Hvað er kona?

Höfundur: Anna Stína Gunnarsdóttir


Málefni transfólks hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu. Á nýafstöðnum Hinsegin dögum fékk transfólk talsverða (og verðskuldaða) athygli, ekki síst heimildarmyndin Hrafnhildur, eftir Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, sem var frumsýnd á þriðjudaginn var í Bíó Paradís. Fyrir þau sem ekki vita er transmanneskja einhver sem upplifir sig af öðru kyni en því „líffræðilega.“ Kona fædd í karlkyns líkama er því transkona, meðan maður fæddur í kvenkynslíkama er transmaður. Til að gera greinarmun á þeim sem eru trans og þeim sem eru það ekki er oft talað um cisfólk (borið fram „sísfólk“), þ.e. fólk sem upplifir sig af sama kyni og læknir ákvarðaði við fæðingu, en cis er andstæðan við trans. Ferlið sem transmanneskja fer svo í gegnum til að samræma ytra útlit við það kyn sem henni finnst hún tilheyra er kallað kynleiðréttingarferli, enda er verið að leiðrétta líffræðilegt kyn hennar, ekki breyta því. Orðið hinsegin er síðan eins konar regnhlífarhugtak yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, transfólk og allt annað sem fyrirfinnst í flóru kynhneigðar og kyntjáningar.
Margt cisfólk á erfitt með að átta sig á transfólki og aðstæðum þeirra. Þau sem eru svo heppin að passa í eigin líkama frá fæðingu eiga það yfirleitt til að taka eigin kyni sem sjálfsögðum hlut og hugsa því afskaplega lítið um það. Þegar fólk kynnist svo transmanneskju í fyrsta skipti eða fréttir af henni getur það svipt stoðunum undan þessari áður öruggu heimsmynd og virkað ógnandi. Það er því miður frekar algengt að fólk bregðist við með að tala illa um transfólk og segja það jafnvel truflað á geði, einfaldlega vegna þess að það skilur ekki hversu breytilegt kyn og kyntjáning getur í raun og veru verið.
Þó að samfélagið í dag sé frekar opið fyrir mismunandi kynhneigðum er ekki alltaf það sama að segja um kyntjáningu. Konur eru konur og karlar eru karlar og það er lítið rými fyrir allt það sem kemur náttúrulega inn á milli. Það vill nefnilega svo til að líffræðilega séð er sáralítill munur á körlum og konum. Öll erum við af sömu dýrategund, höfum svipaðan heila og svipaða byggingu, það er aðeins smávægilegur munur á kynfærum sem er notaður til að úrskurða um hvort einstaklingur er karlkyns eða kvenkyns. Strax við fæðingu hefst þessi aðskilnaður kynjanna og einstaklingurinn er alinn upp til að hegða sér í samræmi við það kyn sem honum er ákvarðað eftir fyrirfram ákveðnum samfélagslegum hefðum.
Þessar hefðir eru mismunandi eftir samfélögum, oft svo mjög að það sem telst karlmannlegt í einu samfélagi er talið kvenlegt í öðru. Það virðist því gjarnan vera tilviljanakennt hvað er talið karlmannlegt og hvað kvenlegt. Hér á landi teljum við okkur vera frekar langt komin í að fjarlægja mismunun milli kynjanna og þar af leiðandi stokka eitthvað upp í þessum tilviljanakenndu flokkunum. Það þarf hins vegar ekki annað en að líta til næstu transmanneskju til að sjá hvað samfélag okkar er í raun enn í föstum skorðum.
Það er mikil vinna að vera kona, hvort sem hún er cis eða trans. Ekki aðeins þurfa konur að berjast við óréttlæti á fjölmörgum vígstöðvum, heldur er einnig ætlast til að þær eyði hárum, gangi í hælum, liti hárið, í stuttu máli, breyti líkama sínum, aðeins til að virðast vera af því kyni sem þær upplifa sig. Ciskonur eiga því talsvert meira sameiginlegt með transkonum en þær virðast hafa við fyrstu kynni. Það mætti jafnvel segja að allar konur séu að einhverju leyti trans, ef þær á annað borð kjósa að breyta og bæta eigin líkama með misalvarlegum aðgerðum.
En hugrekkið sem þarf til að vera sjálfstæð kona í dag er engu að síður ekki nema brotabrot af því sem þarf til að vera sjálfstæð transkona. Það var því ekki laust við að fólk táraðist á opnunarhátíð Hinsegin daga, þegar transkonan Anna Kristjánsdóttir var heiðruð fyrir áralanga og oft harða baráttu sína og sýnileika í gegnum tíðina. Salurinn stóð upp, allur sem einn, og fólk klappaði og blístraði, sem sýnir hvað best hversu mikið hún átti heiðurinn skilinn.
Sem betur fer eru tímarnir breyttir og annað að koma út sem transkona í dag en þegar Anna kom fyrst út. Í heimildarmynd Ragnhildar Steinunnar kom þó fram að enn þarf transfólk að berjast gegn fordómum, gjarnan hjá sínum allra nánustu. Þar kom til dæmis í ljós að sumum fannst Hrafnhildur eigingjörn að vilja ganga í gegnum þetta ferli án þess að taka tillit til væntinga annarra til sín. Ferlið er að sjálfsögðu erfitt fyrir aðstandendur transmanneskjunnar, en að öllum líkindum aldrei eins erfitt og fyrir transmanneskjuna sjálfa. Áhorfendur hafa í það minnsta getað fundið til samkenndar með Hrafnhildi, enda hafa allir lent í því á einhverjum tímapunkti að þurfa að berjast gegn þeim væntingum sem nákomnir höfðu til þeirra. Það vakti þó ekki síst athygli greinarhöfundar að það var ekkert farið í kynhneigð aðalpersónunnar í myndinni. Það er býsna vel af sér vikið, enda kemur kynhneigð kyni sáralítið við, eins og hver viti borin hinsegin manneskja (og vonandi margar aðrar) getur vottað um.
Fyrir konur sem eru ósáttar við stöðu sína í samfélaginu í dag eru hinsegin konur mikilvægar fyrirmyndir. Þær brjóta upp múra sem liggja á milli hinna fyrirfram ákveðnu kynja og sýna fram á hvað er hægt óháð líkamanum sem maður býr í. Transfólk eru þar sérstaklega jákvæðar fyrirmyndir, enda eru þau að vinna ómetanlegt starf í að endurskilgreina það sem er talið kven- og karlmannlegt og sýna fólki að það er ekkert sem karlmaður getur gert sem kona getur ekki gert og öfugt. Allar konur alls staðar, sama hvers kyns þær eru, ættu því að þakka transfólki fyrir innlegg sitt í réttindabaráttuna með því að standa upp fyrir þeim. Og klappa.

