Getur gagnkynhneigð manneskja verið forsætisráðherra?

Höfundur: Anna Pála Sverrisdóttir

Einu sinni (fyrir langalöngu) var haft á orði að íslensk börn sem vanist hefðu við konu sem forseta ættu erfitt með að sjá fyrir sér karlmann í embættinu. „Getur kall orðið forseti?“ spurðu litlu krúttin og sýndu þar með fram á hve sýnileiki og fyrirmyndir skipta miklu.

Mynd: Þórdís Reynisdóttir

Samkynhneigðar manneskjur og annað hinsegin* fólk er líklega ekki jafn einfalt fyrir litla hausa að setja í kassa og fyrirbærið „kona.“ Fólk er ekki með kynhneigðina skrifaða á ennið á sér. Þess vegna er ekki fullvíst að barnakrútt dagsins í dag spyrji spurningarinnar í titli þessa pistils. En alveg eins og það er eitt lykilatriðið í kvennabaráttunni að konur raði sér í áhrifastöður, skiptir máli fyrir samfélagið og umheiminn að opinberlega hinsegin fólk geri slíkt hið sama og verði fyrirmyndir.

Femínismi og hinsegin barátta vinna saman

Skemmtilegt nokk hafa konur í áhrifastöðum haft mikil áhrif á réttindi hinsegin fólks. Ekki bara einstakar konur heldur kvennabaráttan sjálf. Femínismi getur ekki verið aðskilinn mannréttindabaráttu hinsegin fólks af því annars nær hún ekki markmiðum sínum.

Við sem erum lesbíur, hommar, tvíkynhneigð, transfólk eða „hinsegin“ að öðru leyti, njótum góðs af auknu kynjajafnrétti, vegna þess að það þýðir að hefðbundnum kynjahlutverkum, staðalímyndum og feðraveldi er smám saman hent út um gluggann. Þetta er sama upptalning og á hindrunum í vegi fyrir frelsi hinsegin fólks til að vera eins og það er. Það sem við berjumst öll á móti er þessi hugsunarháttur: „Ef þú fæðist í kvenlíkama þá átt þú að vera svona og svona og finna þér karl sem er svona og svona og hlutverkin í ykkar sambandi verða svona og svona.“

Sprengjusvæðið milli kvennabaráttu og hinsegin baráttu

Tengslin eru náin og mikilvæg en það er líka sprengjusvæði á mörkum hinsegin baráttunnar og femínismans. Kvennabaráttan hefur þannig stundum þótt einkennast af gagnkynhneigðu forræði, jafnvel að því marki að lesbíur hafa sagt mér að á fyrri tíð hafi þeim ekki fundist pláss fyrir sig innan kvennahreyfingarinnar. Femínisminn hefur þróast frá því það var en við þurfum engu að síður að passa upp á fjölbreytileikann innan femínismans.

Hinsegin baráttan hefur gengið út á að ögra ríkjandi gildum og þannig kemur hún inn á sprengjusvæðið. Oft hefur baráttan verið háð með einhvers konar sjokkmeðferð sem felur í sér að sýna hluti sem einhverjum hafa einhvern tímann þótt ógeðslegir og ósiðferðilegir. Hommar að kyssast á almannafæri gæti verið einfalt dæmi. En einmitt vegna þessarar nauðsynjar á að ögra hugmyndum fólks um hvað er viðeigandi og siðferðilegt í kynferðismálum, getur verið erfitt að finna mörkin. Hinsegin baráttan getur þannig átt á hættu að ýta undir klámvæðingu og hlutgervingu á fólki. Munum að hinsegin fólk er svo margt fleira en bara kynverur þótt sú hlið geti verið sú sem er einfaldast að sýna.

Mynd: Kjartan Jónsson

Í hinni annars mögnuðu gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík má alltaf sjá einhver dæmi sem fá mig til að brosa öfugt. Ég sé til dæmis ekki hver tengslin eru á milli súludans og réttindabaráttu hinsegin fólks. Hvað þá að þau séu svo sterk að í göngu með takmörkuðum fjölda atriða þurfi að vera tveir vagnar undir súludans eins og í ár. Án frekari málalenginga held ég að súludans ýti undir það að horft sé á konur og fólk almennt sem hluti. Við erum ekki hlutir, við erum öll manneskjur sem eigum að búa við mannréttindi, reisn og raunverulegt frelsi til að velja í lífinu. Út á það gengur bæði kvennabaráttan og hinsegin baráttan.

