Síðbúin minningargrein og sitthvað um Knúzið

Höfundur: Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

Hugmyndin að Knúzinu kviknaði eftir langa andvökunótt. Gunnar Hrafn var nýdáinn, og ég sat hálfvolandi í stofusófanum hér í kjallaraholunni og reyndi að koma einhverju skikki á tilfinningar mínar.

Kjaftháttur og dúllujól

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég tók að skiptast á orðum við Gunnar Hrafn á feisbúkk. En ég man að það var á síðu sameiginlegrar vinkonu okkar, Þórdísar Gísladóttur. Í fyrstu voru það bara kurteisleg læk og athugasemdir, en síðan byrjuðum við á því sem varð okkar helsta skemmtun þaðan í frá: að rífa kjaft hvort við annað. Ég kallaði hann strigakjaft, hann mig grásleppukjaft – ég sagði honum að halda kjafti, hann sagði mér að éta skít … o.s.frv. Ég sagði: „Hoppaðu bara upp í rassgatið á þér!“ og hann svaraði: „Talk to the hand, ‘cause the ear ain´t listening!“
Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að með þessum lýsingum passar helst viðkvæðið:
„You had to be there.“ Og mörg ykkar voruð það.

Vart leið sá dagur að ég skiptist ekki á orðum við GH og fleiri netvini okkar. Drottinn minn dýri, hve oft var gaman í því selskapi. Og þessi netvinátta náði örlítið út fyrir lendur internetsins. Ég fékk hreinlega sting í hjartað þegar mér barst óvænt sending frá Svíþjóð rétt fyrir jólin 2010. Það var hekluð dúlla (já, margir héldu að hann væri að grínast þegar hann sagðist hekla dúllur!) og fallegt útklippt jólakort með bleikum kreppappír þar sem stóð einfaldlega: „Dúllujól 2010 – *knúz*.“ Eftir þetta skiptumst við oft á smápökkum og gerðum hvort öðru greiða.

Ég hitti Gunnar Hrafn aðeins einu sinni í lífinu, en mikið er ég þakklát þeirri tilhögun Þórdísar og örlaganna. Það var í boði í Norðurmýrinni, nokkrum vikum áður en hann dó. Um leið og ég gekk inn um dyrnar rak hann upp roknahlátur. „Ertu að hlæja að mér, skömmin þín?“ sagði ég hálfstressuð, en gat ekki annað en tekið undir með honum. Og hvað hún leið hratt, þessi dásamlega kvöldstund með safírbláu Bombay-gini, frábærum gestum og ómótstæðilegum gestgjöfum.

Að finna sorginni farveg

Myndina sem Gunnar Hrafn tók við Eyrarsundsbrúna, rétt áður en hann steig út í hafið að morgni 4. ágúst í fyrra birti hann samviskusamlega á Google+. Frá því að ég sá myndina og þar til hringt var í mig með hina hvítu fregn liðu kannski tveir tímar. Tæknin getur stundum verið bæði einstök og óhugnanleg í senn.

Sorgin lagðist yfir netheima. Við kunningjar hans og vinir urðum svo óendanlega sorgmædd yfir þessu lífi sem var slokknað. Yfir konu hans og börnum, yfir móður hans og systkinum. Yfir þessum einstaka vini okkar sem nú var horfinn.

Og næstu daga á eftir upplifði ég það sem Gerður Kristný, sameiginleg netvinkona okkar Gunnars Hrafns, sagði í svipuðum pælingum: „ Mér finnst eins og ég eigi ekki rétt á þessari sorg. Að hún sé ekki mín.“ Mér leið einmitt þannig, vegna þess að ég þekkti Gunnar Hrafn nánast „bara” af netinu. Mig vantaði alveg farveg til að beina sorginni í. Því sat ég uppi heila nótt, las það sem Gunnar Hrafn hafði skrifað og hripaði síðan bréf til 26 fb-vina okkar, femínista, sem eins og Gunnar Hrafn, höfðu verið mun duglegri en ég í baráttunni. Það fer vel á því að birta örlítið brot úr því bréfi, sem sent var að morgni 6. ágúst:

„Það er ekkert rafrænt við sorgina og söknuðinn sem ég ber“ skrifaði Elísabet í minningarorðum á bloggsíðunni sinni. Ég get tekið undir með henni. Gunnar Hrafn hitti ég aðeins einu sinni, fyrir rúmum mánuði, en hafði verið í rafrænum samskiptum við hann daglega í á annað ár. Ég hygg að mörg ykkar hafi líka þekkt hann á þennan máta. Sum ykkar þekktuð hann þó mun betur, voruð æskuvinir hans, skólafélagar og meðleigjendur, vinnufélagar, sveitungar og góðkunningjar.

Síðan ég heyrði hin ömurlegu tíðindi af fráfalli Gunnars Hrafns hefur mér liðið eins og ég hafi óvenju þunga gangstéttarhellu á brjóstinu. Sjaldan hefur mér brugðið jafn mikið við nokkra andlátsfregn. Ég hef séð á eftir ófáum vinum mínum í dauðann, en engum svona kraftmiklum, heilbrigðum og fullum af vilja til þess að bæta heiminn.

