Útvarp allra landsmanna leitar að lífsskoðunar- konu

Höfundur: Hildur Knútsdóttir

Hamborgaraforkólfar. Mynd er fengin af fb-síðu Popppunkts.

Ég held það séu flestir orðnir þreyttir á hausatalningu femínista, og þá ekki síst femínistar sjálfir. Vandamálið er bara að kynjahlutföll breytast lítið sem ekkert og þegar maður er á annað borð búinn að venja sig á að vera vakandi fyrir þeim þá er erfitt að loka augunum fyrir þeim aftur. Og þótt hlutirnir geti oft verið æði flóknir og hausatalning gefi ekki endilega alltaf skýra mynd af stöðu jafnréttismála þá er hún engu að síður handhægt tæki til þess að bregða upp einhvers konar mynd. Því þegar maður þarf að sitja undir því að fletta kannski fjórum sinnum í dagblaði og horfa á nokkra klukkutíma í sjónvarpinu samfleytt án þess að sjá konu, þá hlýtur það að segja manni að eitthvað sé ekki í lagi.

Samt þykjast miðlar vera allir af vilja gerðir til þess að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og hinn 21. júní 2011 samþykkti RÚV til að mynda nýja jafnréttisáætlun á stjórnarfundi. Þar stendur m.a.:

Á RÚV eru lagðar ríkar skyldur sem lúta að útvarps- og sjónvarpsþjónustu í almannaþágu. RÚV telur mjög mikilvægt að reynsla og viðhorf bæði karla og kvenna séu sýnileg í allri dagskrá. Með gerð nýrrar jafnréttisáætlunar eru sett fram sérstök markmið og aðgerðir sem eiga að jafna hlut kynjanna í dagskrá. […] RÚV vill endurspegla sem flest svið samfélagsins með því að gera röddum kvenna og karla jöfn skil. […] Dagskrárgerðarfólk og fréttamenn skulu vera meðvitaðir um að leita jafnt til karla og kvenna eftir viðtölum eftir því sem því verður við komið.

Þrátt fyrir þetta hafa kynjahlutföllin hjá RÚV síður en svo verið til fyrirmyndar og fjölmargir hafa fundið sig knúna til þess að hvetja stofnunina til þess að hafa jafnréttissjónarmið í huga í sjónvarpsefni sínu og þá ekki síst í innlendri dagskrárgerð. Í fljótu bragði man ég eftir því að hnýtt hafi verið í RÚV fyrir skökk kynjahlutföll í þáttunum Silfri Egils, Kiljunni, Hljómskálanum, Gettu betur og EM stofunni.

Og nú er komið að því að ég hnýti í Popppunkt.

Útfararstjórar. Myndin er fengin af fb-síðu Popppunkts.

Ég hef skilning á því að það geti reynst þáttastjórnendum erfitt að hafa kynjahlutföll sem jöfnust þegar hendur þeirra eru fyrirfram bundnar af því að bjóða einungis hljómsveitum í þáttinn til sín. En nú í sumar hefur Popppunktur att saman starfsstéttum en ekki hljómsveitum. Þetta hefði ég talið prýðisgott tækifæri fyrir þáttastjórnendur til að fá fleiri konur í þáttinn og mér er fyrirmunað að skilja hversvegna lið háskólakennara var til að mynda eingöngu skipað karlmönnum. Og lið auglýsingastofa og lífsskoðunarfólks voru einungis skipuð karlmönnum, þó fjölmargar konur starfi við auglýsingagerð á Íslandi og það hlýtur fjandakornið að vera hægt að finna konu sem hefur einhvers konar lífsskoðun.

Þegar bent er á skökk kynjahlutföll viðmælenda í fréttum og annarri dagskrárgerð eru viðbrögðin vanalega sama kvakið um að erfiðara sé að fá konur til þess að taka þátt. Það má svosem vera, ég veit ekkert um það, en mér finnst það ekki afsaka neitt. Dagskrárgerðar- og fréttafólk þarf þá bara að hafa aðeins meira fyrir því að finna þátttakendur og viðmælendur. Mér finnst það nefnilega alls ekki óraunhæf krafa að þeir sem vinni í sjónvarpi allra landsmanna reyni að muna að hér búa bæði karlar og konur. Og það væri óskandi að fjölmiðlafólk hefði metnað til þess að leggja sig fram um að gefa raunsanna mynd af fólkinu sem býr í landinu, frekar en að fara alltaf fljótlegustu og þægilegustu leiðina að starfinu.

3 athugasemdir við “Útvarp allra landsmanna leitar að lífsskoðunar- konu

  1. Ég tók eftir þessu. Og maðurinn minn, sem er mjög jafnréttismiðaður og mikill femínisti alla jafna, fór að fabjúlera með að setja saman lið úr sinni stétt. Taldi samstundis upp fjóra einstaklinga sem hann myndi setja í liðið (ástamt sér, vitaskuld) allt karlmenn.Ég starði nú bara í forundran.Tekið skal fram að maðurinn minn er grunnskólakennari.

  2. Þetta hefur líka verið vandamál þegar settir eru saman ráðgjafahópar fyrir frumkvöðla. Oftast eru allt karlmenn fyrir utan eina „token“ konu. Það sem er einkennandi fyrir þetta er að þeir sem leita að fólkinu (þeir sem stjórna) eru oftast karlmenn og aðspurðir hvers vegna þarna séu engar konur er eins og þeir komi af fjöllum og segjast svo ekki hafa dottið neinar konur í hug. „Getur þú mælt með einhverri?“ Þegar ég byrja svo að telja upp fjöldan af þekktum nöfnum þá hvá þeir og segja að það sé svo erfitt að fá konur í svona verkefni. Mitt svar við því er að jú, það getur vissulega verið erfitt að fá konur til að mæta með þeim stutta fyrirvara sem oftast er gefinn. Ég fékk einu sinni klukkutíma fyrirvara og varð að gefa svar á staðnum. En fengju þær lengri fyrirvara þá myndu þær eflaust mæta. Því miður er það þannig á mörgum heimilum að það er konan sem ber ábyrgð á að sækja börn á leikskóla, fara í Bónus og elda kvöldmatinn og ef einhver hringir með „frábært tilboð um að mæta í frábært verkefni eftir klukkutíma og þú verður að svara mér núna“ þá er það hreinlega ógerlegt fyrir viðkomandi konu að taka því boði þegar hún hefur ríkari ábyrgð annars staðar. Fyrir þá sem segjast ekki þekkja neinar konur, þá ættu þeir kannski bara að fara í það verkefni að kynnast fleiri konum til að bæta í tengslanetið sitt.

  3. Akkúrat! Og svo ég endurtaki það sem ég sagði í Facebook-athugasemd um pistilinn: Ef illa gengur að fá konur til koma fram í tilteknum þætti þá finnst mér að þáttastjórnendur ættu að velta því fyrir sér hvað það sé við þáttinn þeirra sem veldur því að konur vilja ekki vera með í honum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.