*Ég er reyndar ekki sannfærð um notkun frasans „hinsegin fólk“ og aðgreininguna sem felst í að nota hann. En ég veit bara ekki hvaða annað íslenska orðalag er betra að nota yfir þann hóp fólks sem hefur aðra kynhneigð en gagnkynhneigð og/eða óhefðbundin kynhlutverk.

6 athugasemdir við “Getur gagnkynhneigð manneskja verið forsætisráðherra?

  1. Flott grein. Hinsegin er einfaldlega íslenskun á enska orðinu „queer“, sem er notað nú til dags sem regnhlífarhugtak yfir alla sem eru „öðruvísi“ kynferðislega eða kynímyndarlega séð. Auðvitað má finna annað orð en hinsegin, en það er búið að nota það nú í talsverðan tíma og er orðið frekar rótgróið í málinu, þannig að það gæti verið dálítið erfitt að skipta um. Það sem máli skiptir er að hér er verið að taka hugtak sem var upprunalega notað í neikvæðum tilgangi og gera það jákvætt, hvað getur verið jákvæðara en það?

  2. Ég hef oftast notað STT (samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, transgender) sem er tilraun til þýðingar á LGBT, en annars er ég farinn að kunna ágætlega við hinsegin, því það nær utan um enn fleira en STT, rétt eins og queer gerir.Annars eru öll þau hugtök sem við notum umdeilanleg. Ég þekki fólk sem þolir ekki orðið kynhneigð yfirhöfuð enda orðhlutinn -hneigð aðallega notaður til að tákna neikvæða hluti svo sem ofbeldishneigð, árásarhneigð. Orðið transgender sem hefur skipað sér ákveðinn sess er samt ekki fullkomið, enda beinupptekið úr ensku og það lítur því útlenskt út, og einnig er óljóst hvort eigi að bera það fram með „g“ hljóði eða „dj“ hljóði.

  3. Góð ábending með súludansvagnana. Ég fylgdist með göngunni í fyrra og tók eftir athyglinni sem súludansstöðin fékk út á þetta, en í viðtali við forsvarskonu hópsins kom fram að þetta var í raun lítt dulbúin auglýsing fyrir súlufimina. Er þá í raun hægt að mæta með auglýsingavagn í gönguna að ári og miðla boðskap sínum á hinsegin forsendum?

  4. Það er rétt sem einn hérna fyrir ofan sagði að þetta með pole fitness vagnana hafi klárlega verið til að auglýsa stúdíóin. Smá innlegg varðandi þetta frá mér.Hvernig getur súludans og súlufitness ýtt undir það að sé litið á konur sem hluti? Er ekki hluti af femínisma og jafnrétti að fólk geti verið eins sexy og það vill án þess að vera hlutgert. Sjálf er ég femínisti og stunda pole fitness og dans og elska að dansa sensual og koma fram. Og svona til að koma því á hreint þá eru flestir sem æfa pole fitness hér á íslandi bara að æfa pjúra pole fitness mínus dans og munúð(ekki að það sé neitt að því heldur)

  5. Súlustaðabransinn gerir út á að selja aðgang að kvenlíkömum og á lítið skylt við íþróttaiðkun (fyrir utan að klámbransinn þrífst víst vel í kringum íþróttamót eins og oft er rætt í kringum t.d. HM í fótbolta). Það er staðreynd, hvort sem einhverjir stunda síðan súludans sem íþrótt.Ef marka má myndina með greininni sýnist mér stúlkurnar mun frekar vera íþróttalegar en að þær séu gerðar að kynferðislegum hlutum. Persónulega finnst mér svona auglýsingamennska í kringum fallega og mikilvæga hluti eins og Gleðigönguna hrikalega óviðurkvæmilegir, hvort sem það er líkamsræktarstöð eða gosdrykkjaframleiðandi sem misnotar viðburðinn.Skemmtilegt að minnast drengsins sem sá konu hengja þvott á snúru og sagði „abbababb, kona að hengja upp þvott!“ Á hans heimili var þvotturinn alfarið í höndum föðurins og taldi hann það skipulag hið eina rétta.

  6. Bakvísun: Af hverju er ég svona hinsegin? | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.