8 athugasemdir við “Hvað er kona?

  1. „Það mætti jafnvel segja að allar konur séu að einhverju leyti trans, ef þær á annað borð kjósa að breyta og bæta eigin líkama með misalvarlegum aðgerðum.“Ótrúlega áhugaverður punktur sem ég hef aldrei spáð í, amk. ekki út frá þessu sjónarhorni – takk fyrir það!

  2. Flott grein sem tengir vel saman menningu og mótun kyngervis og kynferðis. Við erum öll ósköp flókin og það er frábært. Takk Anna Stína!P.S. Þegar ég set inn athugasemd við þessa grein hér á knúzinu, þá segir tölvan: „Choose an identity“. Skondið.

  3. Sammála Höllu að það er áhugaverður punktur að segja mætti að flestar konur séu í einhverjum skilningi trans – reyndar margir karlar líka.Best væri ef við gætum tekið öllum eins og þeir eru, án fyrirfram ákveðinna væntinga. Til þess að það geti orðið þurfa held ég allir að byrja á sjálfum sér – líta í eigin barm og velta aðeins fyrir sér á gagnrýninn hátt hvað maður gerir til að falla inn í ákveðinn hóp. Ekki endilega til þess að hætta t.d. að ganga í háum hælum, raka hár, byggja upp vöðvamassa, o.s.frv., heldur bara til þess að átta sig á að fólk gerir ýmislegt sem því er þvert um geð bara til að falla inn í ákveðin norm.

  4. Takk kærlega fyrir þessa grein! Ég hlakka mikið til að sjá myndina. Ein pæling: Eru þær konur trans sem ganga á hælum og lita á sér hárið? Hvað með þær konur sem gera það ekki? Alls ekki allar trans konur lita á sér hárið, mála sig eða raka. Þessari staðalmynd er mikilvægt að að breyta. Allur gangur er á því hvernig trans konur klæða sig, hvort þær máli sig o.s.frv.Í þessu samhengi er áhugavert skoða hve sjaldan karlmennska er séð sem performans, yfirleitt er einblínt á kvenleika, að hann sé tilbúningur en karlmennskan er það sem miðað er við. Hugmyndir mínar um kyn breyttust mikið við að lesa verk femínistans og trans konunnar Juliu Serano. Mæli með henni fyrir alla. Hún kollvarpaði alveg hugmyndum mínum um kvenleika!

  5. Þetta er mjög góð pæling hjá nöfnu minni. Auðvitað eru allar konur jafn miklar konur, hvort sem þær eru trans eða ekki, ganga í hælum eða ekki, mála sig eða ekki. En mér hefur fundist alveg sérstök tilhneiging hjá transvinkonum mínum til að fara út í öfgar „kvenleikans“, bara til að virðast vera meiri kona. Þannig ætti það náttúrulega ekki að þurfa að vera. Hins vegar eru margar transkonur sem gera það ekki, þó margar kjósi að nota einhvern farða til að undirstrika „kvenleg“ einkenni og draga úr þeim „karlmannlegu“. Að sama skapi veit ég um nokkra transmenn sem kjósa að mála sig og tek ég ofan af fyrir þeim 🙂

  6. Bakvísun: Minna af sálfræði – meira af hormónum! | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.