlmenn“.

Nú er ég svo gömul sem á grönum má sjá, eins og karlinn sagði í þjóðsögunni, en var samt ekki alveg viss um hugtakið. Ég hef alltaf verið umkringd alls konar karlmönnum, allt frá öfum mínum, pabba, móðurbræðrum og bræðrum, vinum, kunningjum, ástmönnum og eiginmönnum, til sona og barnabarna. Mér er frekar hlýtt til kynsins, ég verð að játa það.  En hvað er „alvöru“ karlmaður?

Er það náungi sem harkar af sér allt illt sem á vegi hans verður, bítur á jaxlinn og ber sig vel?

Ég hef átt vini og ættingja sem hafa trúað því, lifað í samræmi við það – og dáið. Ég hef þekkt karlmenn sem hafa átt svo erfitt með að láta tilfinningar sínar í ljós að þeir misstu frá sér allt sem þeir elskuðu. Ég hef þekkt svo mikla harðjaxla að þeir litu aldrei glaðan dag, að minnsta kosti ekki þannig að þeir þorðu að segja frá honum nema blindfullir þegar hann var löngu liðinn. Eru þeir þá hetjur?

http://tremendousnews.com/

Er það gaur sem velur sér „karlmannlega iðju“?

Ég man eftir strákum sem höfðu ekki nokkurn áhuga á bifvélavirkjun eða verkfræði og langaði í rauninni ekkert í lækninn heldur, en létu sig hafa það af því að hjúkrun var bara fyrir kvenfólk. Ég hef kynnst karlmönnum sam langaði að vera kennarar og fóstrur en lögðu ekki alveg út í það af því að það voru kvennastéttir og þar fyrir utan ömurlega illa launaðar. Og ég þekki ráðsetta afa sem hafa miklu meira gaman af því að tína ber og sulta og baka vöfflur til að gæða fjölskyldunni á en að spila golf og horfa á fótbolta. Margir þeirra eru meira að segja kattþrifnir og sumir prjóna sokka og vettlinga. – Eru þeir þá ókarlmannlegir?

Er það strákur sem lítur á sambönd sem eitthvert RBB-dæmi?

Ja, nú veit ekki ég – en mjög margir karlmenn sem ég hef kynnst um ævina hafa viljað föst sambönd, fjölskyldu og öryggi. Þá hefur einlæglega langað í maka (og gjarnan börn) og viljað leggja margt á sig til þess og til að halda því þegar það er í höfn. Mörgum sem ég hef kynnst hefur fundist þeir billegir að ríða útum allar trissur og tómleiki fylgja því að eiga ekki lífsförunaut. Klám kitlar suma en flestum finnst vændi ógeðfellt, einkum af því (ég ætla ekki að fegra þá) að þeir vilja njóta kynlífs vegna eigin verðleika en ekki af því að þeir þurfi að borga fyrir það. Þeir vilja að einhver girnist þá af því að þeir eru eins og þeir eru. – Eru þeir þá kvenlegir?

Er það „skaffarinn“?

Þetta var mjög vinsæl hugmynd um karlmenn þegar ég var að alast upp – hamingjan má vita hvaðan hún kom. Þá fór fjölskyldufaðirinn burt frá familíunni á hverjum degi til að – ja, veiða orma, samanber spörfugla? – og kom heim með aflann í mánaðamót í formi launaávísunar. Konan var heima með börn og bú og annaðist daglegan rekstur. Börnin kynntust almennt ekki föður sínum (nema í gegnum hótanir og refsingar) fyrr en þau voru orðin stálpuð, synirnir iðulega í gegnum slagsmál. Við þetta stef eru mörg tilbrigði og við af eldri kynslóðinni þekkjum þau mætavel. En svei mér, ef flestir nútímafeður kunna ekki að skipta á bleiu og þekkja og elska börnin sín, hvernig sem það nú gerðist. – Hmm. Eru þeir þá ekki alvöru karlmenn?

Ég veit að margir karlmenn taka það óstinnt upp þegar femínistar tala um „feðraveldið“. Það er bara orð, bein þýðing á orðinu „patriarchy“. Við getum kallað það hvað sem okkur sýnist, en það beygir ekki síður karla en konur undir vald sitt. Karlar mega ekki vera svona, konur ekki svona; karlar eiga að vera svona, konur svona. Þetta er hið óskrifaða vald samfélagsins sem lýgur því að okkur að strákur sem langar til að dansa ballett sé ókarlmannlegur (og nú gæti ég tekið hómófóbíukrókinn, en ætla ekki að gera það, af því að það er enn ein staðalmyndin og margir af þekktustu karldönsurum ballettheimsins hafa verulega notið kvenhyllinnar sem því fylgir) eða að stelpa sem vill ekkert frekar en að keppa í Formúlunni hljóti að vera ókvenleg (sjá fyrri athugasemd).

Og ef við hugsum okkur öll um vitum við að þetta er ekki rétt.

Við erum alls konar, bæði karlar og konur.

Það eru til karlar sem vilja þjóra bjór í félagsskap annarra karla og horfa á íþróttir. Það eru til karlar sem vilja gutla í grunnu lauginni með börnunum sínum og hita kakó þegar þeir koma heim. Það eru til karlar sem fara í húðhreinsun og láta setja í sig strípur til að líta vel út. Það eru til karlar sem nenna ekki að raka sig og eru alltaf með margra daga hýjung, karlar sem þurfa að raka sig tvisvar á dag og aðrir sem þurfa ekki að raka sig nema einu sinni í viku eða sjaldnar. Það eru til karlar sem kunna ekki að grilla og finnst betra að vaska upp á eftir. Það eru til karlar sem skipta um eldhúsinnréttingar eða mála íbúðina af því að það er ekkert í sjónvarpinu. Það eru til karlar sem skilja orðið „nei“ og kunna líka að nota það sjálfir. Það eru til karlar sem elska konur og karlar sem elska karla. Það eru til karlar sem gráta þegar þeir hafa verið sviknir í tryggðum. Og öfugt.

Það eru til alls konar karlar. Alvöru karlar.

En alvöru karlar eru ekki óvinir alvöru kvenna.

Og öfugt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.