Svör forsetaframbjóðenda

Knúzið sendi öllum frambjóðendum til forseta Íslands 2012 stuttan spurningalista um viðhorf þeirra til femínisma og jafnréttis. Svörin voru áður birt á vefnum í þeirri röð sem þau bárust en eru endurtekin hér til þægindaauka fyrir kjósendur. Einn frambjóðandi kaus að svara ekki spurningum Knúz. Allar myndir eru af http://www.attavitinn.is/fjolskyldan-og-thu/rettindi/samfelagid/forsetinn-2012-hvad-skal-kjosa.

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir:


Ertu femínisti? Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?
Já ég er feministi. Bæði er ég feministi og jafnframt kona sem þori, get og vil taka þátt í að hafa áhrif á samfélagið. Ég skilgreini feminisma þannig að það er karl eða kona sem áttar sig á að við búum ekki við jafnrétti kynjanna og að það þurfi að gera eitthvað við því (þrátt fyrir að við hér á Íslandi séum lengra komin en víða annars staðar).Til þess geta verið ótal mismunandi leiðir, en aðalatriðið er að átta sig á þörfinni og hafa viljann.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti?
Ég tel að ég sjálf geti lagt mikið af mörkum hvort sem ég er í embætti forseta eða ekki, með því að þora, geta og vilja taka þátt í samfélagsumbótum með þeim hætti sem ég geri, skrifa um og tala fyrir jafnrétti. Það að vera fyrirmynd ungra stúlkna og drengja bara með því einu að birtast þeim með þessum afgerandi hætti hefur mikil áhrif og ég held að Vigdís Finnbogadóttir, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og fleiri konur hafi haft mikil áhrif á þær kynslóðir sem eru á lífi í dag, bara fyrir það eitt að hafa verið fyrirmyndir, talað fyrir og beitt sér fyrir kvenfrelsi og jafnrétti eða haft aðkomu að samfélagsumbótum með einum eða öðrum hætti. Ég myndi í embætti forseta tala fyrir réttlæti í víðtækum skilningi orðsins; það inniber jafnrétti kynjanna og jafnan rétt fólks almennt, almenn mannréttindi. Ég sé líka fyrir mér að styðja við mikilvæg samfélagsleg verkefni bæði hérlendis og erlendis, m.a. framgang kvenna.

Ari Trausti Guðmundsson:

Ertu femínisti?
Mér finnst fólk leggja ólíkan skilning í hugtakið. Ég skil það sem svo að femínisti sé sá sem hefur jafnrétti karla og kvenna að leiðarljósi jafnt í afstöðu til annarra í opinberu lífi sem í einkalífi, vinnu eða menningarstarfi. Í þessum skilningi er ég femínisti.

Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?Á sviði laga, reglna o.s.frv. – sem sagt í orði – er Ísland mjög langt komið en í verki skortir sums staðar á, t.d. í viðhorfum sem snerta vinnu eða jafna aðstöðu og enn oftar í opinberum viðhorfum einstaklinga. En þróunin leitar í rétta átt.

Hefur þú tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna og þá hvernig?
Ég hef skrifað fjölda blaðagreina í mörg ár og í sumum þeirra fjallað um jafnrétti kynjanna. Fyrir alllöngu var ég einn af fylgismönnum Kvennalistans, og við María bæði. Ég hef þó ekki starfað undanfarið í samtökum sem eruvirk í þessari jafnréttisbáráttu; ekki fremur en í öðrum grasrótarsamtökum.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti?
Því er ekki hægt að svara í stuttu máli og horfa um leið til eins eða tveggja kjörtímabila. Fyrir mér er ljóst að af því að forsetinn er fyrst og fremst maður orðs og samræðna getur hann bryddað upp á mörgum efnum þessa málaflokks og aukið og dýpkað rökræður um þau. Hann getur enn fremur t.d. rökfært fyrir þátttöku kvenna í ríkisstjórnum eða öðrum embættum. Forseti Íslands sýnir gott fordæmi í eigin starfsháttum og í starfsháttum embættisins sem vinnustaðar. Og í nýjum siðareglum embættisins kemur eflaust fram innlegg um jafnrétti. Forseti skiptir sér af mannréttindum utan Íslands með þeim hætti sem stjórnarskráin kveður á um; hann getur sett fram skoðanir á jafnrétti kynja í öðrum löndum; skoðanir sem eru hluti af málstað þjóðarinnar eins og hún samþykkir þær hverju sinni og jafnvel persónulegar skoðanir sínar í mannréttindamálum ef með þarf. Jafnréttisbarátta og fyrirkomulag jafnréttis er ferli sem lýkur seint eða aldrei af því samfélög breytast og mennirnir með.

Hannes Bjarnason:

Ertu femínisti?
Ef skilgreining á femínista á við um persónu sem er upptekinn af jafnrétti fólks á milli, unga sem aldinna þá er ég femínisti. Ef aftur á móti fólk túlkar femínista sem róttækan öfgamann þá er ég ekki femínisti. Það virðist vera mjög mismunandi túlkanir á femínista og femínisma. Að upplagi er ég ekki maður öfga og verð því ekki slíkur sem forseti.

Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?
Ísland hefur náð langt í baráttu fyrir jafnari stöðu kynjanna. Þó svo sé er hægt að benda á launamun karla og kvenna fyrir nákvæmlega sömu störf. Það er fullkomlega óásættanlegt að mínu mati.

