Höfundur: Gísli Ásgeirsson
Um þessar mundir eru 40 ár frá því að Bandaríkjaþing samþykkti lög, svonefnd Title IX, sem kveða á um að opinberar stofnanir, s.s. skólar, leggi jafnmikið fé í íþróttir karla og kvenna. Í Kanans landi koma skólar í stað hefðbundinna íþróttafélaga og þessi lög höfðu þau áhrif að þátttaka kvenna í íþróttum fór úr 1% í 40% á tæpum 30 árum. Þótt margir teldu þetta sjálfsagt réttlætismál linnti ekki kærum og dómsmálum næstu áratugina, þar sem reynt var að túlka og teygja ákvæðið í allar áttir. Andstæðingar laganna tala um kynjakvóta og jákvæða mismunun, fylgjendur þeirra benda á gífurlega aukningu í þátttöku kvenna í íþróttum og árangur þeirra á heimvísu í kjölfar þeirra. Þessi umræða er enn lífleg eins og sjá má hér. Áhrif laganna á jafnrétti eru óumdeild og þeirra gætir jafnmikið utan vallar sem innan.
![]() |
Körfuboltalið Yeddah United |
Meðan grannar okkar í vestri fagna þessum tímamótum, vannst áfangasigur í Sádi-Arabíu. Sádar féllust á það með semingi að leyfa konum að keppa á Ólympíuleikunum í London sem hefjast eftir mánuð. Til þess þurfti að beita hörðu því IOC hafði hótað að meina Sádum þátttöku vegna kynjamismunar. Að vísu er þeim mikið í mun að konurnar gæti virðingar sinnar í klæðaburði og talið er að keppendur í kvennaflokkum verði í víðum klæðnaði og með höfuðklút sem hylur hár en ekki andlit. Þetta er gert til að viðhalda virðingu þeirra, eins og segir í yfirlýsingu.
Þótt Vesturlandabúum þyki þetta svo sjálfsagt að varla þurfi um að ræða, eru ýmsir trúarhópar þar eystra ákaflega ósáttir við ákvörðunina og spáð er mótmælum og kröfugerðum þegar eina konan í keppendahópi Sáda, þreytir keppni í hestaíþróttum. Í landi þar sem konur mega ekki aka bíl, telja sjálfsagt einhverjir að þær geti trauðla stjórnað hesti í stökkum yfir hindranir.
Spurningin í fyrirsögninni á að tilheyra fortíðinni. Það á að ganga út frá þátttöku beggja kynja sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut. Konur eiga ekki að þurfa að biðja um leyfi til að vera með, heldur mæta og taka þátt.