Ég varð hryllilega reið við sjálfa mig þegar ég tók mig til í gær og skoðaði öll skrif Sigurbjarnar femínista. Ég uppgötvaði hversu sérhlífin ég hef verið, átakafælin, hrædd við gagnrýni og hreinlega húðlöt.

[..]

“EN: Lífið er svo fáránlega stutt og óréttlætið svo mikið. Mér finnst líka að við verðum að gera eitthvað almennilegt – ekki bara til þess að minnast okkar góða vinar – heldur einnig til þess að við getum sjálf nýtt hæfileika okkar og gagnrýna hugsun og reynt að standa sameinuð gegn því afli sem ég hef sterklega á tilfinningunni að sé við það að kaffæra Íslendinga í fordómum, hatri, bulli og vitleysu.”

Kraftur í Knúzinu

Til að gera langa sögu stutta, þá skrifaði ég bréfið vegna þess að mig langaði að athuga hvernig femmunum litist á að stofna nýtt femínistarit á netinu. Viðbrögðin voru gríðargóð, stofnfundurinn var haldinn 11. ágúst og margir mættu. Öll áttum við það sameiginlegt að vera full af eldmóði, en samt algerlega slegin út af laginu. Það var undarleg tilfinningablanda.

Aðeins fáeinum vikum seinna varð knuz.is til. Stefnt var að því að birta fyrstu greinarnar í námunda við afmælisdag Gunnars Hrafns og það gekk eftir, fyrsta greinin birtist 23. sept., en GH hefði orðið 36 ára sex dögum síðar. Ég sat í fyrstu ritnefndinni ásamt vefgúrúinu Hjálmari Theódórssyni, sem á allan heiður af hönnun vefsins frá upphafi, Helgu Kristínu Einarsdóttir, Drífu Snædal, Erlu Elíasdóttur, Arngrími Vídalín og Eyju M. Brynjarsdóttur. Við störfuðum fram að áramótum, en síðan tóku aðrir við.

Hópurinn í kringum Knúzið átti eftir að stækka, kannski um of á tímabili, en það jafnaðist allt út og á endanum voru sennilega 50 manns inni. Við í fyrstu ritnefndinni vorum rækilega hvött áfram og stutt af hópnum og við settum markið hátt. Ætluðum svoleiðis að frumbirta grein á hverjum virkum degi. Fyrstu dagana urðu þær jafnvel fleiri en ein á dag. Þvílíkur kraftur. Mikið var líka skeggrætt í lokuðum hópi Knúzverja, sem einhverjir fóru fljótlega að kalla „búnkerinn“ (hvað sem það átti nú að þýða!), fróðleik deilt, fréttir ræddar, greinar undirbúnar, smávegis rifist, en líka óskaplega mikið glaðst yfir litlum sigrum, gáfulegum greinum og vel orðuðum pistlum.

Breytingar í uppsiglingu – og kveðja

Þegar ég lít yfir þetta ár sem Knúzið hefur verið í loftinu, þá finnst mér það að mestu hafa verið skemmtilegt ár. Sjálf hef ég ekki verið meðal mestu dugnaðarforka, það verður að viðurkennast, en það vildi okkur öllum til happs að frábært fólk eins og Gísli Ásgeirsson, Kristín Jónsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir og Sigríður Guðmarsdóttir sýndi Knúzinu óbilandi áhuga. Fólkið í ritnefndunum, fólkið sem aldrei fór út úr búnkernum, fólkið sem fleygði fram hugmyndunum og barðist á öðrum vettvangi, fólkið sem þýddi og prófarkalas. Gott fólk og ég gleymi áreiðanlega einhverjum. Þó er engan veginn hægt að sleppa því að nefna fjölskyldu Gunnars Hrafns, sem studdi verkefnið frá upphafi – og okkur öll með ráðum og dáð. Innilegar þakkir fyrir það.

Já, það var í fyrradag sem ár var liðið frá andláti Gunnars Hrafns. Nú stendur til að breyta vefsíðunni og rjúfa þessa sérstöku tengingu við minningu hans, en áfram hyggjast duglegir og góðir femínistar skrifa á netið á léninu knuz.is. Það er eðli hluta að þróast og taka breytingum og öll erum við sátt við þessa niðurstöðu. Sum ætla að starfa áfram, önnur ekki, eins og gengur.

Það er umhugsunarvert að skapast hafi svo mikið hópefli í kringum minningu Gunnars Hrafns Hrafnbjargarsonar, að það hafi nægt til þess að halda úti fínu vefriti í heilt ár. Hann heillaði hvert okkar sennilega á sinn sérstaka máta, en ég elskaði kraftinn, lífsgleðina, húmorinn (strigakjaftinn) og réttlætiskenndina sem hann bjó yfir. Líka þá staðreynd að hann hvíldi svo innilega sáttur í sinni karlmennsku að hann heklaði dúllur og dúkkuföt í frístundum. Því er við hæfi að kveðja og þakka fyrir sig, birta mynd af dúllunni sem GH heklaði og blása löngu knúúúúzi! til ykkar allra.

dullur_ghh

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.