Hefur þú tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna og þá hvernig?
Hef aldrei tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu öðruvís en þannig að taka virkan þátt og jafn mikinn þátt í heimilisstörfum á mínu heimili.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti?
Sem forseti gæti ég unnið að jafnrétti kynjanna á þann hátt að umræðan gleymdist ekki. Umræðan um mörg stór mál eins og jafnréttismál og einelti svo einhver dæmi séu tekin blússa upp inn á milli en svo er umræðan kringum þessi mál nánast enginn. Þetta eru mál sem við ættum alltaf að hafa í huga og hugsa til í daglegu lífi. Það ætti forseti að geta bent á.

Herdís Þorgeirsdóttir:

svaraði ekki spurningunum.

Ólafur Ragnar Grímsson:


Ertu femínisti?
Ég hef ætíð verið eindreginn jafnréttissinni og stutt jafnréttisbaráttu kvenna frá því ég hóf þátttöku í þjóðmálum. Femínisti er hins vegar hugmyndafræðilegt hugtak sem hefur mismunandi merkingar eftir því hver beitir því.

Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?
Í samanburði á heimsvísu er Ísland tvímælalaust meðal þeirra landa sem eru í efstu sætum enda hafa alþjóðlegar mælistikur og kannanir leitt það í ljós. Það er hins vegar margt óunnið en barátta undanfarinna áratuga hefur skilað árangri. Brautryðjendurnir sem héldu á brattann eiga því heiður skilið.

Hefur þú tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna og þá hvernig? 
Þegar ég var valinn sem ungur fræðimaður til að hefja kennslu í þjóðfélagsvísindum við Háskóla Íslands árið 1970 settum við jafnrétti á efnisskrá námsins. Ég stjórnaði síðan fyrstu rannsókninni á jafnrétti kynjanna sem gerð var á Íslandi í kjölfar þingsályktunar sem Alþingi hafði samþykkt en nemandi minn Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir vann að rannsókninni. Síðan annaðist ég ritstjórn rannsóknarinnar þegar hún kom út í bókinni Jafnrétti kynjanna sem Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands gaf út. Það var fyrsta ritið í þeim flokki. Síðan hef ég á margvíslegan hátt lagt jafnréttisbaráttunni lið en of langt mál yrði að telja upp alla þá þætti, viðburði og áfanga í baráttunni.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti?
Með málflutningi, stuðningi við samtök, málþing og annan umræðuvettvang. Framlag og áherslur forsetans geta oft orðið að liði.

Þóra Arnórsdóttir

Ertu femínisti?
Já, ég er femínisti og ég held að allar konur séu það í raun. Líka flestir karlar. Femínismi er vítt hugtak og getur verið fræðilegt eða pólitískt, án þess þó að snúast um hægri eða vinstri. Fyrir mér er femínismi lífsskoðun þeirra sem telja að fullt jafnrétti eigi að ríkja á milli karla og kvenna, en að því markmiði hafi ekki enn verið náð og vilja gera eitthvað í því. Femínismi er þannig nátengdur og samofinn þeim gildum sem ég vil halda í heiðri í mínu einkalífi og sem ég tel að við ættum að hafa í hávegum í samfélaginu; jafnrétti, heiðarleika, umburðalyndi, víðsýni, frelsi og mannúð.

Telurðu að Ísland sé land jafnrar stöðu kynjanna?
Lagalegt jafnrétt er ekki það sama og jafnrétti í reynd. Hér hefur mikið verið gert til að skapa konum og körlum jafna stöðu að lögum, en svo kemur til kasta samfélagsins, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að vinna með þau verkfæri sem því eru gefin. Hér er enn launamunur, konur eru alltof fáar í stjórnum fyrirtækja og ýmsum ábyrgðar- og stjórnunarstöðum, svo dæmi séu tekin. En ég fagna hverju skrefi fram á við, hverjum ávinningi og hverju vígi sem fellur.

Hefur þú tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna og þá hvernig?
Ég held að jafnréttishugsunin sé svo samofin öllu því sem ég tek mér fyrir hendur að ég sé í jafnréttisbaráttu alla daga. Ég tel að við verðum stöðugt að berjast fyrir jafnrétti og ávallt að vera á varðbergi svo við glötum ekki því sem þegar hefur áunnist. Ég er femínisti. Maðurinn minn er femínisti. Vonandi tekst okkur að ala börnin okkur upp sem femínista, bæði soninn og dæturnar. Það ættum við öll að gera og um það markmið ættum við að geta sameinast.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú getir unnið að jafnrétti kynjanna sem forseti
Með því að halda vöku minni gagnvart jafnréttismálum og gera mitt til að halda athygli annarra vakandi gagnvart þessum málum. Fjalla um þau opinberlega og hvetja aðra til umræðu. Nái ég kjöri hef ég í hyggju að funda reglulega með áhrifafólki á öllum sviðum þjóðlífsins og þar gæfist mér gott tækifæri til að ræða þetta mikilvæga mál. Einnig tel ég að það skipti miklu máli hvers konar fyrirmynd forsetinn er og að það geti verið lóð á vogarskálarnar að forsetinn sé kona á barneignaraldri, með heimavinnandi maka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.